Höldum RUV á auglýsingamarkaði - Fréttatíminn er aldrei ókeypis

Það hefur vakið mikla athygli að Stöð2 hafi ákveðið að "læsa" fréttatíma sínum. 

Að sumu leyti er það þróun sem hefur mátt sjá víða um lönd, þannig að fréttamiðlar, t.d. á netinu, hafa í auknum mæli farið að læsa síðum sínum nema fyrir þeim sem eru reiðubúnir til að greiða áskriftargjald.

Fréttirnar eru auðvitað aldrei ókeypis, það er bara spurning um hvernig borgað er fyrir þær.

En eðlilega hefur umræðan á Íslandi ekki síst snúist um hvernig aðrir miðlar geti keppt við Ríkisútvarpið, hvort að ekki sé rétt að taka það af auglýsingamarkaði og hvernig eigi að bæta Ríkisútvarpinu það upp.

Persónulega tel ég slíka umræðu á algerum villigötum. 

Ef Ríkisútvarpið hefur t.d. 20% hlutdeild á Sjón/útvarpsmarkaði, þá hefur það lítið upp á sig að taka það af auglýsingamarkaði, ef aðrar tekjur gera því kleyft að halda markaðshlutdeild sinni.

Það þýðir einfaldlega að 20% af neytendum á sjón/útvarpsmarkaði eru teknir af markaði og auglýsendur þurfa að finna aðrar leiðir til að ná til þeirra.  Auglýsingar í öðrum miðlum á Íslenskum sjón/útvarpsmarkaði eru ólíklegar til að þjóna því hlutverki. 

Líklega er þá vænlegra að leita til annara miðla, s.s. FaceBook, sem hefur mikla útbreiðslu á Íslandi.

Persónulega finnst mér rökréttara að halda Ríkisúvarpinu á auglýsingamarkaði en fella niður útvarpsgjaldið og allan stuðning hins opinbera.

Ef ríkið vill vera á samkeppnismarkaði þá á ríkið einfaldlega að vera á samkeppnismarkaði - án allrar forgjafar.

Stjórn ríkisútvarpsins getur svo ákveðið hvort að þeir vilji vera áskriftarmiðill eða fara aðrar leiðir.

Ríkisrekstur finnst einnig á öðrum samkeppnismörkuðum, t.d. bankamarkaði.

Myndu Íslendingar vilja að allir Íslendingar yrðu skyldaðar til að leggja 20% af launum sínum inn á reiking í ríkisbanka? 

Eða vera skyldaðir til að leggja 40% af öllum sparnaði sínum inn í ríkisbanka?  Burtséð frá þeim kjörum sem bjóðast?

Þætti Íslendingum eðlilegt að vera skyldaðir til að að í það minnsta 30% af skuldum þeirra yrði að vera í ríkisbanka, burtséð frá þeim kjörum sem ríkisbankar bjóða?

Líklega ekki.

En Íslendingar treysta einstaklingum og fyrirtækjum til þess að velja sér þær fjármálastofnanir sem henta þeim eða bjóða best.

Ef ríkið vill eiga banka á samkeppnismarkaði er eðlilegt að hann lúti og um hann/þá gildi sömu reglur og viðmið og aðra banka á þeim markaði.

Er ekki rétt að slíkt gildi einnig um fjölmiðla?

Stundum er talað um að "þrígreiningu" valdsins og þar þurfi að vera aðgreining.

Persónulega finnst mér sú aðgreining á Íslandi oft á tíðum vera umdeilanleg.

En það er ekki síður þörf á því að kljúfa "fjórða valdið" frá ríkisvaldinu.

 

 

 

 


mbl.is „Engin hagræðing“ í Efstaleiti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Áhorfendum og hlustendum væri mikill greiði gerður með því að hætta með auglýsingar í Rúv. En auglýsendur yrðu minna hrifnir því þeir vita sem er að best er að ná til markhópa í gegnum Rúv, enda sá miðill sem Íslendingar treysta.

Ríkisfjölmiðlar eru mikilvægir til að viðhalda samhengi og samkennd, t.d. hélt fyrrverandi "Governor General" í Kanada því fram að CBC væri ein grundvallarástæðan fyrir því að Kanada hangi saman, og stór þáttur í "sjálfsmynd" landsins - sem er annars svo sundurleitt (að ekki sé minnst á stórt).

Það blasir við að ef enginn ríkisfjölmiðill væri á Íslandi væru stórir hlutar landsins án fjölmiðlaþjónustu. 

Kristján G. Arngrímsson, 13.1.2021 kl. 09:34

2 identicon

Kristján:  Ég treysti ekki RÚV og ég veit ekki betur en að ég sé Íslendingur.  Eini raunverulega lausnin er að leggja RÚV niður. RÚV er tímaskeggja og öll þau rök sem haldið er á lofti til að réttlæta að ríkið reki fjölmiðil standast ekki skoðun.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.1.2021 kl. 10:24

3 identicon

Tímaskekkja á það að sjálfsögðu að vera :)

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.1.2021 kl. 10:26

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Stefán: Þú kannski ferð þá í gegnum þessi rök og sýnir hvernig þau standast ekki skoðun? (Frekar billegt að að slá fram svona fullyrðingu án nánari útskýringar - ég fullyrði þá bara á móti: öll rök fyrir því að leggja eigi Rúv niður standast ekki skoðun.)

Kristján G. Arngrímsson, 13.1.2021 kl. 10:27

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það eru margvíslegar skoðanir um veru RUV á auglýsingmarkaði.  Í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.

Ein kemur til dæmis fram í þessari frétt mbl.is: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/01/12/hagur_neytenda_og_auglysenda_se_tryggdur/

Þar er haft eftir Kolbeini Proppe:

"Spurður um það hvernig rétt­læta megi veru Rík­is­út­varps­ins á aug­lýs­inga­markaði tek­ur Kol­beinn í svipaðan streng og Bjarkey. Að með veru RÚV á hon­um sé tryggður aðgang­ur fólks að aug­lýs­ing­um óháð efna­hags­legri stöðu."

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki rekist á þessa nálgun áður að ég man, en vissulega jafn rétthá skoðun og hver önnur.

Hún stangast hins vegar algerlega á við þá skoðun þína að hlustendur/áhorfendur RUV myndu fagna því að auglýsingar hyrfu. 

Það má skjóta því að þegar ég man ég að mörgum jafnöldrum mínum þótti auglýsingar betra efni, en margt af því sem Sjónvarpið bauð upp og jafnvel ræddar manna á milli.

Ekki ætla ég að dæma orð fyrrverandi "ríkisstjóra" Canada. Mér þykir þó ólíklegt að t.d sjónvarpsstöð með 5% áhorf sé mikið sameiningartákn.  0.8% þjóðarinnar horfa á meðaltali á fréttatíma hennar.  Og leiðin hefur ekki legið upp á við.

https://torontosun.com/news/national/cbc-tv-struggling-to-keep-advertising-dollars-from-falling

Ég skil nú ekki alveg hvað þú átt við með "fjölmiðlaþjónustu", hvort að um ræðir dreifkerfi eða t.d. fréttaþjónustu.

Ég tók þann pól í hæðina að ræða "dreifikerfi". 

"Stafrænt dreifikerfi Vodafone um loftnet nær til 99,9% landsmanna auk helstu sumarhúsasvæða og er stærsta sjónvarpsdreifikerfi landsins. Með því fást útsendingar í RÚV í háskerpu, aukin mynd- og hljómgæði og aðgangur að a.m.k. 9 sjónvarpsstöðvum um allt land. Hér fyrir ofan er kort af dreifisvæðinu, en hægt er að smella á kortið til að fá það í stærri útgáfu."

https://vodafone.is/sjonvarp/sjonvarpsthjonusta/thjonustusvaedi/

Sé ekki betur að síðan 2015, eða þar um bil, hefur Vodafone (er það ekki Sýn), sem hefur séð um stóran hluta ef ekki mestan hluta dreifingar fyrir RUV.

Ég held að bæði hvað varðar RUV og CBC sé um að ræða um "veröld sem var".

Svo má heldur ekki líta fram hjá því að margir "staðarmiðlar" hafa kvartað hástöfum undan samkeppninni við RUV, en það er önnur saga.

G. Tómas Gunnarsson, 13.1.2021 kl. 13:28

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Stefán, þakka þér fyrir þetta. Ég held að traustið til RUV sé almennt séð enn mikið, þar með talið fréttastofuna.

En ég veit ekki nákvæmlega sú þróun hefur verið.

En auðvitað er líka hægt að eyða meira fé í starfsemi, ef forgjöfin er jafn stór og raun ber vitni hjá RUV.

Það er ef til vill mergur málsins, að á samkepnnismarkaði eigi allir að sitja við sama borð.

G. Tómas Gunnarsson, 13.1.2021 kl. 13:44

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já þessi orð ríkisstjórans eru frá árinu 2002 - greinilega hallað mjög undan fæti síðan. 

Mér finnst afstaða Kolbeins skemmtileg. Reyndar svona eins og fáránleiki er oft fyndinn. Get ekki sagt að mér finnist þetta sannfærandi rök fyrir því að Rúv verði áfram með auglýsingar. (Enda hvers vegna ættu auglýsendur að vilja ná til fólks sem ekki hefur hvort eð er efni á því sem verið er að auglýsa?)

Ég var kannski ekki að meina dreifikerfið heldur frekar t.d. fréttir "úr héraði" - sem koma sveitum landsins á framfæri við alla landsmenn. Það er bara Rúv sem er með slíka fréttastofu, Moggi komst sennilega næst því en hefur pakkað í vörn, rak nýlega einn öflugasta og reynslumesta "dreifbýlisfréttamann" sinn.

Það er jú frekar hallærislegt ef t.d. Raufarhafnarbúum er bara boðið upp á "fréttir" um það sem á gengur í borgarstjórn Reykjavíkur - þótt það sem þar á sér stað sé reyndar oft á pari við fyrirtaks absúrdleikhús.

Kristján G. Arngrímsson, 13.1.2021 kl. 14:11

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég er sammála því að mér finnst sjónarhorn Kolbeins mjög sérstakt. En vissulega eru mörg sjónarhorn á þessu "stóra" máli.

Ef ég hef skilið rétt hafa allir Íslenskir fjölmiðlar dregið úr starfsemi á landsbyggðinni, þar með talið RUV.

Einhver sagði mér að N4 sé besti fjölmiðillinn hvað varðar fréttir og umfjöllun af landsbyggðinni.

Er ekki sömuleiðis Kristján "í vestinu", einhver öflugasti landsbygðarfréttamaðurinn á Íslandi?

En ég hugsa að eftir því sem efnahagur fjölmiðla er verri, dregst slík fréttaöflun saman, enda líklega heldur dýrari.

En svo er bæði tækni og samgöngur mikið betri en var, þannig að það er auðveldara að "skreppa" á stuttum tíma þar sem fréttir eru "að gerast".

En hitt er einnig vert að hafa í huga að meira að segja litlir "local" miðlar á landsbyggðinni hafa verið að kvarta undan "ryksugun" og undirboðum RUV á auglýsingamarkaði á landsbyggðinni.

Það grefur undan fjölmiðlun um allt land.

G. Tómas Gunnarsson, 13.1.2021 kl. 17:18

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er í raun og veru einhver gild ástæða fyrir NAUÐSYN þess að RÚV sé til? Hver er þá sú ástæða, eða ástæður?

Þorsteinn Siglaugsson, 13.1.2021 kl. 18:46

10 identicon

Kristján. Eftirfarandi hefur mér sýnst vera rök þeirra sem telja nauðsynlegt að hafa hér ríkisfjölmiðil:

1. Nauðsynlegt er að hafa hlutlausan ríkisfjölmiðil. Ég trúi því ekki að nokkur haldi því fram í dag í fullri alvöru að RÚV sé hlutlaus miðill.

2. Ríkisfjölmiðill tryggir að frmleitt sé vandað íslenskt efni.  Það þarf ekki að reka risavaxna, rándýra ríkisstofnun með skylduáskrift til að uppfylla þetta markmið. Hægt er fjármagna gerð íslensks efnis með sjóði sbr, kvikmyndasjóður sem er auðvitað miklu eðilegra fyrirkomulag þar sem allir eiga sama möguleika.

3. Ríkisfjölmiðill tryggir dreifingu um allt land. Þessi röksemd stenst varla lengur því RÚV virðist hættir að mestu að viðhalda dreifikerfinu. Engin kanall virðist vera hjá þessari stofnun allra landsmanna  til að kvarta undan vöntun á endurvarpi. Markmiðið virðist vera að koma allri dreifingu í ljósleiðara og þar með hefur RÚv ekki lengur forskot í dreifingu.

4. Fleiri rök hef ég ekki heyrt. 

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.1.2021 kl. 19:25

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Einu rökin sem ég hef fundið eru að nauðsynlegt sé að geta hlustað á þáttinn hennar Veru Illugadóttur á laugardagskvöldum yfir matseldinni. En auðvitað gæti hún verið með þáttinn á annarri útvarpsstöð, eða bara á netinu.

En Kristján kann kannski betri rök?

Þorsteinn Siglaugsson, 13.1.2021 kl. 20:17

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta.  Persónulega hef ég ekki séð nauðsyn fyrir að starfrækja ríkisútvarp/sjónvarp síðastliðna áratugi.

Ekki það að á stundum kemur þaðan ágætis efni. En það er ekki eins og það efni hefði ekki getað orðið til án RUV.

Gott dæmi um slíkt, er t.d. Silfur Egils.  Ef ég man rétt byrjaði það á Skjá einum, fór síðan yfir á Stöð2 og endaði síðan á RUV.

En auðvitað getur í raun enginn keppt við þann sem hefur slíka forgjöf sem RUV.

Það ýkist svo að sjálfsögð í ástandi eins og nú, þegar ríkið lokar stærstum hluta atvinnulífsins, en skyldar alla með kennitölu til að borga eftir sem áður til RUV.

@Stefán, þakka þér fyrir þetta. Þú gleymir auðvitað þeim hræðilega sannleik að ef RUV nyti ekki við, þá yrðu ekki framleiddar "dýrar, langar og vandaðar" auglýsingar. 

Líklega yrði ríkið að styðja fyrirtæki til þess að framleiða slíkar auglýsingar, ef RUV nyti ekki við.  LOL

G. Tómas Gunnarsson, 13.1.2021 kl. 22:24

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Stefán: Það er nú kannski ekki mjög sannfærandi mótrök að fyrsta röksemdafærslan "standist ekki skoðun" af því að þú trúir því ekki að nokkur haldi því fram að Rúv sé hlutlaus miðill. Þannig að þar fór sú alhæfing þín að rökin fyrir Rúv standist enga skoðun. Þú er amk. fráleitt búinn að hrekja fyrstu rökin sem þú tilgreinir. 

Svo veit ég ekki hvort nokkur heldur því fram að Rúv sé hlutlaus miðill því að kannski er svoleiðis ekki til. Ég myndi frekar segja að enginn miðill á Íslandi flytji jafn mikið af fréttum og jafn ítarlegar og Rúv gerir. Fréttastofa Rúv er langsamlega öflugasta fréttastofa landsins - hvort hún er alltaf alveg hlutlaus skal ég sosum ekki fullyrða.

Þetta með framleiðslu innlends efnis, það er mikið af því framleitt af sjálfstæðum aðilum, en ég hugsa að hvatinn fyrir þá sé ekki síst að geta selt til Rúv. Hvert annað ættu þeir að selja? Til Sýnar sem hefur ekki einu sinni efni á að hafa fréttirnar ókeypis? Þannig að sú "skoðun" þín á þeim rökum stenst heldur ekki.

Varðandi þriðja atriðið verð ég að viðurkenna að vera ekki nóg vel að mér um dreifikerfismálin. En það sem veldur því að þörf er á dreifikerfi um allt land er lögboðin skylda (og mórölsk) Rúv til að flytja öllum landsmönnum efni sitt. Hvaða annar fjölmiðill hefur þá skyldu og þarf því á dreifikerfi að halda?

Ef ekki kæmi til þessi skylda væri enginn hvati til að bæta úr dreifikerfinu þar sem það er ómögulegt núna. Þá gætu Íslendingar sem ekki ná neinu sjónvarpi alveg gleymt því. En núna eiga þeir þó altént einhvern rétt.

Tómas, hvers vegna fór Silfrið af Skjá einum og svo á Sýn og svo á Rúv? Skjár einn er reyndar ekki til lengur - eða heitir eittvað annað. Sýn hefur ekki einu sinni efni á að halda úti fréttum ókeypis. Reyndar eru þessar "fréttir" Stöðvar 2 heldur þunnur þrettándi og hafa verð lengi. Það er alveg metnaður þar held ég, en bara ljóslega engir peningar.

Kristján G. Arngrímsson, 14.1.2021 kl. 18:08

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég veit ekki út af hverju Silfrið hefur fært sig á milli stöðva.  Það er í sjálfu sér ekki aðalatriðið. (Er ekki Sjónvarp Símans byggt upp af Skjá einum?)

Ég var einfaldlega að benda á að gott efni yrði til án þess að RUV þyrfti til, og myndi halda áfram að verða til þó að RUV hyrfi.

En svona flakk er þekkt um víða veröld. Yfirleitt er það vegna þess að betur stæðir miðlar borga meiri pening, bjóða upp á hærra "budget", ná til fleiri áhorfenda (frægð) o.s.frv. 

En ég endurtek að ég hef ekki hugmynd um út af hverju Silfrið fór á flakk.

Mjög stór hluti Íslenskrar dagskrárgerðar er fyrir aðra en RUV, s.s. Skjá einn, Stöð 2, Sjónvarp Símans o.s.frv.

Það er til listi á WikiPediu.  Ég veit ekki hversu nákvæmur hann er, en þar sést að RUV er líklega með minnihluta innlendrar dagskrárgerðar undanfarin ár.

https://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenska_sj%C3%B3nvarps%C3%BE%C3%A6tti

Þarna virðist að stóru "fjölþjóðaframleiðslurnar" séu ekki teknar með.  Þær enda að mörgu leiti sér "kapítuli", þó að RUV hafi líklega keypt sýningarréttinn, eða sé meðframleiðandi af mörgum þeirra.

Mér hefur skilist að Morgunblaðið/mbl.is, hafi lang mestu hlutdeild í framleiðslu frétta  á Íslandi, þar á eftir komi Fréttablaðið/.is.

Morgunblaðið/mbl.is, framleiðir víst meira en tvöfallt fleiri fréttir en RUV/Ruv.is.

https://www.vb.is/frettir/veirusmit-i-fjolmidlum/161070/?q=Torg

Hvað dreifikerfi varðar, skilst mér að Stöð2, sé með svo gott sem nákvæmlega sömu dreifingu og RUV, enda að miklu leyti um sama dreifikerfi að ræða.

Síðan eru auðvitað dreifing netmiðla "umtalsverð", svo ekki sé meira sagt, enda dreifing miðla, utan prentmiðla auðvitað að færast yfir á netið.

G. Tómas Gunnarsson, 14.1.2021 kl. 20:14

15 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já líklega er Stöð 2 með svipaða dreifingu og Rúv, en heldurðu að þetta dreifikerfi væri til ef ekki hefði verið vegna Rúv? Hefði Stöð 2 ein og sér eða með samvinnu við aðra "frjálsa" miðla lagt út í að byggja þetta upp?

Mér er það til efs.

Varðandi grafið um magn frétta þá er þetta mjög óljóst - sömu fréttir birtast oft bæði í prentMogga og mbl., en óútskýrt er hvort þær eru taldar sama fréttin. Svipað gildir með Rúv, er frétt í sjónvarpi sama frétt og útvarpsfrétt ef textinn er sá sami en engin mynd? Hvað er bara er texti á vef?

Þú veist hvernig þetta er með statistík og lygar.

Allt um það, mín upplifun sem fréttaneytanda á Íslandi (ofneytanda) er sú, að fréttir Rúv séu ítarlegri, betur skrifaðar og einhvernveginn áreiðanlegri. Reyndar er það eins og svart og hvítt hvað fréttavefur Rúv er miklu betur skrifaður en aðrir vefir. Meir að segja íþróttafréttirnar á Rúv eru á hreinu gullaldarmáli miðað við hroðann annarstaðar. Nú veit ég ekki hvað þú lest mikið erlenda fjölmiðla, en er það bara mín upplifun að það þekkist næstum ekki í erlendum miðlum lélegt málfar eins og Íslenskir fjölmiðlar (fyrir utan Rúv.) séu oft á tíðum fullir af? Jafnvel svokölluð "sorablöð" eins og Daily Mail eru held ég alltaf vel skrifaðir, án klaufalegra málvillna og stafsetningarvillna.

(Veit ekki hvað stór hluti af "fréttum" mbl er núna í "Smartlandi" og um mat eða dulbúnar bílaauglýsingar - það sem í gamla daga hét "þjónustufréttir" og getur varla talist eiginlegar fréttir. En þetta eru auðvitað túlkunar- og matsatriði).

Ég held að það sé rétt að Rúv framleiðir lítið af íslensku efni, en kaupir þeim mun meira af því. Læðist líka að mér sá grunur að framleiðendur þessa efnis hafi fyrst og fremst áhuga á að fá það sýnt á Rúv, fyrir utan að koma því á erlenda miðla og jafnvel Netflix. Stundum er það forsenda framleiðslunnar að Rúv muni kaupa efnið. Sýnir Stöð 2 mikið af efni framleiddu á Íslandi - fyrir utan íþróttir?

Kristján G. Arngrímsson, 14.1.2021 kl. 21:19

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég þekki ekki nógu vel til á Íslandi til að segja til um hvað stór hluti dreifikerfis sjónvarps er kominn á netið, en líklega er það stór hluti.

Þannig er það nær alls staðar. Ég man ekki eftir að hafa haft "loftnet" síðan á síðustu öld.

En ég er reyndar ótrúlega lítill sjónvarpsneytandi. En það sem ég horfi á sjónvarp er allt í gegnum netið, og svo gott sem aldrei í "línulegri" dagskrá.

Það er heldur ekki tilviljun að Stöð2 og Sjónvarp Símans eru í raun aðeins angi af "Samskiptafyrirtækjum", eða hvað við kjósum að nefna þau. Þess vegna er mjög líklegt að dreifikerfið væri svipað hvort sem RUV væri til eður ei. Svarið hefði verið öðruvísi þegar dæmið snerist um "sjónvarpssenda".

Ég er líklega ekki "týpískur" fjölmiðlaneytandi á Íslandi, enda bý ég ekki þar.

Ég fer daglega inn á mbl.is, besti vefmiðilinn að mínu mati.  Vísir er sömuleiðis oftast á "rúntinum", enda eru þar að mínu mati besta útvarpið ef ég er í skapi eða aðstöðu til að hlusta á slíkt.

Ég fer mjög oft inn á ruv.is, sömuleiðis. Vegna frétta, en ekki síður vegna "lífstíls" frétta, ef svo má nefna, en þar eru oft mjög góðar "fréttir" af tónlíst, ekki síst Íslenskri, sem er ennþá meðal áhugamála minna.

Síðan eru nokkrir tugir erlendra miðla sem finna má á "fréttarúnti" mínum, en vega misþungt.

Þar á meðal má finna, nationalpost.com, globeandmail.com, bbc.co.uk, err.ee, yle.fi, spectator.co.uk, guardian.co.uk, zerohedge.com, telegraph.co.uk, politico.eu/com, france24.com,  dw.com, epochtimes.com., svona til að nefna nokkra.

En auðvitað má deila um hvað er markmiðið með rekstri fjölmiðla.

Er markmið þeirra að "þjóna" notendum eða "upplýsa" þa´, eða beina skoðunum þeim í "ákveðna" átt?

Á ekki RUV fyrst og frems að þjóna þeim sem greiða "útvarpsgjaldið"?

Ef þeir vilja lesa um "kardashiana", eða annað slíkt á ekki RUV að þjóna þeim?

Væri ekki rétt að spyrja t.d. formann Samfylkingarinnar, hvort að annað væri ekki "Svívirða við greiðendur afnotagjalda"? 

https://www.discogs.com/Skri%C3%B0j%C3%B6klar-%C3%9Eetta-Er-Sv%C3%ADvir%C3%B0a-Vi%C3%B0-Grei%C3%B0endur-Afnotagjalda/release/5005450

En ég held að RUV sé ef til vill sjónarmun betra í Íslensku en aðrir miðlar, enda líklegt að þeir sem hafa meira fé á milli handanna, geti að öllu jöfnu ráðið starfsfolk af hærra "kalíberi".  Ég heyri oft starfsfólk annara miðla kvarta undan því að RUV ráði til sín efnilegt starfsfólk.

Þannig virkar það líklega þegar einn miðill hefur mikið meira fjármagn en aðrir.

Er meginhlutverk RUV að þjóna "vinstrisinnuðu "menningarfólki" sem vill heyra góða Íslensku talaða?

Reyndar hef ég oftar en einu sinni hlustað á viðtöl við einstaklinga á RUV, þar sem enginn myndi halda þræði án þess að hafa grundvallarskilning á Ensku, vegna þess að "sletturnar" eru það margar. 

Og það er ekkert gert í því.

G. Tómas Gunnarsson, 15.1.2021 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband