Persónur og leikendur

Flestir hafa líklega heyrt af "eggjakasti Stöðvar 2" og eftirköst þess.  Ég hlustaði í gærkveldi á vitöl við Láru Ómarsdóttur, fannst hún koma vel fyrir, útskýra vel sitt mál og hafa tekið rétta ákvörðun.

En nú í dag sá ég þessa frétt á Eyjunni, sem rekur uppruna sinn til Vefritsins.

Í greininni í Vefritinu segir orðrétt:

Hið meinta grín á sér hins vegar hliðstæða sögu sem var lítið grín, enda ekki tekin upp. Ekki ósvipuð atburðarás varð við ráðhús Reykjavíkur í janúar. Þegar boðuð mótmæli áttu að vera hafin var fátt að gerast fyrir utan ráðhúsið. Mótmælendur höfðu komið sér fyrir inni í húsinu enda vont veður og fólk stóð þar inni þögult og grafalvarlegt. Eitthvað þótti þetta óáhugavert sjónvarpsefni fyrir fréttastofuna sem hafði dröslað öllu sínu hafurtaski niður í bæ. Fréttamaðurinn skammaðist í þeim sem honum þótti bera ábyrgð á samkomunni og bað um að safnað yrði saman hópi fólks fyrir utan húsið sem væru með almennileg mótmæli fyrir myndavélarnar. Og það var gert.

Gjörningur fréttamannsins hafði ekki áhrif á eftirleikinn en gaf tóninn fyrir fréttir af mótmælunum.

Það er kannski ekki skrítið að fréttamenn freistist til svona leikstjórnartilburða, enda grútleiðinlegt að eyða hálfum vinnudegi í að segja ekki-fréttir. Íslenskir stríðsfréttaritarar hafa þar að auki ekki úr mörgu að moða. Auk þess, og það sem er áhugaverðast, verður skemmtanagildi frétta sífellt mikilvægara og samkeppni milli fréttastofa gerir það að verkum að fátt kemst í fréttir nema það sé í melódrama- eða sirkuslíki.

Persónulega finnst mér þetta ákaflega alvarleg fullyrðing.  Ekki kemur fram hvor sjónvarpsfréttastofan á í hlut.  En ásökunin er alvarleg.

Síðan má bæta við þeirri frásögn Péturs Gunnarssonar í sjónvarpi, að sjónvarpsfréttamaður hefði beðið Björn Bjarnason að endurtaka það þegar hann heilsaði upp á áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar hún hrapaði í sjóinn skammt frá Straumsvík.  Björn á að hafa svarað að þetta væri ekkert leikhús.

Ég held að bæði RUV og Stöð 2 verði að framkvæma innanhússrannsókn hvað sviðsetningar varða.  Er slíkt athæfi útbreitt?  Er algengt að Íslendingum sé boðið upp á "sviðsettar" fréttir?  Er siðferði Íslenskra fréttamanna stórlega ábótavant?

Ég tel að báðar fréttastofurnar þurfi að útskýra fyrir bæði áhorfendum og starfsfólki sínu hvaða reglur gilda við fréttaöflun.  Ef starfsmenn hafa brotið þær ítrekað, eða gert sig líklega til þess, þarf að taka á því með viðeigandi hætti.  Engin fréttastofa má við því að trúverðugleiki hennar sé settur í slíka hættu.

P.S.  Best færi á því að greinarhöfundurinn á Vefritinu, Eva Bjarnadóttir, greindi frá því um hvaða fréttamann hún er að skrifa og frá hvaða fréttastofu, annars liggja etv. margir saklausir fréttamenn undir grun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband