Skýr markmið - Tannlaus friðargæsla

Þessu er ég alveg sammála.  Það þarf að setja friðargæsluliði, ef til kemur, skýr markmið og það þarf líka að vera ljóst að friðargæslulið þarf ekki nauðsynlega að halda frið við alla. 

Þannig þarf það að vera ljóst að friðargæslulið hafi heimild til að beita vopnavaldi ef svo ber undir.

Það getur til dæmis varla talist eðlilegt að undanfarin 6 ár hafi Hezbollah notað tímann til þess að grafa byrgi og göng, koma fyrir skotstöðvum fyrir flugskeyti, allt á meðan "friðargæslulið" valsar um svæðið og gerir ekkert.  Það er ekki líklegt til að varðveita friðinn (ja nema í augnablikinu) til langframa.

Það er reyndar undarlegt að ríki sem vill teljast sjálfstætt leyfi skæruliðum að búa þannig um sig innan landamæra sinna og gera þaðan árásir á annað ríki, en það er önnur saga og sorglegri. Sjálfstæði Líbanons hefur um langt skeið verið meira í orði en á borði.

En það er auðvitað brýnt að vopnaviðskiptum þarna linni, en það þarf að vera með þeim hætti að íbúar beggja vegna landamæranna geti búið við öryggi.

Það er líka ljóst að mínu mati að það er algerlega óviðunandi fyrir friðargæslulið að vera eingöngu "stuðari" á milli tveggja fylkinga, geta átt von á því að þeim ljósti saman hvenær sem er, án þess að hafa heimild til að gera nokkuð.

En að nokkru leyti er þetta vandi SÞ í hnotskurn.  Samtökin virka þung, sein og ófær um að fylgja málum sínum eftir svo að vel fari.  Er skemmst að minnast Darfur í því sambandi.


mbl.is Varnarmálaráðherra Frakka segir að alþjóðlegt gæslulið verði að hafa heimild til að beita vopnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er sammála orðum þínum í þessari vefgrein, Tómas, og vil hæla þér fyrir góðan stíl og skipulega framsetningu. Það er líka þarfaverk að miðla hingað upplýsingum úr erlendum fjölmiðlum, því að mörgum hér heima hættir við einhæfum lýsingum á þessu átakamálum. En á Vísir.is hafa farið fram allmiklar, á köflum kröftugar umræður, en afar stórorðar í bland og það á báða bóga (á stundum með afar óverðugum hætti, fyrir utan vanþekkingu sumra og einsýni). Þær umræður eru í formi athugasemda við greinar eftir Jón Orm Halldórsson (Tilbúin handrit), Steinunni Stefánsdóttur, Sverri Jakobsson (með miklum fúkyrðaflaumi um hann o.fl., en líka eðlilegri gagnrýni) og nú síðast við grein eftir Hafliða Helgason (þar hafa reyndar aðeins tveir lesendur tekið til máls, og á ég tvö innlegg, annað almennt um átakamálið milli Ísraels og Líbanons og það sem leyst gæti vandann, en hitt ber heitið Harmleikurinn í Qana).

Ég er sammála þér í því princípatriði, að Ísrael hefur rétt til að verja sig (eins og þú skrifaðir líka um í greininni Líbanaon -- tvöfaldur ríkisborgararéttur), en það jafngildir því vitaskuld ekki, að við samþykkjum það sem gerðist í Qana. Þótt það hefði ekki gerzt nema fyrir þá staðreynd, að Hizb. var þar með flugskeytavíghreiður, sem notað hafði verið til árása á Ísrael, og enda þótt Ísraelsmenn hafi sent flugmiða yfir svæðið til að hvetja íbúana til að flýja af vettvangi, þá verður ábyrgðin ekki tekin af Ísrael, einkum með hliðsjón af því, hve hrikaleg árásin var, í átta hrinum loftárása. Ég vil því að lokum vitna í Montgomery lávarð (A Concise History of Warfare (1968, endurútg. 2000, s. 359): "There is no merit in needless loss of life -- indeed, nothing but shame and folly. The lives of men should be precious; they are not to be risked without a cause, nor used when other means will serve."

Jón Valur Jensson, 1.8.2006 kl. 15:31

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir athugasemdina.

Það er ein af grundvallarskyldum ríkis að vernda þegna sína. Þá skyldu ber Ísraelsríki eins og önnur ríki og hefur meira mætt á þeirri skyldu þeirra en flesta annara ríkja.

Persónulega finnst mér okkur öllum hætta til að ofmeta getu hernaðartóla og stjórnenda þeirra til þessa að heyja "afmarkað" og jafnframt "takmarkað" stríð. Við viljum standa í þeirri meiningu að þeir geti "skorið" burt "meinið" með þvílíkri nákvæmni að fáir sem engir saklausir borgarar bíði tjón af. Slíkt er því miður enn fjarri sanni. Stríð er ónákvæmt og "subbulegt" fyrirbrigði, þó að vissulega hafi eitthvað miðað í rétta átt hvað þetta varðar. Enn fremur skal það hafa í huga að öllu þessu er stjórnað af mönnum, sem rétt eins og öðrum mönnum verða á mannleg mistök.

Það þýðir þó ekki að við eigum að hætta að krefjast bætts ástands, við eigum að halda áfram að berjast og óbreyttir borgarar eiga skilið alla okkar samúð og hjálp.

Hitt gerir svo málið ennþá flóknara, þegar barist er við skæruliða, er að margir þeirra ganga ekki í einkennisbúningum. Það er því erfitt að greina á milli þeirra og óbreyttra borgara, auk þess sem mörg dæmi eru um að þeir beinlínis leiti í það skjól sem óbreyttir borgarar eru að nota. Eða jafnvel noti þá vísvitandi sem skjöld.

Skæruliðarnir vita jafnframt að fátt er betur til þess fallið að vekja samúð með þeim, en myndir af illa slösuðu, limlestum eða látnum óbreyttum borgurum.

Það eru því eins og oft áður mörg sjónarmið sem taka þarf í reikningin. Ekki síst eins og ég hef marg oft nefnt áður, hvers vegna er Hezbollah leyft að setja upp skotflaugapalla nálægt landamærum Ísraels, hvar var líbanski herinn þá? Hverjir standa að baki Hezbollah? Notar Hezbollah undanbragðalaust einkennisbúninga þannig að þekkja megi þá frá óbreyttum borgurum? Staðsetja þeir byrgi sín og vopn þannig að sem minnst hætta sé á að óbreyttir borgarar beri af því skaða sé ráðist á þá?

G. Tómas Gunnarsson, 1.8.2006 kl. 18:33

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sjálfþakkað, Tómas.

Hyggindalega skrifar þú hér í viðbót, og þrátt fyrir minn krítíska sans get ég ekki annað sagt en að ég sé sammála þessu öllu hjá þér.

Jón Valur Jensson, 3.8.2006 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband