Merkilegt

Mér þykir niðurstaða FIA í þessu máli býsna merkileg og hún vekur vissulega upp ýmsar spurningar.

Í fyrsta lagi þá er McLaren fundið sekt um að hafa aflað upplýsinga með ólöglegum hætti, en þar sem ekki er talið sannað að þær upplýsingar sem aflað var ólöglega hafi verið nýttar, er fallið frá refsingu!

Skrýtin niðurstaða.

Ég sem hélt að brotið væri framið þegar upplýsinganna væri aflað.

Þessi niðurstaða vekur líka upp þá spurningu hvar mörkin á milli liðs og starfsmanns liggur? Hver er ábyrgð liðs ef starfsmaður er brotlegur?

Svo er líka spurningin hvernig hægt er að hafa allar þessar upplýsingar undir höndum án þess að notfæra sér þær við vinnu sína sem hönnuður annars liðs?

Flestir, s.s. Briatore virðast enda vera hneykslaðir á þessari niðurstöðu.

P.S.  Fyrirsögnin á þessari frétt er reyndar býsna merkileg.  "Ferrari brjálast....", býsna merkilegt orðalag og eitthvað sem ég hef ekki séð aðra fjölmiðla nota, þó að vissulega hafi forráðamenn Ferrari lýst því yfir að þeir séu ekki sáttir við þessa niðurstöðu, en ég hef hvergi lesið fréttir af því að þeir hafi "brjálast", eða misst alvarlega stjórn á skapi sínu.

En þetta er ekki í fyrsta sinn sem mér finnst það koma nokkuð skýrt fram hvar "samúð" mbl.is liggur í Formúlunni, en það er önnur saga.


mbl.is Ferrari brjálast yfir að McLaren skyldi sleppt við refsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sæll Tómas og þakka þér fyrir athugasemd vegna fréttarinnar. Er jákvæður gagnvart gagnrýni, ábendingum eða aðfinnslum, tek slíku alls ekki illa en nota tækifæri til útskýringa ef mér finnst þurfa. 

Samúð mín í formúlunni er annað hvort alls staðar eða hvergi. Held hvorki með liði né ökuþór en dáist að mörgu og mörgum, m.a. held ég svolítið "í laumi" upp á Felipe Massa og Lewis Hamilton. Og Ferrari er frábært lið, hefur lengi verið og verður vonandi um ókomna áratugi.

Einhverra hluta vegna verð ég að búa við þann útbreidda misskilning meðal stuðningsmanna Ferrari að mér sé í nöp við það ágæta lið. Ástæður þeirrar afstöðu skil ég ekki. Er það vegna þess að þeim finnst að ég ætti fremur að þegja um fréttir sem gætu á einhvern hátt varpað skugga á liðið eða dregið úr dýrðinni? 

Kannski gruna menn mig um Ferrarifjandskap þar sem ég hélt leynt og ljóst með ökumanni sem hætti að keppa 1999 og helsti keppinautur hans var Michael nokkur Schumacher. Af þeim sökum hélt ég ekki með Schuma þótt frábær hafi verið.   

Varðandi fyrirsögnina þá er hún í anda fyrirsagna nokkurra virtra erlendra  netmiðla (m.a. BBC og Auosport) af viðbrögðum Ferrari við niðurstöðu íþróttaráðs FIA.

Dæmi um slíkar fyrirsagnir: „Ferrari outraged by FIA spy decision“ - „Ferrari fume at ruling“ - „Ferrari fury over McLaren verdict“ - „Ferrari furious at hearing outcome“ - „Ferrari furious with McLaren's reprieve“ - „Ferrari slams FIA decision“ - „Ferrari condemn verdict in F1 spy hearing

Í a.m.k. fimm þessara er talað um brjálsemi af hálfu Ferrari. Kannski tek ég sterkt til orða. En það verður að lesa fréttatilkynningu liðsins og skoða samhengi þess sem þar stendur við yfirskrift mína og annarra. Ég tek m.a. á því í formúlublogginu mínu, þar kemur skoðun mín á þessu kemur máli fram.

Bendi þér á bréfaskriftir forseta FIA vegna áfrýjunar málsins. Þar segir hann McLaren hafa verið sakfellt í málinu einfaldlega og eingöngu vegna ábyrgðar þess á starfsmanni sínum. Hann (Coughlan) hafi notað Ferrarigögnin einungis til að byggja upp eigin gagnagrunn á heimili sínu til að undirbúa sig undir störf annars staðar.

Með kveðju

Ágúst

Ágúst Ásgeirsson, 31.7.2007 kl. 16:52

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Einhverra hluta vegna birtast spurningamerki í stað gæsalappa undan og eftir fyrirsögnunum tilvitnuðu.

Ágúst Ásgeirsson, 31.7.2007 kl. 17:00

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ekki ætla ég í langar rökræður um hvernig beri að skilja fyrirsagnir, nú eða sambærilegar fyrirsagnir á Enskri tungu.

Ferrari outraged by FIA spy decision? - ?Ferrari fume at ruling? - ?Ferrari fury over McLaren verdict? - ?Ferrari furious at hearing outcome? - ?Ferrari furious with McLaren's reprieve? - ?Ferrari slams FIA decision? - ?Ferrari condemn verdict in F1 spy hearing?

En ekkert af orðunum í fyrirsögnunum hér að ofan (outrage, fume, fury, furious, slams, condemn) myndi ég þýða með Íslenska orðinu "brjálast" eins og sú merking er sem ég legg í það.

Ég myndi telja að þýðing á við, "Ferrari reiðir yfir... " Ferrari fordæmir...", "Ferrrari ósáttir...", "Mikil reiði Ferrari...", eða jafnvel "Gríðarleg reiði Ferrari...", einnig .

Ekkert sem ég hef lesið um málið bendir til að um einhverja "brjálsemi" hafi verið að ræða af hálfu Ferrari, heldur hitt að um sterk viðbrögð hafi verið að ræða, en þeir komið fram án þess að "brjálast".

Auðvitað má lengi deila um orðnotkun og sömuleiðis um þýðingar og merkingar orða.  Unglingar temja sér til dæmis gjarna sterk lýsingarorð og "brjálsemi" þekkt í þeirra orðaforða, en persónulega finnst mér slík orðanotkun ekki eiga erindi í fjölmiðla, enda finnst mér hófstilltari vinnubrögð fara betur þar.

G. Tómas Gunnarsson, 31.7.2007 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband