Veruleikinn og væntingar

Þessi könnun er að mörgu leyti athygliverð, en þó ekki hálft eins athygliverð og viðbrögð margra hafa verið við henni.  Þegar könnunin birtist snemma í síðustu viku hlupu margir upp til handa og fóta og byrjuðu að tala um flengingu hjá Samfylkingunni og að þeir væru meðal "9%" sem hefðu yfirgefið Samfylkinguna og þar fram eftir götunum.  Sumir slógu því upp að Samfylkingin væri komin með "Framsóknarheilkenni".

Ég verð nú reyndar að taka það fram að mér væri það ósárt að Samfylkingin væri flengd, en get þó ómögulega verið sammála þeim greiningum sem meina að Samfylkingin sé að tapa miklu fylgi vegna vanefndra kosningaloforða.

Það hefur að vísu lengi loðað við Samfylkinguna að rugla saman kosningaúrslitum og skoðanakönnunum, því er ágætis tækifæri að að leiðrétta fyrir þá örlítið þennan misskilning.

Ef ég man rétt, þá fékk Samfylkingin 26.8% í síðustu kosningum, sem skilaði þeim 18 þingmönnum.  Ef ég les rétt út úr þeirri könnum sem er hengd við þessa færslu, er fær Fylkingin nákvæmlega sama fylgi í þessarri könnun.  Því hefur enginn þeirra sem kaus flokkinn í síðustu kosningum yfirgefið flokkinn nema að nýr kjósandi hafi jafnharðan komið í staðinn.  Ef einhverjir sem eru óánægðir með framgöngu Fylkingarinnar í umhverfismálum hafa yfirgefið flokkinn, hafa aðrir (sem eru þá væntanlega ánægðir með eitthvað annað, (t.d að útlit er fyrir að byggð verði álver) komið í staðinn.

Hitt er þó vissulega ljóst að fylgi Samfylkingar hefur minnkað frá síðustu könnun, en ég endurtek að það er heillavænlegra fyrir flokka að taka þær ekki of bókstaflega, þó að vissulega megi draga af þeim ályktanir.  En þingmenn vinnast ekki í skoðanakönnunum og tapast ekki heldur.

Þannig er fylgi Frjálslyndra og Framsóknarmanna ennþá undir kjörfylgi í könnuninni, en VG vinnur umtalsvert á frá kosningum.  Ekki er minnst á Íslandshreyfinguna, sem er líklega gleymd.

En fyrst er verið að tala um "Framsóknarheilkenni", þá verður það að viðurkennast að flokkum sem ganga glannalega fram í kosningaloforðum, er vissulega hætt við því að fylgið minnki ef þeir komast í stjórn.

Þannig var það vissulega að nokkru marki með Samfylkinguna í síðustu kosningabaráttu.  Allt átti að breytast.  Það ætti að verða frítt í Hvalfjarðargöngin, það ætti að bora gjaldfjáls Vaðlaheiðargöng, það var flutt tillaga á síðasta kjörtímabili um að lækka bensíngjaldið, engan átti að skipa í embætti vegna flokkstengsla, námsbækur áttú að verða ókeypis í framhaldsskólum, stimpilgjöld átti að afnema, endurvekja átti strandsiglingar, efla átti Íslenskan landbúnað, utanríkisráðuneytið hafði að mati flokksins bólgnað allt of mikið út,

Álver á Bakka og í Helguvík áttu ekki að verða að veruleika.  Svona mætti lengi áfram telja.

Skoðið þetta hér.

En þegar allt er lagt undir í kosningum, og því sem næst öllu lofað í þeirri von að hífa fylgið upp, er hætt við því að einhverjir verði fyrir vonbrigðum þegar lítið verður úr efndum að kosningum loknum.

Þá er auðvitað algengast og heillavænlegast að kenna samstarfsflokknum um.  Það borgar sig engan veginn að viðurkenna að loforðin voru sett fram rétt eins og flokkurinn væri við að ná meirihluta, einn og sér, og að þau yrðu öll efnd, væri lítill möguleiki, næsta enginn.

Hvað þá að enginn möguleiki væri fyrir hendi að stoppa uppbyggingu álvera samkvæmt gildandi lögum.  Slíkt er mikið hentugra að kjósendur komist að eftir kosningar.  Þá er líka jafnvel hægt að gefa í skyn að það sé samstarfsflokki um að kenna.

Hitt er þó staðreynd, að lýðskrumsflokkum er alltaf nokkuð hætt við "Framsóknarheilkenninu".  Það heitir að valda kjósendum vonbrigðum, og byggja upp of háar væntingar miðað við hvað raunveruleikinn býður upp á.


mbl.is Vinstri grænir sækja á í nýrri skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband