Blakkur föstudagur

Það hefur víða mátt lesa um svartan föstudag, eða eins og algengara er að orða það "black Friday", á vefmiðlum undanfarna daga, bæði íslenskum og erlendum.

Ég veit ekki hversu góð tilboðin voru á Íslandi, en víða hefur mátt sjá hneykslun á orðnotkuninni og svo aftur á hinni "amerísku eftiröpun". 

Hneysklun á "eftiröpuninni" má reyndar sjá um flestar erlendar uppákomur sem stinga upp kollinum á Íslandi.

En þó að ég skilji vel að íslenskir kaupmenn vilji fjölga "kaup- og tyllidögum" þá er auðvitað æskilegt að eitthvert íslenskt heiti finnist yfir daginn.

Ég held að það færi vel á því að kalla hann Blakkan föstudag. Íslenskt orð, sem vísar til þess sem er farið að dekkjast, kallast á við enska orðið "black", og svo er blakkur auðvitað fínt nafn á hesti, sem sem aftur á sér samsvörun í þeim "hrossakaupum" sem boðið er upp á.  :-)

En það er enginn ástæða til þess að vera að æsa sig yfir því þó að alþjóðlegir dagar skjóti rótum á Íslandi. Það er einfaldlega hluti af hnattvæðingunni og "alheimsþorpinu".

Evrópskar hefðir eins og Valentínusardagur og Hrekkjavaka (sem er reyndar frekar slæm þýðing á Halloween), eiga allt eins heima á Íslandi og annarsstaðar. Hrekkjavaka myndi líklega flokkast sem "aðfangadagur Allra heilagra messu", en þegar dagurinn ber upp á föstudag eða laugardag, eins og var í ár, er þetta fyrst og fremst Halló-vín, enda ekki mjög margir nema skemmtirstaðirnir sem virkilega láta til sín taka. Ég hef alla vegna ekki heyrt um mörg íslensk börn sem fara í "grikk eða gott" leiðangur.

Og svona má lengi telja, vissulega eru bandarískar hefðir eins og "Þanksgiving" farnar að láta á sér kræla, en í raun er ekki frekar ástæða til þess að láta það fara í taugarnar á sér en að íslensk verkalýðshreyfing hafi ákveðið að taka upp Dag verkalýðsins, eftir "Öðru alþjóðasambandi kommúnista".

Eða hefur einhver heyrt um baráttuna fyrir al íslenskum degi verkalýðsins?

Al íslensku dagarnir eru Sumardagurinn fyrsti, fyrsti vetrardagur, Bónda- og Konudagur.

Hugsanlega einvherjir sem ég gleymi.

En það er engin ástæða til að láta "ammríska daga" fara meira í taugarnar á sér en daga eins og Bolludag eða Öskudag.

Meginreglan sem ber að hafa í heiðri, er að þeir taka þátt sem vilja.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband