Múrar og bönn

Ólíkindatólið DJ Trump hefur svo sannarlega náð athygli heimsbyggðarinnar eftir að hann tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Vissulega var hún töluverð fyrir þau tímamót en enn hefur verulega bætt í.

Það eru ekki síst tvær ákvarðanir hans sem hafa vakið athygli og ofsareiði á meðal margra.

Það eru uppfylling á þeim kosningaloforðum að byggja múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og svo að banna ríkisborgurum 7 landa að koma til Bandaríkjanna.

Byrjum fyrst á múrnum.

Ég get tekið undir með þeim sem segja að þetta sé ekki góð ákvörðun sem ekki komi til með að skila miklum árangri.

En á hvers rétt gengur bygging slíks múrs?

Að mínu mati nákvæmlega engra.  Fyrst ber að geta þess að múr hefur nú þegar verið byggður á stórum hluta landamæranna.

Það á enginn rétt á því að fara ólöglega yfir landamærin, í hvora áttina sem er. Íbúar Mexíkó, sem annara ríkja eiga engan rétt á því að fara yfir landamærin óáreittir. Smyglarar sem hafa lífsviðurværi sitt af því að lóðsa fólk yfir, eða flytja eiturlyf eiga heldur engan lögvarðan rétt til slíks athæfis.

Stjórnmálamenn, sem og aðrir, ættu að gera skýran greinarmun á því hvort að múr er byggður til að halda þegnum ríkis inni, eða því að halda þegnum annars ríkis úti.

Við reisum ekki girðingar til að loka nágranna okkar inni, heldur til að tryggja garðinn okkar fyrir óþarfa ágangi.

Múrinn veldur engum þeim sem hyggst koma löglega til Bandaríkjanna hinum minnstu óþægindum.

Hitt er svo að eins og ég sagði áður er framkvæmdin ef til vill ekki sérlega gáfuleg, og áætlanir um að greiða hana með tollum á mexíkanskar vörur, mun bitna á bandarískum borgurum, ekki síður en mexíkönskum.

En í raun er engin rökrétt ástæða til þess að æsa sig yfir þessum áformum, enda múrar og girðingar á landamærum víða um heim og hefur m.a. farið fjölgandi t.d. í Evrópu.

Persónulega get ég því ekki séð ríkar ástæður fyrir því að bregðast harkalega við þessum áformum, allra síst fyrir leiðtoga eða þegna annara ríkja.

Síðan er það ákvörðunin um að banna ríkisborgurum 7 ríkja, sem öll geta talist "múslimaríki" að koma til Bandaríkjanna.

Það er eðlilegt að sú ákvörðun sé umdeild.

Sérstaklega vegna þess að ákvörðunartakan og framkvæmd hennar var vægast sagt illa undirbúin og kauðalega að henni staðið.

Þannig var í upphafi ekki ljóst hvernig skyldi staðið að framkvæmdinni og t.d. hvort að tilskipunin gilti um þá sem hefðu tvöfaldan ríkisborgarétt.

En bönn og takmarkanir á komu fólks til ákveðinna landa er ekkert nýnæmi, mýmörg önnur dæmi eru um slíkt.

Það er velþekkt að íbúum ýmissa landa hefur kerfisbundið verið neitað um áritanir til ákveðinna landa.

Íbúar margra landa A-Evrópu þurftu t.d. að fá "heimboð" til að geta átt raunhæfar vonir á því að koma sem ferðamenn til Kanada lengi vel.  Þeir sem boðið sendu þurftu jafnvel að taka ábyrgð á viðkomandi ferðalangi á meðan dvöl hans í Kanada stóð.

Sjálfur sat ég eitt sinn brúðkaups Kanadabúa af ukraínskum uppruna þar sem foreldrar brúðarinnar voru ekki viðstaddir, þar sem þeim hafði verið neitað um vegabréfsáritun til Kanada.

Þá rétt eins og nú var Frjálslyndi (Liberal) flokkurinn við völd í Kanada.

Þetta var ekki gert af neinni sérstakri illgirni, heldur var álitið að einstaklingar frá þessum löndum væru líklegri en margir aðrir til að dvelja áfram í landinu.

Eins og fram kom við undirritun fríverslunarsamnings á milli Evrópusambandsins og Kanada, seint á síðasta ári,, höfðu rúmenskir og búlgarskir þegnar ekki rétt til að koma til Kanada án áritunar. (Ég þori ekki að fullyrða um hvort það hafi breyst).

Ríki hafa fullan rétt til að grípa til ráðstafana til að verja landamæri sín og stjórna flæði einstaklinga yfir þau.  Slíkt hefur færst mjög í vöxt undanfarin misseri.

Slíkt kann að vera mis skynsamlegt og mis árangursríkt.

Það er sjálfsagt og af hinu góða að mótmæla slíku og berjast fyrir auknu frjálsræði sem víðast.

En ég held að allir ættu að temja sér að gera slíkt með kurteisi og ákveðinni hófsemi.

Ofsi, dónaskapur og stóryrði leiða sjaldnast til sigurs.

Svo gott sem eina undantekningin sem ég man í fljótu bragði eftir, hvað það varðar, er sigur DJ Trump.

En ég held að það sé órökrétt að hafa það að leiðarljósi.

 


mbl.is Heimskulegur samningur segir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband