Bannað að flytja út Íslenskan lakkrís nema fyrir erlendan gjaldeyri

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvert stjórnvöld á Íslandi stefna með þrengingu gjaldeyrishaftanna.

Nú er má ég ekki kaupa Íslenskar vörur fyrir Íslenskar krónur, ef ég ætla vörurnar til útflutnings.

Ég má til dæmis ekki selja 1000 flöskur af hlynsýrópi til Íslands fyrir 1000 krónur flöskuna, taka þá milljón sem ég fæ fyrir og kaupa mér Íslenskan lakkrís fyrir og flytja hingað til Kanada (þetta er ekki raunverulegt, heldur nefnt hér sem dæmi).

Nei, fyrir lakkrís til útflutnings skal greitt með erlendum gjaldeyri.

Íslensk fyrirtæki mega ekki taka við Íslenskum gjaldeyri ef varan er ætluð til útflutnings.

Sjálfsagt styttist í það að ferðamönnum verður bannað að koma með Íslenskar krónur til landsins, þeim verður gert skylt að nota erlendan gjaldeyri.  Jafnframt verður þeim líklega gert skylt að skipta honum í ríkisbönkunum.  Sjálfsagt mega þeir eiga von á fangelsi eða sektum ef þeir verða uppvísir að því að skipta "á svörtum". 

Höft leiða af sér frekari höft, höft leiða af sér frekari þörf fyrir eftirlit og löggæslu.

Ég hef áður sagt það að Íslenskir stjórnmálamenn eru "ráðstjórnarlegri" en oftast áður, þetta er ein birtingarmynd þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eins og þú hefur væntanlega lesið um er þetta neyðaraðgerð til að koma í veg fyrir að gengi krónunnar hrynji enn frekar en orðið er.

Krónan er orðin gervigjaldmiðill, henni er haldið uppi með þessum fullkomlega óeðlilega hætti vegna þess að af hugmyndafræðilegum ástæðum rembast pólitíkusar við að halda í hana. Þeir halda að hún sé hluti af sjálfstæði þjóðarinnar.

Hvað ætli myndi gerast ef höftunum yrði aflétt? Yrðu þá ekki öll jöklabréfin innleyst og allur gjaldeyrisvaraforðinn hyrfi?

Æi hvenæar á að hætta þessu krónukjaftæði?! Allir sem líta málið frá praktísku sjónarhorni, þ.e. atvinnurekendur, vilja taka upp Evru. Krónusinnar virðast vera það af einhverjum hugsjónaástæðum. Frjálslyndi flokkurinn auglýsir andstöðu við ESB með tilvitnun í þjóðernissöng: Ísland sé frjálst meðal sól gyllir haf.

Það er sumsé álitð spurning um frelsi og sjálfstæði að vera utan ESB. Meira bullið.

Kristján G. Arngrímsson, 2.4.2009 kl. 20:22

2 identicon

Það er nú þannig að þegar einhver hefur eytt um efni fram þarf að setja honum fastar reglur.  Hann lærir lítið á því að fá annan gjaldmiðil til að eyða. En ætli eyðslupúkinn og græðgisfíkillinn reyni ekki alltaf að finna nýjar leiðir til að róta meiru til sín svo hann geti haldið lifistandardinum áfram, er það ekki það sem er kallað bussiness og frjáls viðskipti. 

Er ekki tímabært Tómas að gera sér grein fyrir af hverju svona er komið frekar en að fara að dásama vöruskiptabúskap er hann betri en ráðstjórn :)

Sigurður Haraldsson

Sigurður Haraldsson (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 09:34

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað marklaust að ætla að láta sem svo að verð krónunnar stjórnist á einhverjum markaði, ef síðan á endalaust að hnika til reglum þess markaðar þangað til rétt niðurstaða fæst.

Hver vegna gefur þá ríkisstjórnin/Seðlabankinn ekki hreinlega út skráningu og segir að öll viðskipti með gjaldeyri verði að fara í gegnum Seðlabankann eða umboðsmenn honum þóknanlegum.

Krónan er ekki gervigjaldmiðill frekar en aðir gjaldmiðlar.  Gjaldmiðilinn endurspeglar einfaldlega efnahagslíf þeirra sem nota hann, traust til stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum.

Ef þetta er af tekið, verða aðrir þættir að taka við sveifluhlutverkinu.  Það er til dæmis fróðlegt að fylgjast með fast skráðum gjaldmiðlum Eystrasaltslandana, sem sveiflast eftir öðrum þáttum, en þeirra eigin efnahagslífi.  Þar er baráttan hörð við að færa laun niður sem mest, fasteignaverð er í frjálsu falli (líklega meira fall en á Íslandi) og efnahagurinn stefnir hratt niður (líklega jafn mikill eða meiri samdráttur en á Íslandi).  Atvinnuleysi er sömuleiðis á svipuðum nótum, en eykst hraðar þar eystra nú.

Sigurður:  Í því sem ég skrifa hér að ofan er hvergi minnst á vöruskipti.  Þar er einfaldlega verið að tala um hvað mynt má nota í viðskiptum.  Mæli sterklega með því að þú lesir blog, áður en þú skrifar athugasemdir um þau.  Vöruskipti eru reyndar gjarna fylgisfiskur ráðstjórnar og verður líklega ekki langt að bíða að þau verði tekin upp, ef núverandi ríkisstjórn verður áfram við völd.

Það má vissulega velta upp ýmsum flötum á því hvers vegna svo komið er á Íslandi, þar eru margir samverkandi þættir.  Enn mikilvægara er þó að gera sér grein fyrir hvernig á að leysa vandann.  Þar eru færri hugmyndir, en til lengri tíma litið er ljóst að mínu mati að höft gera það ekki.

Kristján:  Ef höftum af jöklabréfum yrði aflétt, hyrfi gjaldeyrisforðinn ekki, nema að Seðlabankinn ákveddi að nota hann til að halda genginu uppi.  En ef þau hyrfu á einu bretti, þá yrði hrikalegt gengisfall, þar sem það væru hreinlega ekki til gjaldeyrir til að halda í við eftirspurnina.  Eigendur færu þá með ákaflega lítið af gjaldeyri úr landinu, en spurningin hvað það tæki langan tíma fyrir gengið að rétta við.  Á meðan yrði erlendar skuldir þjóðarinnar það háar að óviðráðanlegt yrði.  Hvað það tæki krónuna langan tíma að rétta við er ómögulegt að segja og því yrði þetta slíkt áhættutímabil að enginn þorir einu sinni að tala um slíkt.

Það er líka hollt að hafa það í huga að flestir ef ekki allir sterkustu gjaldmiðlar heims hafa verið taldir af eða sagðir "ónýtir" á einu tímabili eða fleirum.  Það gildir til dæmi um dollarann (sem hefur ótrúlega oft verið "talinn af", euroið, kanadadollar, pundið, jafnvel svissneska frankann.  Nú um stundir er norska krónan talin "besti" gjaldmiðillinn en svo hefur alls ekki verið alltaf.

G. Tómas Gunnarsson, 3.4.2009 kl. 13:32

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Það er víst farið að gera út á brask.  Hjón geta keypt evrur fyrir 1m kr og farið út og selt til útlendinga sem vilja losna við krónur á 40% hærra gengi.  Ferðin gefur því 400,000kr í hagnað fyrir kostnað. Góð búbót. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 3.4.2009 kl. 18:13

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég átti bara við að krónan væri orðin gervigjaldmiðill vegna þess að það þarf öll þessi höft til að koma í veg fyrir að fari fyrir henni eins og Simbabvedollaranum.

Kristján G. Arngrímsson, 4.4.2009 kl. 08:36

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þar sem eru höft, þar verður brask.  Það er því sem næst jafn öruggt og að degi fylgi nótt.

Krónan er verulega illa leikin, það er alveg rétt, en hún endurspeglar stöðuna á Íslandi býsna vel.

Það er spurning hversu langt hún á eftir að fara niður.  Nú eða hversu víðtæk höftin eiga eftir að verða og hve mannmargar eftirlitssveitirnar.

En að skipta yfir í annan gjaldeyri er engin lausn.  Líklega yrði það fyrsta sem gerðist þá að gríðarlegur fjárflótti yrði frá landinu.  Vandræðin yrðu líklega meiri, verðfall á eignum meira og þar fram eftir götunum.

Krónan virkar sem hemill á verðmætaflutninga og er það líklega til bóta nú um stundir.

G. Tómas Gunnarsson, 4.4.2009 kl. 21:16

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Áttu við að krónan sé í sjálfri sér einskonar gjaldmiðilshaft, sem er til bóta?

Kristján G. Arngrímsson, 5.4.2009 kl. 17:42

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Krónan er ekki haft, en það mætti ef til vil segja að hún sé hemill.

Ef eftirspurn eftir gjaldeyri eykst mikið, fellur krónan (sé hún án hafta) og gerir þar með gjaldeyrinn (og um leið innflutta vöru) minna eftirsóknarverðan, þar sem hann hefur stigið í verði.

Að sama skapi virkar krónan sem hemill ef menn vilja flytja risavaxnar fjárhæðir úr landi.  Það er ekki hægt að fylla bara ferðatöskuna af krónum (nú eða euroum ef það væri lögeyrir á Íslandi), heldur þarf að skipta. 

Þess vegna eru nú svo margir hagfræðingar á þeirri skoðun að Íslendingar væru í verri málum, ef euro væri lögeyrir á Íslandi og sömuleiðis þeirra skoðunar að það væri glapræði að skipta um lögeyri nú.

Margir þeirra sem vilja þó skipta yfir í euro, vilja gera það á afar lágu gengi til að tryggja samkeppnishæfi landsins.  En það er einmitt það sem fall krónunnar gerði, jók samkeppnishæfið, en minnkaði kaupgetu Íslendinga í erlendri mynt.

G. Tómas Gunnarsson, 5.4.2009 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband