Úrslitin standa. Kimi er kóngurinn

Þá er það ljóst að úrslitin standa, alla vegna ef marka má frétt frá ITV, sem lesa má hér.  Ég held reyndar að það hefði varla getað gengið upp að færa Hamilton titilinn með þessu móti.  Það hefði aldei orðið úr þessu nema sekt, eða í mesta lagi að liðin hefðu verið svipt stigum í keppni bílsmiða.  Hvernig brot McLaren hafa verið meðhöndluð hefur sett fordæmi hvað það varðar.  Hamilton slapp enda sjálfur frá dekkjaklúðrinu í Brasilíu þó að McLaren fengi örlitla sekt.  Fordæmi eru líka til í svipuðum tilfellum að aðeins liðið var svipt stigum.  Þar áttu í hlut ekki ómerkari menn en Schumacher og Coulthard.

En annars var keppnin í dag með eindæmum.  Ég sat á sófabrúninni og trúði varla hvað var að gerast.  Þó að ég hefði verið beðinn um að skrifa handrit að þessum kappakstri hefði hann varla getað farið betur fyrir okkur Ferrari aðdáendur.  Sjálfur var ég löngu búinn að gefa upp alla von um að titillinn endaði hjá Ferrari, en þetta sýnir að það þarf að keyra af bjartsýni til síðasta metra. 

Reyndar virtist mér þegar Raikkonen hafði unnið þetta, að spennan hefði haft mun minni áhrif á hann en mig, og að sama skapi held að á ytra borðinu hafi ég virkað glaðari en hann.  "Ísmaðurinn" læddi þó fram smá hamingjubrosi, en það væru ýkjur að segja að hann hafi brosað hringinn.

En þetta er búið að vera ótrúlegt ár, hreint ótrúlegt að ná titlinum svona í síðasta móti. Það hefur verið glatt á hjalla á Ítalíu og í Finnlandi í kvöld.

Að sama skapi held ég að Ron Dennis og McLaren menn vilji gleyma þessu sem fyrst.  Árið sem virtist lofa svo góðu hefur reynst hið hræðilegasta.  Njósnaskandall, öll vandræðin í kringum ökumennina og nú siðast að missa titilinn úr höndunum á sér á "síðustu metrunum".

En það þarf að stokka Formúluna upp, breyta fyrirkomulaginu og gera það "gegnsærra".  En ég held að fáir geti mælt á móti því að Raikkonen er vel að titlinum kominn, enda hefði hann hlotið titilinn hefðu Alonso, Hamilton og hann orðið jafnir að stigum.  Hann er fremstur á meðal jafningja.

En því verður ekki á móti mælt að árangur Hamilton er einstakur og glæsilegur, aldrei hefur nýliði átt betra fyrsta ár, alla vegna ekki svo ég muni eftir.  Ecclestone sagði reyndar að hann vildi að Hamilton næði titlinum (hann telur að Hamilton geri svipaða hluti fyrir formúla og Tiger Woods gerði fyrir golfið, hann taldi Raikkonen sístan í því tilltii, þar sem hann segði varla neitt og væri "frosin" í framkomu), og það má telja líklegt að sá tími muni koma að Hamilton hampi titlinum.

En það er ekki í ár, þetta er ár Kimi Raikkonen.  Hann er kóngurinn þetta árið og ákaflega vel að titlinum kominn.

 

 


mbl.is Rannsókn á bensínsýnum gæti breytt úrslitum brasilíska kappakstursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Kristjánsson

http://www.formula1.com/news/headlines/2007/10/7023.html

Hér má finna frekari upplýsingar um þetta mál og samkvæmt þessu er líklegt að McLaren kæri þessa niðurstöðu, ef að þeir eru að ná inn kaldara bensíni eru þeir að ná út betri nýtingu og meira afli ef mér skjátlast ekki og það sýnir sig að Kubica var t.d. oft að keyra hraðar en Alonso og ekki flaug nú Hamilton beint framúr þessum mönnum, þeir geta alltaf sagt EF þetta þá þetta dæmið góða og ef þeir vinna það, þá fær Hamilton fína dollu í Mónakó í næsta mánuði.

Halldór Kristjánsson, 22.10.2007 kl. 01:44

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég væri í sjálfu sér ekki hissa þótt að McLaren áfrýjaði úrskurðinum og í raun skrýtið að reyna það ekki, og þó.  Það er ljóst að eins og ég sagði í pistlinum hér að ofan að fordæmi í þessa veru benda öll i þá átt að aðeins liðunum yrði refsað.  Svipað mál kom upp fyrir 12

G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2007 kl. 02:03

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

árum.

Ennfremur má minna á dekkjamálið, þar sem aðeins McLaren var gerð refsing en ekki Hamilton.  Ennfremur má auðvitað draga upp atvikið í Kína, þar sem Hamilton slapp í raun betur en hann átti skilið.  Það má draga þá ályktun að þar hafi Hamilton notið þess að dómarar vildu ekki fella dóma sem hefðu getað haft bein áhrif á keppni ökuþóra.

Sé litið til alls þessa, þá hef ég enga trú á því að þessari niðurstöðu verði breytt.

G. Tómas Gunnarsson, 22.10.2007 kl. 02:06

4 identicon

Vona að þessu fari að ljúka. Mér er svo sem sama hver þeirra hlítur titilinn, þeir eru allir þrír frábærir ökumenn og verðugir heimsmeistarar. Keppnin í ár hefur verið frábær á brautinni en síðan verið algjörlega eyðilögð með kærumálum fram og til baka. Sama hver hampar bikarnum hann verður lítils virði fyrir viðkomandi. Það mun alltaf hanga yfir að árið 2007 var árið þegar lögfæðingarnir urðu heimsmeistarar í Formúlu 1.

Einar Steinsson (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 07:19

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég vona bara innilega að úrslitin standi og Raikkonen standi uppi sem sigurvegari.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.10.2007 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband