Svikararnir og hin "óspjölluðu".

Það hefur alltaf verið athyglisvert að fylgjast með umræðum á "vinstri vængnum" þegar kemur að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Þar snýst umræðan fyrst og fremst um "svikarana".

Þannig hefur það alltaf verið.

Alþýðuflokkurinn hefur oft þurft að bera þennan stimpil, Framsókn ekki síður, þó að hann hafi reyndar skilgreint sig sem miðjuflokk, þá hefur hann í gegnum tíðina verið frekar vinstrisækinn.

Og svikari, sem hefur ekki skirrst við að snúa baki við "sögulegum tækifærum".

Og svo sveik Samfylkingin, og þaðan má rekja allar hennar raunir, eða svo má skilja á mörgum af hennar trúu félögum.

Það eru bara Alþýðubandalagið/Vinstri græn sem hafa aldrei svikið (nema ef við kjósum að taka ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen með (en það er í sjálfu sér fyrirgefanlegt, enda Thoroddsen ættin eins og rauður þráður í gegnum hreyfingu íslenskra sósíalista og svo klauf þessi ríkisstjórnarmyndun Sjálfstæðisflokkinn), að öðru leyti hefur getur "villta vinstrið" talist "óspjallað" hvað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn varðar.

En vissulega er stjórnmálastarf þess eðlis að stundum þarf að gefa eftir, og þvi hafa Vinstri græn vissulega kynnst.

Þannig hafa þau þurft að sætta sig við ýmsar málamiðlanir, þó þau hafi vissulega aldrei kvikað frá grunngildunum.

Þannig var það ekki svo erfitt að sætta sig við að skuldir einkafyrirtækja væru flutt yfir á almenning með samningum við Breta og Hollendinga.

Það flaut enda með því að Vinstri græn féllust á það að Ísland yrði aðlagað að Evrópusambandinu, þótt að þau væru vissulega algerlega andsnúin aðild að því sama bandalagi.

Og samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn er eitthvað sem Vinstri græn voru vissulega á móti (svona í stjórnarandstöðu) en "kapítitalistarnir" þar eru nú ekki svo slæmir, og þegar þeir klappa manni á bakið og segja að þeir myndu óska þess að hafa svona góða drengi að störfum í Grikklandi, þá er ekki eins og að hægt sé að segja nei við alþjóðlegu lofi.

Og þó að Vinstri græn hafi alltaf verið andsnúin aðild Íslands að NATO, er ekki eins og það eitt sé rík ástæða til þess að setja einhverjar hindranir í vegi bandalagsins í því að varpa sprengjum á Lýbíu.  Vissulega þarf alltaf að gefa eitthvað eftir fyrir pólítískt samstarf, en það eru vissulega málefnin sem gilda.

Bæði félagsmenn og kjósendur Vinstri grænna geta altént alltaf leitað huggunar í því að það er ekki eins og að flokkurinn sé reiðubúinn að ræða neitt við Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki frekar en hann var reiðubúinn til þess að veita olíuleitarleyfi á "Drekasvæðinu".

Því pólítík snýst um málefni og "prinsipp".

Og hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn eru Vinstri græn algerlega "óspjölluð". 


mbl.is Furðar sig á Bjartri framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband