Íslendingar kæra sig ekki um "Sambandið"

Í 7 ár eða svo hafa allar skoðanakannanir sýnt að meirihluti Íslendinga vill ekki ganga í Evrópusambandið.

Það er vel.

Enn er þó hluti þjóðarinnar sem á sér enga ósk heitari en að leiða Íslendinga "inn í brennandi hús", svo notað sé líkingamál eins þeirra einstaklinga sem hvað ákafast hvatti til aðildar, en hefur nú skipt um skoðun, alla vegna tímabundið.

Ekki fyrir all löngu var jafnvel stofnaður nýr stjórnmálaflokkur sem hefur þetta á meðal sinna helstu stefnumála, þó að forsvarsmenn hans tali gjarna undir rós um "alþjóðlega eða vestræna samvinnu".

Enn aðrir vilja ekki að Ísland gangi í "Sambandið" en vilja endilega standa í viðræðum um aðild við það. Þekktastir þeirra eru líklega þingmenn Vinstri grænna sem stóðu í ræðustól Alþingis og lýstu yfir andstöðu sinni við aðild, og stórkostlegum göllum "Sambandsins" en enduðu ræður sínar á því að segja já við að sækja um aðild að sama "Sambandi".

Slíkum "köttum" er ekki erfitt að smala, ef "rjómaskálin" er innan seilingar.

Staðreyndin er sú að "Sambandið" er æ minna aðlaðandi kostur fyrir Íslendinga.

Þeir eru líklega fáir sem vilja afhenda stjórn fiskveiðiauðlindarinnar til Brussel og vandræði "Sambandsins" blasa við öllum, rétt eins og þau hafa gert undanfarin 8 ár eða svo.

Euroið er eins og fleygur á milli aðildarríkjanna, og bankakerfið er að verða ein taugahrúga eftir 8 ár á brúninni. Seðlabankinn heldur þó batteríinu gangandi með því að prenta sífellt meira af peningum, kaupa æ fleiri skuldabréf, bæði af ríkisstjórnum og fyrirtækjum. Bankastjóri Credit Suisse lét hafa eftir sér nýlega að evrópska bankakerfið (sem heild) væri ekki vænlegur fjárfestingarkostur.

Og "Sambandið" á milli ríkja.

Ítalía hreytir ónotum í Þýskaland, Austurríki hreytir ónotum í Ungverjaland, Írland er skotspónn vegna skattasamninga og vill ekki taka við öllum þeim sköttum sem "Sambandið" telur að það eigi að innheimta, Póllandi er hótað rannsókn á "vegferð" sinni, og Grikkland er að þrotum komið eftir samfellda 6 ára aðstoð "Sambandsins". Bara svo nokkur dæmi séu nefnd.

Stöðugur straumur flóttamanna og sú staðreynd að "Sambandið" hefur á tíðum misst stjórn á ytri landamærum sínum, hefur orðið til þess að ríki ýmist byggja æ voldugri múra eða galopna landamæri sín á köflum.

Engin virðist vita til hvaða bragðs skuli taka og hver höndin (eða landið) á móti annari, ef til vill ekki að undra, því kringumstæður að sjálfsögðu afar mismunandi.

Mismunandi "hagsmunahópar" innan "Sambandsins" eru orðnir það margir að erfitt er að halda tölu á.

State of the union junckerTil að kóróna þetta allt saman er svo einstaklingurinn sem byggði Luxembourg upp sem "lágskattaparadís", ef ekki skattaskjól, forseti Fram- kvæmdastjórnar Evrópusam- bandsins og lítur á sig sem óopinberan forseta þess og leiðtoga.

Til þess að þjappa sér betur saman er helsta lausnin nú, að þurfi að koma á laggirnar sameiginlegum her. Ef til vill er skýringin á því sú, að það er nokkurn veginn eini vettvangurinn sem getur fengið Frakka til þess að líta vel út, því þegar Bretar munu yfirgefa "Sambandið" er Frakkland eina herveldið sem eitthvað kveður að innan þess. 

Þar geta Frakkar sannarlega kennt Þjóðverjum lexíu, og ef til vill lánað þeim nokkra "famas" í stað kústskaftanna sem hluti Þýska hersins hefur þurft að æfa sig með undanfarin ár.

Þegar spurt er hvers vegna Ísland ætti að ganga í "Sambandið" eru svörin yfirleitt frekar fátækleg. Mest er talað um að nauðsyn sé á því að fá "sæti við borðið".

Margir tala einnig um lækkun vöruverðs (vegna niðurfellingar tolla) þá sérstaklega matvælaverðs. Það er þó merkilegt að "vörukörfur" sem Hagstofa "Sambandsins" mælir, hafa verið ódýrari á Íslandi en í nágrannalöndunum, þó að ef til vill muni það breytast nú þegar íslenska krónan er að styrkjast, en flestar myntir innan "Sambandsins" að veikjast. Hitt er svo að að sjálfsögðu geta Íslendingar ákveðið að lækka tolla án þess að ganga í Evrópusambandið, rétt eins og núverandi ríkisstjórn gerði með tolla á fatnað, sem mun skila sér í mun betri íslenskri verslun.

Einnig er talað um á stundum hvað mikið væntalegir íslenskir styrkþegar, s.s. bændur, vísindamenn, og fleiri muni bera úr býtum.

Flestum er þó ljóst hve mikil firra það er, því allir útreikningar segja að framlag Íslands yrði hærra en það sem til Íslands bærist, þannig að næstum öllum er ljóst hvaðan þeir peningar kæmu: Frá íslenskum skattgreiðendum, með millilendingu í Brussel þar sem klipið yrði af þeim.

Því miður er ekkert sem bendir til annars en að "Sambandsaðild" verði nokkuð fyrirferðarmikil í íslenskri umræðu, nú sem fyrr.

Enn eru þeir ótrúlega margir sem spyrja: Evrópusambands Ísland, hvenær kemur þú?

 


mbl.is Meirihlutinn vill sem fyrr ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að ein af aðalástæðum fyrir hugmyndum að "sameiginlegum" her, sé að geta notað þennan her til að framfylgja bandarískum hugsunum um "New World Order". Fólk í Evrópu er blekkt, með að láta líta svo út fyrir að herinn sé "trygging að sjálfstæði" Evrópu, á sama tíma og Evrópu gerist meir og meir "Fylgihnöttur" NATO.

"Frjálsar" hugsanir frakka, sem var drif sambandsins, ásamt er liðið undir lok ... og því stafar bara hætta af sambandinu ... eins og er.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 1.10.2016 kl. 00:12

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Við fengum þó að kynnast stjórnmálamönnum sem vildu allt til vinna að komast þangað inn.  Gott mál ef það væri bara um persónu þeirra að ræða,nei þeir ætluðu að læðupokast með landið og miðin sem "heimanmund" nokkuð sem við komum í veg fyrir. Við vorum samstillt þá og ættum að vera það líka gagnvart yfirmáta óvandaðri reglugerð um hælisleitendur. 

Helga Kristjánsdóttir, 1.10.2016 kl. 01:34

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarne Þakka þér fyrir þetta.  Það sem við köllum gjarn V-Evrópu á NATO allt að þakka. Mörg lönd í A-Evrópu einnig.

En þau hafa því miður vanist á það að líta á varnir sem þau þurfi ekki að hugsa svo mikið um sjálf. 

Það eru mistök.

Sameiginlegur her "Sambandsríkja", þarf ekki að vera svo slæm hugmynd, ef hún er útfærð rétt.  En fyrst og fremst þyrfti auðvitað að að samræma heri ríkjanna, það er mun mikilvægara. Þannig að þeir gætu "fúnkerað" sameiginlega, ekki þyrfti mörg mismunandi skotfæri, varahluti o.s.frv. En því miður virðis sem svo að jafnvel það sé og mikið til að þau geti sammælst.

Þau þurfa einnig að gera sér grein fyrir því að varnir þeirra kosta fé. Ef ég man rétt eru aðeins 3. af þeim ríkjum sem eru bæði í NATO og "Sambandinu" sem virða lágmark NATO um 2% af GDP eigi að renna til hersins.  Það eru Bretland, Grikkland og Eistland. 

En ríki eins og t.d. Svíþjóð eru að vakna upp við vondan draum og stórauka hernaðarútgjöld sín. Það er ekki nóg að vera "liberal" til að tryggja öryggi þjóðarinnar.

@Helga. Þakka þér fyrir þetta. Þeir stjórnmálamenn sem vilja "allt til þess vinna að komast þangað inn", hafa líklega aldrei verið fleiri á Íslandi, enda heill nýstofnaður flokkur sem berst fyrir því. Því miður eru ekki margir á meðal Samfylkingarfólks jafn skynsamir og Jón Baldvin, sem vill ekki inn í brennandi hús.

Flest Samfylkingarfólk er reiðubúið að marsera inn í brennandi húsið og loka á eftir sér hurðinni, á meðan það syngur Internationalinn.

En sem betur fer hefur stuðningsfólki þessara flokka ekki fjölgað, eins og sést best á hraksmánarlegu fylgi Samfylkingarinnar.

Hún enda orðið svo ónýtt "vörumerki", að flestir leita annað.

G. Tómas Gunnarsson, 1.10.2016 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband