40. eða 75 milljarðar, hver er munurinn? "Mamma" á að borga

Það er óneitanlega skrýtið að lesa að fyrrverandi aðaleigendur Landsbankann upplýsi Íslendinga um að fyrir rétt um 40 milljarða hafi verið hægt að koma IceSave í Breskst skjól og losa Íslendinga undan ábyrgðum.  Það var bara hel...is ríkisstjórnin sem ekki vildi láta peningana af hendi.

Nokkuð augljóst hver er slæmi aðilinn hér.  Hverjum klúðrið er að kenna.  Auðvitað borgar sig ekki að líta í eigin barm.

Ef til vill merkilegt að Íslenska ríkið hafi lent í þesu klúðri fyrir ekki hærri upphæð, en að sama skapi ótrúlegt að veldi Björgólfanna skuli riða til falls yfir ekki stærri upphæð. Maðurinn sem sagðist hafa fullar hendur fjár og biði eftir "brunaútsölunni", ef marka má fréttir fjölmiðla.

En síðan rakst ég á þessa frétt á Vísi.

Þar segir Björgólfur:

"Hann segir að bresk yfirvöld hafi boðist til að taka yfir alla Icesave-reikninga degi áður en neyðarlögin voru sett. Það var þó gegn því að Landsbankinn greiddi 200 milljónir punda, eða því sem nemur um 37 milljörðum króna, sem tryggingu.

Eftir að breska fjármálaeftirlitið hafði lengi sýnt tregðu í málinu urðu vatnaskil, að sögn Björgólfs, sunnudaginn 5. október, en þá var boðist til að koma Icesave úr íslenskri lögsögu á fimm dögum. Landsbankanum var veittur frestur til hádegis næsta dags til að reiða fram trygginguna svo að af þessu mætti verða. Hann segir að beðið hafi verið um lán til þess hjá Seðlabankanum gegn bestu hugsanlegum veðum.

Seðlabankinn hafi hinsvegar ekki virt Landsbankamönnum svars þar til klukkan hálfeitt að hádegi mánudags, 6. október, en þá var þeim tilkynnt að þeir fengju ekki lánið. „Við áttum sjálf nóg af lausu fé. Það var hins vegar í íslenskum krónum og það var engin leið að nálgast gjaldeyri," segir Björgólfur við Kompás."

Aðeins neðar í sömu frétt má hins vegar lesa:

"Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, segir Seðlabankann upphaflega hafa verið beðinn um þúsund milljónir evra vegna þess að Bretarnir báðu um umtalsvert hærri fjárhæð. „Eftir samningaviðræður náðum við að lækka þá fjárhæð í 500 milljónir. Hluta átti að nota í Icesave og restina í annað. En við vorum með eignir upp á 2,5 milljarða evra á móti. Þar á meðal voru ríkisskuldabréf, kröfur á lífeyrissjóði og ýmsar erlendar eignir. Það voru mikil vonbrigði fyrir okkur að fá ekki lánið. Ekki síst í ljósi þess að við skulduðum Seðlabankanum ekki krónu. ""

Það er nokkur mikill munur á því hvort er verið að biðja um 40 eða 75 milljarða, nú eða 150 milljarða eins og fyrst var farið fram á, eða það skyldi maður ætla.  Það verður líka að hafa í huga að á þessum tíma hafði hið opinbera alla bankana meira eða minna á herðunum.  Er það ekki ósvífni að að biðja um háa upphæð fyrir IceSave og nota eigi "restina í annað"?  Við höfum reyndar engar upplýsingar um hvað þetta "annað" er.

Kalt mat stjórnvalda virðist hafa verið að mesti möguleiki væri að Kaupþing kæmist út úr storminum og því virðist hafa verið veðjað á þá (hvernig það svo rímar við meinta óvild stjórnvalda á Kaupþingi og velþóknun þeirra á Landsbankanum er svo annað mál).  Allir vita svo hvernig fór.

Spurningin hlýtur líka að vera, hvað er réttlætanlegt að nota stóran hluta gjaldeyrisforðans til þess að bjarga bönkunum?  Allir tala um að engan gjaldeyri hafi verið að hafa, en hvað ætti að skilja eftir fyrir nauðþurftum?  Hvað átti að verða eftir handa almenningi og almennum innflutningi? 

Þegar þessu er velt fyrir sér er líka gott að hafa í huga að Seðlabankinn lá þegar með gríðarlegar upphæðir í skuldabréfum á Íslensku bankanna sem komið höfðu inn í gegnum "litlu" bankana. 

En það er margt sem vekur athygli er varðar þetta IceSave mál.

Ingibjörg Sólrún sagði í Kastljósi að henni hefði komið á óvart umfang IceSave reikninga.  Hafði það mál aldrei verið rætt í ríkisstjórn?  Hafði Viðskiptaráðherra ekki kynnt ríkisstjórninni hver staðan var? 

Vissi ríkisstjórnin ekki um þreifingar þær sem höfðu verið á milli Íslenskra og Breskra stjórnvalda um IceSave?  Var ríkisstjórninni ekki kynnt efni fundar Björgvins og Darlings á sínum tíma?

Þetta mál hlýtur að hafa verið eitt af forgangsmálum Viðskiptaráðherra og Viðskiptaráðuneytisins, enda hlýtur að hafa verið ljóst fyrir nokkru hvað umfangsmikil þessi viðskipti voru orðin og hve berskjölduð Íslensk stjórnvöld og Landsbankinn væru orðin gagnvart þeim.

Fjármálaeftirlitið og Viðskiptaráðuneytið hljóta að hafa gert sér grein fyrir að vandinn aðeins jókst og jókst, eftir því sem innstæðurnar uxu.  Þegar bankar, rétt eins og Northern Rock, riðuðu til falls hlýtur vandamálið að hafa orðið enn meira aðkallandi.

Var IceSave, upphæð innistæðna þar og ábyrgð tryggingasjóðs aldrei rædd á ríkisstjórnarfundum?  Komst það aldrei lengra en í  Fjármálaeftirlitið og Viðskiptaráðuneytið?

Eftir að lánsfjárkreppan er í raun skollin á (í júní síðastliðnum minnir mig að ég hafi lesið), opnar IceSave útibú í Hollandi.

Enn stækkar "púllían", enn eykst áhættan.  Hvenær byrjuðu viðræður Íslenskra og Breskra aðila um nauðsyn þess að IceSave reikningarnir kæmust á Breskt forræði?  Voru einhverjar viðræður um Hollensk yfirvöld þess sama efnis?  Hvers vegna krafðist Fjármálaeftirlitið ekki að það væri stofnað Hollenskt dótturfélag?

Þær eru margar spurningarnar, við flestum þeirra fáum við líklega aldrei svör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll, Tómas. Í upphafi þessa pistils kennirðu "hel...is ríkisstjórninni" um neituna á aðstoðinni, en ættir að snúa gagnrýni þinni fyrst og fremst að Seðlabankanum og stjórnendum hans, enda er sú stofnun nefnd sem ábyrg í fréttinni. Hér ber því enn að sama brunni og margt annað, sem fram hefur komið: að óhæf yfirstjórn var á þeim kofanum, og samt eru enn verið að streitast við að gera ekki eitt né neitt til að lækka í þeim hrokann með því að stórlækka laun þeirra, eins og löngu er tímabært.

Svo er það ekki alveg nákvæmt hjá þér að tala um, að 40 milljarða króna ábyrgð hefði vantað til að bjarga okkur frá Icesave-skellinum –– nær lagi væri að segja 30 milljarðar króna, því að gengi pundsins var þá enn nálægt 150 ísl. kr.

Með góðri kveðju vestur í stöðuleikann og hækkandi gengi dollars gagnvart evru og fleiri gjaldmiðlum! 

Jón Valur Jensson, 27.10.2008 kl. 15:29

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Jón, eins og ég náði að fylgjast með fréttum þá var "aksjónin" þessa helgi og mánudag sem verið er að tala um í Ráðherrabústaðnum, ekki Seðlabankanum, þó að neitunin komi á endanum þaðan.

Það var enda í Ráðherrabústaðnum sem sögurnar sögðu að Björgólfur hafi hellt sér yfir ráðamenn.

Það er flónska að mínu mati að einblína á einn mann, eins og þú og svo margir virðast gera.  Það er stærsta smjörklípa sem hefur sést.

Ég man nú ekki hver staðan var á genginu þegar umrædda helgi, en pundið var komið yfir 200 krónur þann 6. október og euroið var yfir 170.

Bankarnir höfðu enda verið að ryksuga upp allan fáanlegan gjaldeyri.

Hér vestur í Kanada er stöðugleikinn vissulega meiri en á á Íslandi, enda hagkerfið u.þ.b. 100 sinnum stærra.  Þó hefur Kanadadollar fallið í kringum 25% (rétt eins og euroið) gagnvart þeim Bandaríska á u.þ.b. mánuði.  Það hefði einhvern tíma ekki þótt bera vitni um stöðugleika.  Þó er enginn sem fer fram á höfuð seðlabankastjóra hér, enda seðlabanki bara ein af mörgum breytum og vægi hans sem slíks minnkað undanfarin ár.

En sá Bandaríski á eftir að styrkjast meira, fjárfestar flýja í öryggið og nú þarf líka að fá heim dollara til að borga út þegar fjárfestar fara að taka út úr sjóðunum.

Til lengri tíma litið mun gjaldmiðill alltaf endurspegla hagkerfið og væntingar til þess.  Sá Bandaríski mun því líklega síga aftur, nema að kúrsinn þar taki verulegum breytingum.  En sá Kanadíski mun eiga erfitt uppdráttar um nokkurt skeið, "hrávörur" spila það stórt hlutverk í efnahagnum hér að lækkandi verð mun sjást í styrk dollarans.

G. Tómas Gunnarsson, 27.10.2008 kl. 18:17

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Svo eru auðvitað tvær hliðar á hverju máli eins og kemur fram í þessarri frétt

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/10/27/sedlabanki_andmaelir_bjorgolfi/

G. Tómas Gunnarsson, 27.10.2008 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband