Ófullnægjandi frétt, ef ekki röng

Að mörgu leyti má segja að forsetakosningar í Eistlandi séu nokkuð flókið fyrirbrigði, og því ef til vill ekki skrýtið að ekki takist að segja frá þeim með réttum hætti.

En það er þó áríðandi, að fréttaskrifarar (og þýðendur) vandi sig eftir fremsta megni og komi hlutunum rétt til skila.

Eistneski forsetiUpp á það vantar nokkuð í þessu tilfelli.

Forsetakosningar í Eistlandi hefjast í þinginu, þar sem sitja 101 þingmaður.

Frambjóðendur verða að fá meðmælendur úr hópi þingmanna, þannig að segja má að stjórnmálaflokkar á þingi hafi það nokkuð í hendi sér hverjir geta boðið sig fram.

Í þinginu þurfa frambjóðendur að fá aukinn meirihluta, 2/3 atkvæða.

Nái enginn frambjóðandi því færist valið í frá þinginu til þess sem nefna mætti "Kjörmannaráð" en þar eiga sæti þingmenn og sveitarstjórnarmenn.

Ekki er þar með sagt að allir þeir frambjóðendur sem voru í kjöri áður, verði það áfram og sömuleiðis geta bæst við nýjir frambjóðendur, en þeir þurfa eftir sem áður að leggja fram stuðning ákveðins fjölda úr "Kjörmannaráðinu" (í báðum tilfellum þarf stuðning frá 21. af þeim sem hafa atkvæðisrétt).

Þannig voru fjórir frambjóðendur í þinginu, Siim Kallas, Mailis Reps, Allar Jõks og Eiki Nestor.  Enginn frambjóðandi hlaut meiri stuðning en 44.5%, sem Kallas hlaut í annari umferð, þannig að eftir þrjár umferðir fluttist valið til "Kjörmannaráðsins".

Þar voru í framboði eins og áður, Siim Kallas, Mailis Reps og Allar Jõks, en Eiki Nestor heltist úr lestinni og viðbættust Marina Kaljurand og Mart Helme.

Það voru því ekki tveir frambjóðendur í forsetakosningum, heldur 5 og í raun í heild sinni 6.

En þeir tveir sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferð hjá "Kjósendaráðinu", Siim Kallas og Allar Jõks voru einir í framboði í seinni umferð ("Kjörmannaráðið" fær eingöngu 2. umferðir).

Í "Kjörmannaráðinu" nægir einfaldur meirihluti, en þó er það skýrt að sá meirihluti verður að vera af öllum atkvæðum, en ekki eingöngu þeim sem kjósa ákveðinn einstakling, auð atkvæði og ógild eru því inn í þeirri tölu.

Því fór svo að hvorugur frambjóðendanna sem náði í síðari umferðina, hlaut tilskilinn fjölda atkvæða (168), en Siim Kallas hlaut 138 og Allar Jõks 134, 60 atkvæði voru auð og fjarverandi voru 3.

Því flyst kosningin aftur til þingsins, og verður kosið þann 3. október. Eftir því sem ég hef komist næst, þá hefst sama ferlið upp á nýtt.

Reyndar hafa bæði Allar Jõks og Mart Helme lýst því yfir að þeir verði ekki í framboði og þörf sé á nýjum frambjóðendum. Ég þori ekki að fullyrða um aðra frambjóðendur.

Nú hefur "öldungaráð" eistneska þingsins (skipa forseta, 2. varaforsetum og þingflokksformönnum þeirra 6 flokka sem eiga sæti á þingi) tekið að sér það verkefni að reyna að finna forsetaefni sem sátt gæti verið um.

Þó of snemmt sé að fullyrða nokkuð, þykir líklegt að enginn af fyrrum frambjóðendum verði áfram í kjöri.

All mikið er rætt um að fyrirkomulagið sé ekki nógu gott og sumir tala jafnvel um stjórnarkrárkrísu. En það eru skiptar skoðanir um hvert ætti að stefna. Margir vilja að almenningi verði falið að velja forseta en aðrir einfaldlega breyta því svo að auð atkævði verði ekki talin með hjá "Kjörmannaráðinu".

Það er jafnframt þess virði að geta þess að í skoðanakönnunum á meðal almennings var Marina Kaljurand með lang mest fylgi af frambjóðendunum 5, sem "Kjörmannaráðið" kaus á milli (í fyrri umferð). Hún hafði um og yfir 40% fylgi.

P.S. Ég geri mér grein fyrir því að líklega er áhugi á stjórnmálum og forsetakosningum í Eistlandi ekki útbreiddur á Íslandi, en tel samt þess virði að vekja athygli á því hve fréttaflutningur getur verið takmarkaður, lítt upplýsandi og beinlínis rangur.

Ekki það að þessi stutti pistill sé fullnægjandi eða djúpur, en betra er þó að hafa það sem sannara reynist.

 

 

 


mbl.is Eistar bíða enn nýs forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband