Frasasæknir lýðskrumarar

Það eru ýmsir frasar sem ganga aftur og aftur í ræðu og riti hjá stórnmálamönnum.  Einn sá vinsælasti þessa dagana er að tala um "nýfrjálshyggju" eða eins og Ingibjörg gerir hér, að tala um ofsafrjálshyggju, þegar leita á útskýringa á hinu Íslenska efnahagshruni.

En það skýrir enginn þessi hugtök og það er enginn krafinn skýringa á þeim.

Í hverju fólst "ofsafrjálshyggjan" á Íslandi?

Fólst hún í þeirri staðreynd að hið opinbera sýslaði með rétt ríflega 40% af þjóðarframleiðslunni árlega?

Fólst hún í því að allur rekstur hins opinbera tútnaði út sem aldrei fyrr?

Fólst hún í því að opinber fyrirtæki fóru út í stærri framkvæmdir en nokkru sinni fyrr?

Á hvaða sviðum réð "ofsafrjálshyggja" ríkjum á Íslandi?

Hvernig var regluverk fjármálafyrirtækja á Íslandi frábrugðið því sem gildir í mörgum löndum "Sambandsins" (sem Ingibjörg þráir ekkert heitar en troða Íslandi í) þannig að það réttlæti að tala um "ofsafrjálshyggju"?

Stjórnmálamenn sem eru hallir undir lýðskrum eru gjarnir á að grípa til óútskýrðra frasa sem þessara en sleppa því að útskýra hvað þeir eru að meina.

Auðvitað eiga eigendur og stjórnendur bankanna mesta sök á því að þeir fóru í þrot, þeir hefðu getað fylgt íhaldsamara viðskiptamódeli, en stjórnmálamenn bera líka mikla ábyrgð.

Þeirra ábyrgð felst ekki síst í ábyrgðarlausum og óhófskenndum ríkisfjármálum og var fjárlagafrumvarpið sem sitjandi ríkisstjórn lagði fram fyrir 2008 gott dæmi um það.  Þar er líka að finna orsakir kreppunnar.

Stjórnmálamenn æddu áfram og eyddu fé almennings hægri og vinstri, undir slagorðinu "við erum ein ríkasta þjóð í heimi".


mbl.is Ingibjörg: Orsökin liggur í ofsafrjálshyggjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ertu þá sammála þeim djúpvitra manni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, um að kreppuna megi rekja til of mikilla ríkisumsvifa?

Hljómar sennilega sem Íslandsvinurinn Aliber segir í Mogga í dag:

"Mikið gengisfall krónunnar er afleiðing gerða fífldjarfra og fávísra kúreka sem stjórnuðu Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni og andvaraleysis ríkisvaldsins."

Og óneitanlega er þetta skemmtilega að orði komist. Ástæða þess hve djúp kreppan er á Íslandi núna er gengisfall krónunnar.

Kristján G. Arngrímsson, 16.12.2008 kl. 19:49

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er ekki þeirrar skoðunar að kreppuna megi rekja til of mikilla ríkisumsvifa.

En gríðarleg útþennsla ríkisins og útgjalda þess hafa ekki hjálpað til.

Ég hef ekki séð grein Alibers (en hann tala þó yfirleitt af skynsemi) en eins og ég segi í færslunni hér að ofan:  "Auðvitað eiga eigendur og stjórnendur bankanna mesta sök á því að þeir fóru í þrot, þeir hefðu getað fylgt íhaldsamara viðskiptamódeli, en stjórnmálamenn bera líka mikla ábyrgð."

En undir slagorðinu "við erum ein ríkasta þjóð í heimi", þá hafa stjórnmálamenn þanið út ríkisbáknið, eytt hægri og vinstri í alls kyns vitleysu og það hafði áhrif á þennsluna, á sinn þátt í  orsökum hennar og gerir hinu opinbera erfiðara fyrir að bregðast við nú.

G. Tómas Gunnarsson, 16.12.2008 kl. 20:08

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands eru löng erlend lán þjóðarbúsins kr. 8.050.0099.000.000 árið 2006. Það eru u.þ.b. 25 milljónir á hvert mannsbarn.

Þetta fékk enga umfjöllun í fjölmiðlum árið 2006 og ekki eru upplýsingar á síðu Hagstofu Íslands hvernig þessi löngu erlendu lán hafi þróast árin 2007 og 2008.

Á sömu síðu Hagstofu Íslands kemur fram að afborganir og vextir af löngum erlendum lánum séu 93.4% af útflutningstekjum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.12.2008 kl. 01:10

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sæl Jakobína.  Vissulega eru/voru erlend lán Íslendinga alltof há.  Hvað það viðkemur "ofsafrjálshyggjunni", er ég þó ekki alveg viss um.  Nema þá að frelsi til lántöku flokkist undir "ofsafrjálshyggju" og hið opinbera hefði átt að setja lög til að stoppa slíkt.

Þú minnist líka á að fjölmiðarl hafi ekki fjallað um málið.  Var það ef til vill "ofsafrjálshyggjan", að engin lög voru sett um eignarhald á fjölmiðlum og þeir söfnuðust einn af öðrum á hendur útrásarvíkinganna?

G. Tómas Gunnarsson, 17.12.2008 kl. 02:37

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

"Ofsafrjálshyggja" felur í sér algjört bann við bönnum. Með öðrum orðum, hið algera frelsi er gert að dogma. Ofsafrjálshyggja er dogmatísk frjálshyggja. Sem er auðvitað þversögn, enda fór sem fór. En sagan sýnir að svona hefur alltaf farið þegar frelsið átti að verða algert.

Það var og er það andrúmsloft sem ríkt hefur á Íslandi undanfarin ár. Þetta hlaust af því, að menn með ofvaxið sjálfsálit og þar með ekkert tillit til annars fólks (tillitið fer allt til þeirra sjálfra) náðu völdum í landinu og höguðu málum eftir sínu höfði.

Hinir gráðugu höfðu sitt fram. Svo einfalt var það.

Þetta dogmatíska frelsi þýddi auðvitað að það var alveg bannað að setja mörk við nokkrum hlut, þar á meðal lántökum. Ef maður veigraði sér við að taka lán til að fjármagna háan lifistandard var maður stimplaður rola sem engu þorði. Sem betur fer þorði maður að vera rola. En þeir sem stýrðu ríkisfjármálum voru því miður ekki rolur.

Kristján G. Arngrímsson, 17.12.2008 kl. 09:58

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Fólst þá "ofsafrjálshyggjan" á Íslandi í því að ekki var bannað að taka lán?

Það hefur enginn getað útskýrt á nokkurn hátt í hverju "ofsafrjálshyggjan" fólst og hvað var svo frábrugðið á Íslandi því sem gerðist t.d. í löndum "Sambandsins".  Er ekki til dæmis fjármagnstekjuskattur mikið lægri í Hollandi en á Íslandi? Ekki hefur Holland talist til "ofsafrjálshyggjulanda" (nema ef til vill hvað varðar fíkniefni).  Á Íslandi sýslaði Ísland með svipað eða hærra hlutfall af þjóðarframleiðslu en í mörgum "Sambandslöndum", að Norðurlöndunum undanskildum.

Ríkisfjármálin voru ekki í slæmum farvegi á Íslandi hvað lántökur varðaði.  Íslensks ríkið skuldaði því sem næst ekki neitt.  Var líklega hvað best statt af öllum Evrópuríkjum hvað það varðaði. 

Að mínu mati hefði mátt og átt að stíga mun hraustlegar á bremsuna í útgjöldum og reyna að safna í sarpinn, en það er önnur saga.  En ríkissjóður var ekki "lánafíkill".  Það voru hins vegar einkafyrirtæki og einstaklingar.  Bankarnir leiddu þá hópa í hamingjuríkan og gereyðandi "Conga" sem dansaði svo fram af bjargbrúninni.

G. Tómas Gunnarsson, 17.12.2008 kl. 13:22

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að ofsafrjálshyggja sé fyrst og fremst hugsunarháttur, sem eins og ég sagði áðan felur í sér einhverskonar skylduhömluleysi vegna þess að allar hömlur eru álitnar vera í sjálfu sér slæmar og því beri að forðast þær.

Þetta er dogma, vegna þess að það er aldrei niðurstaðan eða útkoman sem ræður hvort eitthvað skuli gert heldur er það trúarsetningin sem ræður. Restin af því sem sagt er er bara eftiráréttlæting á því að trúarsetningunni sé fylgt.

Ég held að það sé hárrétt hjá þér að það hafi verið vegna ofsafrjálshyggju sem ekki voru sett fjölmiðlalög. Eða kannski bara (sem er sosum alls ekki ólíklegra) vegna persónulegrar óvildar ORG í garð Davíðs Oddssonar.

NB, ég held að DO hafi ekki verið og sé ekki neinn ofsafrjálshyggjumaður. Hverjir voru þá slíkir menn? Jú, útrásarvíkingarnir "fávísu", eins og Aliber kallaði þá. Og það sem gerði þá fávísa var einmitt dogmatisminn sem þeir fylgdu.

Kannski varð það svo ógæfa Íslands að hafa í stóli forsætisráðherra mann sem virðist alveg ófær um að taka af skarið með nokkurn hlut, og í stóli fjármálaráðherra mann sem ... tjah, hvað er hægt að segja?

Kristján G. Arngrímsson, 17.12.2008 kl. 16:14

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Um ORG er það annars að segja að hann virðist ekki vera ofsafrjálshyggjumaður né yfirleitt neinnar hyggju nema sjálfshyggju.

Kristján G. Arngrímsson, 17.12.2008 kl. 16:18

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er nokkuð merkilegt að heyra þessa skilgreiningu á "ofsafrjálshyggju", sem ef ég skil rétt þú telur vera nokkurs konar hugarástand.

Ég held að við höfum kallað þennan hugsunarhátt gráðugu eiginhagsmunaseggi, og slíkt á sér ekki frekar heimili í frjálshyggju en öðrum hyggjum.  Slíka einstaklinga er að finna alls staðar, í öllum löndum, öllum stjórnmálaflokkum.

Ég hef enda hverg séð það rökstutt að á Íslandi hafi gilt bönn við bönnum.  Ég hef heldur ekki séð það rökstutt að á Íslandi hafi regluverk verið mun minna eða frjálslegra en til dæmis í löndum "Sambandsins", enda vilja margir meina að þaðan höfum við tekið það að mestu leyti upp.

Það er alveg rétt að núverandi stjórnvöld virðast hafa misst tökin, standa uppi nokkuð ráðalaus og virðast helst sjá þá lausn að flytja stærri hluta ákvarðana út úr landinu, út úr þeirra höndum.

G. Tómas Gunnarsson, 17.12.2008 kl. 17:54

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, enda var talað um "græðgisvæðingu" í íslensku samfélagi undanfarin ár. Má svo segja að hér á landi hafi gróðapungarnir hreinlega tekið völdin.

Líklega sjá stjórnvöld hér fram á það, að til að eftirlitsstofnanir geti vaxið í samræmi við vöxt alþjóðlegra fyrirtækja - sem íslensk fyrirtæki eru nú orðin - verði þær að vera alþjóðlegar líka. Að stjórnkerfi í litlu landi sé óhjákvæmilega of lítið til að geta haft nauðsynlegt eftirlit með fyrirtækjum af þeirri stærðargráðu sem íslensk fyrirtæki geta náð núorðið.

Við fengum frelsið frá ESB, en ekki hömlurnar. Eina leiðin núna er því að hefta frelsið, og ganga ekki í ESB, eða halda frelsinu og auka hömlurnar með því að ganga í ESB.

Kristján G. Arngrímsson, 17.12.2008 kl. 22:31

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ef til vill er rétt að tala um græðgisvæðingu.  En það voru "allir" sem ætluðuð að græða (hér er auðvitað ekki rétt að alhæfa svona, en ég leyfi mér samt að taka svona til orða).

Angi af þessu voru myntkörfulánin.  Þeir sem þeir tóku ætluðu að græða, þeir ætluðuð ekki að fara eftir innlendum vöxtum, heldur græða á því að taka erlend lán.  Þetta fólk var í raun orðið gjaldeyrisbraskarar.

En vegna fjórfrelsisins sem kom með EES samningnum var ekkert hægt að gera.  Fjármagnsflæðið var frjálst.  Með þessu má segja að Seðlabankinn hafi misst stjórn á vaxtastiginu, og líka peningamagni í umferð.

Við fengum það sem ESB bauð upp á, þar var ekki boðið upp á neinar hömlur hvað þetta varðar og er ekki enn.

Ruglið er að ætla Íslandi að líta á eftir fjármálafyrirtækjum, t.d. í Bretlandi.  Það ætti auðvitað að vera alfarið í höndum Breta.  Það rugl kemur beint frá "Sambandinu".

G. Tómas Gunnarsson, 18.12.2008 kl. 15:44

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi að minnast á það að það er athygliverð staðreynd að áður en bankahrunið varð í Finnlandi seint á síðustu öld, var ástandið einmitt svipað.

Mikil eyðsla, miklar lántökur og mikið af lánum í "myntkörfum", eða erlendum gjaldmiðlum.

Það er vert að velta því fyrir sér.

G. Tómas Gunnarsson, 18.12.2008 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband