Hækkandi vextir með lækkandi lánstrausti

Þessi vaxtahækkun var flestum ef ekki öllum ljós.  Að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn setti það sem skilyrði að raunvextir yrðu jákvæðir var því sem næst jafn líklegt og að nótt fylgir degi.

Það er því sem næsta spaugilegt að sjá þá sem sögðu Íslendinga ekki eiga neitt annað skjól en sjóðinn (ég er ekki að bera á móti því) tala nú eins og að vaxtahækkun af þessari stærðargráðu komi þeim á óvart.

Ef verðbólga á Íslandi er u.þ.b. 16% eru 18% stýrivextir rökrétt framhald, sérstaklega hjá þjóð sem er undir handleiðslu IMF.

Lækkunin sem varð fyrir u.þ.b. 2. vikum sýndi leið sem hugsanlega hefði verið Íslendingum opin, ef möguleiki hefði verið að fá lán annars staðar frá, t.d. hjá Rússum.

Í sjálfu sér er ég ekki andsnúinn þessarri hækkun, hef alltaf talið að vextir eigi að vera jákvæðir.  En ekkert er hoggið í granít, og ef einhvern tíma er réttlætanlegt að vera með neikvæða vexti, er það í árferði eins og nú geysar á Íslandi.

Ég held að hinir háu stýrivextir eigi trauðla eftir að skila tilætluðum árangri.  Krónubréf verða ekki gefin út eða framlengd, ég sé ekki fyrir mér að nokkur kaupi þau.  Útflytendur mun líklega enn um sinn draga í lengstu lög að skipta nema nauðsynlegum gjaldeyri í Íslenskar krónur (það sem helst gæti breytt því verða gríðarleg kauptækifæri sem hugsanlega myndast á eignum og fyrirtækjum á Íslandi).  Sparnaður verður því miður í lágmarki, enda færri aflögufærir og traust til sparnaðar takmarkað.  Það er raunar ekki ólíklegt að þegar gjaldeyrisviðskipti verði gefin frjáls verði umtalsverður fjármagnsflótti frá Íslandi. 

Á hinn veginn er hægt að segja að hærri vextir séu best til þess fallnir að draga úr eftirspurn eftir lánum, og ættu alla vegna að vera hvetjandi til þess að spara til þess að greiða upp yfirdrætti og annað slíkt, enda ekki völ á betri fjárfestingu, en það hefur reyndar verið um langa hríð.

Það má líka segja að ef hið opinbera vill koma fyrirtækjum til hjálpar (sem er ekki óeðlilegt í þessu árferði) eigi það að nota til þess eitthvað annað en sparifé almennings.  Það er ekki ólíklegt að orðið "sértækar aðgerðir" eigi eftir að heyrast oft í Íslenskum fréttatímum á næstu misserum.

P.S. Mér þykir annars merkilegt að ég hef ekki séð neitt í fréttum um álit t.d. utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra eða félagsmálaráðherra um þessa vaxtahækkun.  Er ekki Samfylkingin ennþá í ríkisstjórn?

Eða er þetta bara Davíð að kenna?

 

P.S.S. Hér má lesa frétt Globe and Mail um stýrivaxtahækkunina.  Hér er frétt Bloomberg


mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband