REIgin mistök

Það hefur verið grátlegt að lesa um þessa atburðarás.  Fátt  hefur verið framkvæmt rétt, alla vegna frá mínu sjónarhorni.

Í mínum huga byrja mistökin þegar ákveðinn er samruni opinbers fyrirtækis og einka.  Ja, jafnvel aðeins fyrr, þegar aðeins valdir fjárfestar fá að leggja fé í fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki OR.

 Stjórnmálamenn eiga ekki og ættu ekki að geta farið með slík fyrirtæki sem sín eigin.

Hugmyndin að fyrirtækinu er ekki slæm, að nota þann þekkingarauð sem safnast hefur hjá OR.  En síðan fer þetta niður á við.  Það er vissulega góð hugmynd að fá áhættufjármagn til þess að áhættan liggi ekki öll hjá OR, en þá á að auglýsa eftir því, fjárfestar eiga að sitja við sama borð.  Stjórnmálamenn eða stjórnendur fyrirtækisins eiga ekki að handvelja fjárfesta inn í fyrirtækið. 

Það gilda aðrar leikreglur um opinber fyrirtæki en þau sem starfa í einkageiranum.

Síðan gengur það heldur ekki upp að í mínum huga að sameina opinbert fyrirtæki og einkafyrirtæki, án þess að önnur fyrirtæki eða fjárfestar hafi þar nokkra möguleika.  Sú staðreynd að ekkert "óháð" verðmat hafi farið fram er svo annar hlutur sem virkar ekki traustvekjandi.

Líklega má bera þetta saman við að fyrst hefði völdum fjárfestum verið seldir hlutar í Símanum og fyrirtækið síðan látið renna saman við Vodafone.  Ég reikna með að það hefði ekki þótt góð "latína".

Þegar opinber fyrirtæki eru "færð" yfir í einkageirann (að hluta eða að fulllu) er nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt, þannig að áhugasamir fjárfestar hafi jafna möguleika til að taka þátt í "geiminu".

Þetta undarlega samkrull af einka og opinberum rekstri, þar sem ákvarðanir virðast vera teknar í skyndi af þröngum hóp á einflaldlega ekki að eiga sér stað.

Oft hefur verið "hveralykt" af Orkuveitunni, en sjaldan eins og núna.

Það atriði sem hefur valdið mestu fjaðrafoki, þ.e.a.s. "kaupréttarsamningarnir", þá vil ég bæta því við að þar er opinberu fyrirtæki vissulega vandi á höndum.  Fyrirtæki verður að geta haldið lykilstarfsmönnum og boðið þeim umbun sem þarf.  En þar er einmitt opinbera eignarhaldið enn og aftur til vandræða og nauðsynlegt að hafa skýrt og heiðarlegt ferli við færslu fyrirtækis úr opinberrri (meirihluta) eigu yfir í einkageirann.

P.S.  Verð svo að bæta því við að allur samanburður við bankanna er auðvitað út í hött, og sömuleiðis sú röksemdafærsla að bankarnir hefðu orðið jafn mikils virði ef þeir hefðu verið áfram í opinberri eigu.  Slíkt færa ekki fram nema lýðskrumarar.

Vissulega má segja að Orkuveitan geti orðið af miklum hagnaði ef stór eða allur hluti REI er seldur, en lykilorðið er "geti".  Orkuveitan getur líka orðið af miklum hagnaði með því að kaupa ekki stóran hluta í Kaupþingi, Landsbankanum eða Microsoft.  En það er spurningin hvort að eigendur Orkuveitunnar (skattgreiðendur í Reykjavík, Akranesi og Borgarnesi) vilji að farið sé með fé OR í áhættufjárfestingar meira en nauðsynlegt er. 

Að mínu mati er það ákaflega skynsamlegt að halda aðeins eftir litlum (eða engum) hluta í fyrirtækinu og leggja ekki fram neitt nema þekkingu, láta öðrum eftir að leggja fram fjármagnið.  En ég endurek að þar ættu allir fjárfestar að sitja við sama borð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er góð greining á muninum á opinberu fyrirtæki og einkafyrirtæki.  Það er samt eitt sem mig langar að fá betri skýringu á:  Hvort er í þínum huga áhættusamara að bora eftir jarðvarma til að nota fyrir raforkuver á Íslandi og nota til þess lánsfé eða skattfé eða að gera samning við, segjum, ungverska ríkið um að koma á fót hitaveitu í Ungverjalandi?  Í mínum huga er íslenska framkvæmdin mun áhættusamari, m.a. vegna ógna frá náttúrunni, óvissu um að finna virkjanleg orku, andstöðu almennings við verkefni sem hafa skaðleg áhrif á umhverfið, óvissu um verð og margt fleira.

Marinó G. Njálsson, 11.10.2007 kl. 21:40

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir athugasemdina.  Ég er í sjálfu sér ekki í stakk búinn til að meta áhættu í jarðvarmafjárfestingum í Ungverjalandi eða Íslandi, en þykir ekki ólíklegt að þú hafir rétt fyrir þér að áhættan sé að mörgu leyti meiri á Íslandi.

En það skiptir í sjálfu sér ekki máli.

Orkuveitan (eða öllu heldur fyrirrennarar hennar) voru stofnaðir til að leysa einmitt það mál, að afla orku og vatns (veita bæði köldu og heitu) fyrir notendur í Reykjavík og nágrenni, veita þeim "samfélagslega þjónustu"..  Hvort að Ungverjaland eða Indónesia sé í nágrenni Reykjavíkur nú á dögum "heimsþorpsins" og flötu jarðarinnar er svo önnur saga. 

En þó að ávinningurinn geti vissulega verið góður, er hann alls ekki gefinn.  Um það stendur líka deilan, í það minnsta að hluta til. Á að fara með fé OR (og þar af leiðandi íbúa á svæði OR) í áhætturekstur erlendis?

G. Tómas Gunnarsson, 12.10.2007 kl. 04:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband