Bættar samgöngur

Samgöngur eru mikið til umræðu í "prófkjörstíðinni".  Enginn hefur þó lofað mér bættum samgöngum þó að vissulega hafi ég ennþá atkvæðisrétt á Íslandi.

En er útlit fyrir að samgöngur á milli Íslands og Kanada stórbatni með vorinu, en Icelandair hefur ákveðið að fljúga til Halifax frá og með maí mánuði og Heimsferðir hafa sömuleiðis hafið sölu á ferðum til Montreal.

Því miður hefur enginn ákveðið að hefja flug til Toronto, en þetta er þó vissulega til mikilla bóta.  Ekki er nema 5 tíma akstur til Montreal, nú eða um klukkutíma flug og báðir staðirnir bjóða upp á þann kost að ekki þarf að ferðast í gegnum Bandaríkin með tilheyrandi vegabréfa-, innflytjenda og tolleftirliti.

Enn sem komið er fljúga Heimsferðir þó aðeins frá enda maí til um miðjan júlí, en ég vona að það lengist á næstu árum, því mér sýnist að þessi flugleið sé að fá afar góðar móttökur hjá þeim.  Keypti miða fyrir mömmu í gær, og þá þegar voru margir dagar (flogið er á fimmtudögum) að verða uppseldir.  Verðið er ágætt, eða undir 50.000.  Ég reikna með að keyra til Montreal og sækja hana og fría hana þannig við að skipta um vél.

Halifax flugið var nokkuð vinsælt hér í "den" en var slegið af hjá Icelandair árið 2001, ég vona að það nái fyrri vinsældum og verði valkostur framtíðarinnar þegar við þurfum að bregða okkur til Íslands, alla vegna á þeim tímum sem Montreal flugið verður ekki á boðstólum.

En þó að þetta sé ekki afrakstur loforða stjórnmálamanna, er ekki þar með sagt að þeir hafi ekkert haft með þessa þróun að gera.  Þetta er vissulega afrakstur viðræðna og samninga á milli Kanadískra og Íslenskra yfirvalda þar sem koma við sögu stjórnmálamenn, embættismenn og diplómatar.  Hafi þeir þökk fyrir.  Loftferðasamningar eru mikilvægir, ekki bara fyrir þá sem ferðast, heldur opna þeir tækifæri og flugrekstur er mikilvæg atvinnugrein á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er einkar þægilegt að fara til Toronto í gegnum Halifax. Þá verður hvorugur leggurinn óþægilega langur - eða eigum við að segja að báðir verði þægilega stuttir? Í gegnum Boston er ekkert voðalegt, en strax skárra með Halifax, að ekki sé nú minnst á hvað völlurinn þar er þægilega lítill og "transitið" því ekkert mál. Og ég er innilega sammála um hvað er gott að vera laus við að fara gegnum USA.

Kristján G. Arngrímsson, 31.10.2006 kl. 23:11

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Má svo til með að bæta við að mér líst ekkert of vel á Montréal flug. Hef tvisvar skipt um vél á því sem nú heitir Trudeau-flugvöllur, og í bæði skiptin kostaði það einhverja lengstu göngu sem ég hef nokkurntíma farið innanhúss - hreint ævintýralegir rangalar á þeim flugvelli. Upp og niður stiga, endalausir gangar - og í annað skiptið þurfti meira að segja að fara (gangandi - engar rúllubrautir þar!) rangala mikinn sem lá undir flugbraut. Jahérna.

Kristján G. Arngrímsson, 31.10.2006 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband