"Sambandshroki"

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum margra ráða- og stjórnmálamanna í kjölfar "Brexit".

Það sem ef til vill stendur upp úr er hroki margra "Sambandssinna" og svo hve mikil óvissa ríkir um hvernig skuli staðið að málum.  Enn einu sinni kemur í ljós að lagaumgjörð "Sambandsins" er í raun hraksmíð og veldur deilum.

Ekki er ljóst hvaða stofnun "Sambandsins" fer með umboð þess í komandi viðræðum við breta og hafin er valdabarátta innan þess um hver stjórni.

Þar fara fremstir í flokki "Sambandsríkissinnar", sem eru sterkir innan framkvæmdastjórnarinnar og svo þeir sem vilja staldra við, eða jafnvel færa völd aftur til þjóðríkjanna, sem eiga sér hauka í horni í ráherraráðinu.

Svo hörð er þessi barátta að fullyrt er að Angela Merkel vilji Jean Claude Juncker úr embætti fyrr en síðar.

En hroki margra embættis og frammámanna "Sambandsins" í garð breta hefur einnig verið eftirtektarverður.

Svo langt hefur hroki "Sambandsmanna" gengið að sumir af þingmönnum Bretlands á Evrópusambandsþinginu, hafa verið spurðir hví þeir sitji þar enn.

Aðrir tala á þann veg að nauðynlegt sé að koma hinu Sameinaða Breska Konungdæmi út úr "Sambandinu" og auðið er.

Rétt eins og þeir líti svo á að "Sambandið" sé að henda Bretlandi út, en ekki að Bretland sé að segja sig úr Evrópusambandinu.

Staðreyndin er sú að valdið og ákvörðunin hvílir eingöngu hjá bretum. Þeir geta ákveðið hvenær þeir ákveða að segja sig úr "Sambandinu" og það er nákvæmlega ekkert sem aðrar þjóðir þess hafa um það að segja.

Staðreyndin er sú að Bretland er fullgildur meðlimur "Sambandsins" þangað til "50. lagagreinin" er virkjuð, og í allt að tvö ár þar í frá, nema um annað semjist.

Þangað til hefur Bretland full réttindi og allar skyldur sem "Sambandsaðild" hefur í för með sér.

Enda hefur enginn af "Sambandsharðjöxlunum" spurt hvers vegna Bretland greiði enn í sameiginlega sjóði þess.

Í raun mætti líklega halda því fram að það sé ólöglegt að "Sambandsríkin" haldi fundi án Bretlands, svo lengi sem "Sambandið" ber af því kostnað.

Það er eðlilegt að Bretland vilji undirbúa sig vel, enda er vandaverk framundan. Það þarf að snúa til baka 43. ára aðild að "Sambandinu" og semja um næstum hvert skref.

Það sem kann ef til vill að gera verkið enn erfiðara en sýnist, er að bresk stjórnvöld hafa svo gott sem enga sínum snærum (launaskrá) sem eru vanir að höndla flóknar viðræður á borð við viðskipta- og fríverslunarsamninga, enda hefur landið ekki verið frjálst að gera slíka samninga í þau 43. ár sem "Sambandsaðild" þess hefur varað.

Það veit enginn nákvæmlega hvað gerist þegar Bretland mun segja sig úr Evrópusambandinu.  Það felur í sér mýmörg tækifæri, en jafnframt stórar hættur. Hvernig tekst til veltur ekki síst á því hvernig stjórnvöld í Bretlandi (og einnig Evrópusambandinu) munu takast á við verkefnið.

En það er ljóst að flas er ekki til fagnaðar, jafnt í þessu efni sem mörgum öðrum. Yfirvegun og skynsemi er það sem þarf til.

En rétt eins og oft áður virðast þau gæði vera af skornum skammti hjá frammámönnum Evrópusambandsins.

Meira framboð virðist af hroka.

 

 


mbl.is Vill Breta út sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband