Le Pen, Macron eða Fillon sem forseti? En hver sigrar í þingkosningunum?

Það er ekki langt síðan að talað var um frönsku forsetakosningarnar líkt og úrslitin væru þegar ákveðin.

Reiknað var með að Lýðveldisflokkurinn (Les Républicains) bæri sigur úr býtum og eftir forkosningar hans leit út fyrir að Francois Fillon væri með pálmann í höndunum.

En gæfan er fallvölt í pólítík eins og víða annars staðar.

Ásakanir dynja nú á Fillon.  Svokallað "Penelopegate" hefur valdið honum sívaxandi vandræðum og fylgi hans í skoðanakönnunum hefur hrunið.  Nú er hann í þriðja sæti á eftir Le Pen og Macron.

En Fillon er sakaður um að hafa greitt konu sinni og börnum fast að einni milljón euroa, úr ríkissjóði, fyrir að aðstoða hann sem þingmann.  Störf sem aldrei voru unnin, eða svo segja ásakanirnar.

Það kann að koma einhverjum á óvart, að það er ekki ólöglegt fyrir þingmenn í Frakklandi að ráða eiginkonur og börn sem starfsmenn, en að sjálfsögðu er ætlast til að þau sinni starfinu ef þannig háttar.

Þetta mál hefur reynst Francois Fillon afar erfitt og jafnvel hafa heyrst raddir um að rétt væri að hann drægi sig í hlé.

Ef svo yrði, sem verður reyndar að teljast ólíklegt, en ekki ómögulegt, yrði það aðrar forsetakosningarnar í röð þar sem sá sem líklegastur þótti til að verða forseti hellist úr lestinni, þó með ólíkum hætti væri.

Dominique Strauss-Kahn, þótti líklegastur til að verða frambjóðandi Sósíalista fyrir síðustu kosningar, en heltist úr lestinni áður en svo varð, með eftirminnilegum hætti. Hollande varð því fyrir valinu sem frambjóðandi Sósíalistaflokksins og hefur setið í næstum 5 ár, með þeim afleiðingum að engin forseti hefur notið minna fylgis og Sósíalistaflokkurinn er ekki nema svipur hjá sjón.

Það er því varla hægt að segja að lognmolla ríki í frönskum stjórnmálum, þó að margir myndu sjálfsagt óska sér að ysinn og þysinn væri út af öðru en hneykslismálum.

En fall Fillon, hefur lyft Emmanuel Macron.

Velgengni Marcron nú á sér fáar ef nokkra hliðstæðu í frönskum stjórnmálum. En það má eiginlega segja að flest "púsl" hafi fallið honum í hag á undanförnum vikum.

Ekki eingöngu vandræði Fillon, heldur einnig val Sósíalistaflokkins á frambjóðanda sínum. Þar varð fyrir valinu Benoît Hamon, róttækur frambjóðandi langt til vinstri.

Allt þetta styrkir Macron, sem þykir miðjusækinn og reyndar finnst mörgum sósíalistanum hann alltof hægri sinnaður.

En til þess að komast í aðra umferð forsetakosninganna þarf Macron á stuðningi kjósenda Sósíalistaflokksins að halda, jafnframt því sem hann getur gert sér vonir um stuðning einhverra stuðningsmanna Lýðveldisflokksins og þeirra sem ekki fylgja neinum ákveðnum flokki.

En hann þarf að skilja á milli sín og Hollande, sem er fádæma óvinsæll, en það voru ekki síst aðgerðir Macron, á meðan hann sat í ríkisstjórn sem ollu óvinsældum á vinstri vængnum.

Allt þetta og fleira skiptir á meira máli nú þegar hin raunverulega kosningabarátta er að hefjast.

Það velta líka margir fyrir sér hverjir standi að baki Macron.  Hreyfing hans, eða nýr stjórnmálaflokkur "En Marche" (sem er erfitt að þýða, en "Af stað" eða "Hefjumst handa", gæti legið nokkuð nærri).

En Macron nam við "hinn hefðbundna" skóla franskra stjórnmálamann ENA og fullyrt er að helstu bakhjarlar hans séu núverandi og fyrrverandi háttsettir opinberir starfsmenn. Sagt er að hann sé meðlimur eða njóti stuðnings "Les Gracques" , en það er hópur sem kom fram 2007 og stofnaði fljótlega hugveitu.

En það getur óneitanlega háð Macron, að keppinautar hans hafa báðir mun þjálli "flokksmaskínu" að baki sér.  Ekki síst ef litið er til þeirrar staðreyndar að hann hefur notið umtalsverðs fylgis á meðal ungra kjósenda sem oft skila sér verr á kjörstað.

En nú þegar Macron gengur vel í skoðanakönnunum má búast við því að athyglin beinist að honum og ferli hans í vaxandi mæli og jafnfram árásir keppinauta hans, bæði frá vinstri og hægri.

Það er sömuleiðis allt of snemmt að afskrifa Fillon, hann er líklega með bestu "maskínuna" að baki sér og jafnframt með öruggustu fjármögnunina.

Talið er að Lýðveldisflokkurinn hafi hagnast í það minnsta um 9 milljónir euroa á forkosningunum og leggi af því í það minnsta 6 milljónir til baráttu Fillon.

Þjóðfylking Le Pen hefur hins verið í stöðugum fjárhagsvandræðum og átt erfitt með að tryggja sér lánsfé (sló eins og þekkt er lán hjá rússnesk ættuðum banka, en hefur átt erfitt með lánsfé fyrir komandi kosningar). Þjóðfylkingin hefur hins vegar að margra mati bestu internetbaráttuna, sem vissulega er mikils virði í nútímanum.

En hvergi hef ég rekist nokkuð á hvernig Macron hefur eða hyggst fjármagna sína baráttu.  Hann hefur haldið kvöldverðarboð þar sem sætið hefur verið selt á 7500 euro, en það er einmitt sú hámarksupphæð sem einstaklingur má styrkja frambjóðanda eða flokk á ári.  Ef ég man rétt er síðan hámarksupphæð sem forsetaframbjóðandi má eyða 16 milljónir euroa.

En kosningabarátta er eins og flestir gera sér gein fyrir dýr og talað er um að t.d. hafi útifundur Macron á Porte de Versailles, kostað í kringum 500.000 euro.

En ég held að útlit sé fyrir að frönsku forsetakosningarnar verði mun meira spennandi en reiknað var með - þ.e.a.s. fyrri umferðin. Ég er enn nokkuð viss um að Le Pen á enga raunhæfa möguleika í þeirri seinni, en hún gæti hæglega unnið þá fyrri.

En það eru aðrar kosningar í Frakklandi, örlítið á eftir forsetakosningunum sem ekki skipta minna máli, en það eru þingkosningar.

Þó að franski forsetinn sé býsna valdamikill þá verður hann að skipa forsætisráðherra sem nýtur stuðnings þingsins.

Fari svo að Macron eða ef svo ólíklega vildi til að Le Pen sigraði, er mjög líklegt að þau myndu þurfa að skipa forsætisráðherra úr röðum Lýðveldisflokksins eða Sósíalista. Flest þykir benda til sigurs Lýðveldisflokksins í þingkosningunum sem fram fara 11. og 18. júní. Næst stærsti flokkurinn yrði Sósíalistar.

Hvort að fylgismönnum Macron tækist að ná einhverjum þingmönnum er alls óljóst, en líklegt þykir að Þjóðfylkingin fjölgi sínum all nokkuð, en hún hefur aðeins 2. nú. Einmenningskjördæmi þar sem umferðirnar eru 2., gera smærri framboðum verulega erfitt fyrir.

Það er ekki óþekkt að forsætisráðherra og forseti komi frá sitthvorum flokknum (forseti frá hægri og forsætisráðherra frá vinstri og öfugt) en slíkt "sambýli" þykir þó yfirleitt ekki hafa gefið góða raun.

Það er því allt eins líklegt að framundan séu erfiðir pólítískir tímar í Frakklandi, nema helst ef Fillon nær að snúa taflinu við og verða forseti.

 

 

 


mbl.is Fillon biðst afsökunar á að ráða eiginkonuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband