Hæglætislifnaður að Bjórá - Jóhanna Sigrún - Vín og ávextir - Virkið hans George´s

Það er hæglætislífnaður að Bjórá þessa dagana.  Allt tifar sinn vanabundna gang, dóttir okkar sem er 3ja vikna í dag er einnig að falla í viðjar vanans, gerir æ minna uppistand, sefur meira og meira á nóttunni og er í alla staði ánægjuauki.  Það er vert að geta þess að henni hefur verið gefin nöfn, og hlýðir vonandi í framtíðinni þegar þau verða kölluð all hátt.

En heimasætan að Bjórá heitir Jóhanna Sigrún Pere  og er Tómasdóttir.

Foringinn er einnig fyllilega búinn að sætta sig við þessa viðbót í fjölskylduna, er ánægður með að vera stóri bróðir og finnst litla systir falleg, þó að hún sé ekki til mikils gagns, eða nothæf til leikja.

Ég hef nú lokið að mestu öryggisátaki því sem staðið hefur yfir að Bjórá nú um nokkurn tíma, búinn að setja upp tvo reykskynjara, tvö slökkvitæki, keypti "skjólborð" á eldavélina og er búinn að festa allar hillur við vegg.  Ennfremur er frystirinn læstur, kyndiklefinn hefur verið gerður öruggur og enginn nema fullorðinn kemst inn í þvottahúsið.  Enn er þó eftir að ganga frá nokkrum skúffum þannig að hættan á meiðslum minnki.

Ég átti smá erindi í gær til St. Catharines og notaði tækifærið og bauð tengdamömmu og foringjanum í smá bíltúr.  Þegar erindinu var lokið keyrðum við um nágrennið, heimsóttum nokkra vínbændur og keyptum af þeim afurðir, einnig var litið við á markaði og keypt örlítið af grænmeti og ávöxtum.

Við heimsóttum einnig virkið, Fort George og fræddumst örlítið um stríðið á milli Bandaríkjanna og Bretlands/Kanada árið 1812.  Einhvern veginn fellur þetta stríð alltaf af í skuggann af öðrum stríðum, enda Napóleon upp á sitt besta og var staddur nálægt og í Moskvu þetta ár, en fyrir þá sem bjuggu hér í Norður Ameríku, var þetta auðvitað mál málanna og það sem mestu máli skipti.

Mér finnst alltaf jafn gaman að heimsækja vínbúgarðana, dreypa örlítið á og kaupa inn.  Kaupin voru þó heldur minni en oft áður, enda breyttust fjárráðin örlítið þegar húsið var keypt, en samt sem áður er það skemmtileg stemning að versla beint við bændur, þó að verðið sé það sama, enda er vínsala háð yfirgripsmiklum reglum og skattlagningu hér eins og víðar.  Einstaka sinnum má þó gera verulega góð kaup hjá bændum, stundum þurfa þeir að rýma til fyrir nýrri árgöngum og bjóða góð verð. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband