Af umboði og umboðsleysi Framsóknarmanna

Flestum er það eflaust í fersku minni að Framsóknarflokkurinn taldi þingmenn sína og flokkinn ekki hafa umboð til þess að taka sæti í ríkisstjórn.

Ekki veit ég hvers vegna Framsóknarflokkurinn telur þingmenn sína ekki hafa umboð til stjórnarsetu, en þeir voru þó kosnir á sama tíma og aðrir þingmenn og með samskonar umboð.  Þess vegna ætti Magnús Stefánsson að hafa sama umboð til stjórnarsetu og Össur Skarphéðinsson og Valgerður Sverrisdóttir að hafa sama umboð til stjórnarsetu og Ögmundur Jónasson.

En það er ýmislegt annað sem Framsóknarflokkurinn telur sig hafa umboð til.

Það virðist ekki vefjast fyrir Framsóknarflokknum að hann hafi umboð til að styðja ráðherra sem enginn hefur kosið og ekkert hafa umboð.

Framsóknarflokkurinn virðist sömuleiðis telja að hann hafi fullt umboð til þess að þingmenn hans breyti stjórnarskránni.

Framsóknarflokkurinn virðist ekki hiksta eða vera í vafa um að hann hafi umboð til að  styðja ríkisstjórn þar sem embættismönnum s.s. ráðuneytisstjórum er skákað til og frá eftir geðþótta ráðherra.

En það er auðvitað ekkert nýtt að Framsóknarflokkurinn tali út og suður, en það er nýtt að alþingismenn telji að aðrir alþingismenn hafi víðtækara eða betra umboð en þeir sjálfir.

Þetta eru spennandi tímar.

 


mbl.is Undirbúa stjórnlagafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Framsókn galt afhroð í síðustu kosningum og er það því eðlilegt lýðræðislegt viðbragð við niðurstöðum þeirra að setjast ekki í ríkisstjórn. Eftir hans kröftum var ekki leitað í raun. Það getur aftur á móti breyst í komandi kosningum.

Framsókn telur sig hafa fullt umboð til að komið verði á stjórnlagaþingi, þar sem fulltrúar þjóðarinnar verða kosnir persónukjöri til að skrifa landinu stjórnarskrá. Það er í raun að afsala sér umboði.

Framsókn hefur sjálf kallað til menn utan þings til að gegna ráðherraembættum. Það hefur reyndar verið í stefnu hans að ráðherrar skuli ekki gegna þingstörfum um nokkurra ára skeið, enda eðlilegur aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Þannig að það er algerlega í samræmi við umboð og stefnu Framsóknar að styðja jafn hæft og gott fólk eins og Gylfa Magnússon og Rögnu Árnadóttur til að fara með framkvæmdavaldið.

Gestur Guðjónsson, 10.2.2009 kl. 15:58

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Vissulega reið Framsóknarflokkurinn ekki vænum gæðing frá síðustu kosningum, það gerði Samfylkingin ekki heldur.  Það má líka benda á það að Framsóknarflokkurinn leit ekki svo á að nýafstöðnum kosningum að hann hefði ekki umboð til að sitja í stjórn.  Í það minnsta kosti hluti flokksins leit svo á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði svikið sig.

Það er ólík krafa að vilja t.d. að ráðherrar segi af sér þingmennsku eða hvort ráðherrar eru kallaðir til án þingsetu.  Á þjóðin engan rétt á því að vita úr hvaða hópi ráðherrar verða hugsanlega kallaðir?  Það er auðvitað engin vegin nauðsynlegt, en vekur vissulega upp spurningar.

Að koma á stjórnlagaþingi er eitt.  Að styðja minnihlutastjórn til breytinga á stjórnarskránni er annað.  Það hljóta allir að sjá.

Að styðja ríkisstjórn sem skákar til embættismönnum s.s. ráðuneytisstjórum eftir geðþótta er líka hlutur sem alþingismenn ættu að hugsa um.  Það setur varhugavert fordæmi.

G. Tómas Gunnarsson, 10.2.2009 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband