Er gengið upp að hnjám?

Nú sit ég hér fyrir framan tölvuna, konan að svæfa foringjann, ég sötra líka þetta dásamlega "Bláfjalls" kaffi og hugsa um lífið og tilveruna.

Gengið krónunnar hefur verið ofarlega í huga mér undanfarna daga.  Nú er Kanadadollarinn ríflega 69 krónur, og man ég ekki eftir því að hann hafi verið verðmeiri.

Fyrir mig eru þetta í sjálfu sér ekki alslæm tíðindi, en þó hef ég nokkrar áhyggjur af þessu, ef við skreppum til Íslands á næstunni, verður ferðin í sjálfu sér ódýrari fyrir okkur, ja nema auðvitað allt verði hækkað samsvarandi í krónum, þá breytir þetta ekki nokkrum hlut.  Nema auðvitað að fyrir íslendinga verður allt dýrara.

En hvað breyttist?  Hvers vegna er krónan ca. 30% ódýrari heldur en hún var um áramót? Var krónan svona gróflega yfirverðlögð, eða á hún betra skilið heldur en núverandi staða gefur til kynna?  Á hún eftir að tapa meira af verðgildi sínu?

Eins og oft áður skila hugleiðingar mínar engum ákveðnum svörum, nema auðvitað því að mér þykir ljóst að krónan hefur tapað tiltrú manna, og um leið læðist að mér léttir yfir því að hafa komið sparifé mínu frá Íslandi og sömuleiðis selt íbúðina mína áður en mesta verðtapið átti sér stað.  Fyrir það má ég vera þakklátur.

Hlutabréfamarkaðurinn hefur sömuleiðis tekið mikla dýfu, enda ef til vill ekki að undra þegar það eitt að hafa flutt fé sitt yfir í gjaldeyri hefur tryggt fjárfestum svona góða ávöxtun.  Þess vegna leiði ég hugann að því hvort að hrunið verði eins og hjá læmingjum sem strunsa fram af bjargbrún.  Til hvers að kaupa íslensk hlutabréf eða krónur, þegar besta arðsemin er í því að kaupa erlendan gjaldeyri? Hvenær snýst dæmið við og það lítur betur út að kaupa íslensk hlutabréf eða krónur?  Það gæti verið langt í það.

En auðvitað eru alltaf einhverjir sem fagna þegar krónan tapar verðgildi sínu.  Fremstir í flokki fara þeir sem flytja vörur út frá Íslandi, og svo auðvitað þeir sem ætla að ferðast til Íslands, þar á meðal nokkrir sem ég þekki hér í Toronto, þeir sjá fram á að dollarinn þeirra dugi meira en áður.  T.d. mun bjór á Íslandi hafa lækkað ca. úr 15 dollurum í 10 til 11, ekki slæmt það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband