Móðuharðindi af mannavöldum

Ukrainubúar minnast í dag, laugardag,  þeirra sem létu lífið í hungursneyðinni árin 1932 til 1933.  Enginn veit með vissu hve margir létust, talað er um 7 til 10 milljónir manna.  Engin veit hvað margir voru borðaðir, enginn veit hve margir voru drepnir.

Það býr mikið af fólki af Ukrainskum uppruna hér í Kanada.  Þó nokkrir þeirra eru á meðal kunningja minna.  Það talar gjarna um að ástandið sé ekki gott í "heimalandinu", en enginn hef ég þó heyrt tala með eftirsjá um Sovétímabilið. 

Það má líklega segja að það hafi komið þrjár "bylgjur" af Ukrainubúum hingað til Kanada.  Sú fyrsta kom um svipað leiti og Íslendingar settust hér að hvað mest.  Ukrainumenn voru algengir nábúar Íslendinga í Manitoba, og kenndu Íslendingunum oft til verka í akuryrkju, enda Íslendingar lítt vanir slíkum búskap heiman frá.  Þeir voru líka þekktir fyrir að brugga mun betur en Íslendingarnir og einhverjar sögur eru af Íslendingum sem lentu í vandræðum vegna vodkaskulda.

Önnur bylgja kom svo upp úr seinna stríði og sú þriðja eftir að Sovétríkin féllu.

En þessi þjóð átti ekki sjö dagana sæla undir stjórn kommúnista.  Hungursneyðin á þriðja áratugnum kemur oft fram ef talið berst að Sovétríkjunum, sérstaklega ef vodki er með í för.  Það er ennþá réttlát reiði, stundum allt að því hatur í garð kommúnistastjórnarinnar.  Lái þeim hver sem vill.

Það er óhugnanlegt að lesa lýsingar frá þessum tíma.  Hvað gengið var fram af miklu miskunarleysi.  Ekkert skipti máli nema lokatakmarkið.  Kommúnisminn.  Talið er að allt að 25% af þjóðinni hafi soltið til bana. 

Hvaða átrúnaður fær fólk til að fremja slík voðaverk?

Allur matur var tekinn, þeir sem sýndu mótþróa voru skotnir eða sendir til Síberíu.  Það að taka nokkur öx af akri gat þýtt dauðarefsingu.

Nú berjast Ukrainumenn fyrir því að þessi voðaverknaður verði viðurkenndur sem "þjóðarmorð" á alþjóðlegum vettvangi.  Kommúnistaflokkurinn í landinu berst þó gegn því, og Rússar eru heldur ekki áfram um það, vilja frekar að þetta verði kallað "harmleikur" eða eitthvað í þá áttina.

Persónulega stend ég með Ukrainubúum í þessu máli

Hér og hér má sjá fréttir BBC af þessu máli, hér er frétt Herald Tribune og hér má lesa um Holodomore eins og Ukrainubúar kalla hungsneyðina á Wikipedia.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband