Sigurvegarar og þeir sem töpuðu

Þegar kosningar eru afstaðnar upphefst gjarna umræðan um hverjir eru sigurvegarar og hverjir hafa tapað og sýnist gjarna sitt hverjum.

Hér á eftir fer mín eigin útgáfa á því hverjir eru í hvorum flokki.

Sigurvegarar:

Vinstri græn.  Það getur engin tekið frá þeim að þeir eru sigurvegarar.  Vissulega unnu þau ekki eins mikið á og skoðanakannanir gáfu til kynna nokkrum vikum fyrir kjördag, en ríflega 5% og 4 þingmenn er ekki eitthvað sem stjórnmálaflokkar grípa upp af götunni.

Hingað til má ef til vill þó segja að þau hafi tapað stjórnarmyndunarumræðunni, þeirra yfirlýsingar og ummæli hafa verið í skrýtnari kantinum og ekki til þess fallin að efla traust á flokknum eða afla honum fylgis.

Sjálfstæðisflokkurinn.  Tvimælalaust sigurvegari kosninganna.  Bæta við sig um 3% og 3 þingmönnum.  Vissulega minna en VG, og sömuleiðis rétt að þetta er ekki "sögulegur" sigur hjá Sjálfstæðisflokki, en ef 16 ára stjórnarsetu er bætt í jöfnuna, kemur út að þetta er feikilega góður árangur og góður persónulegur sigur fyrir Geir Haarde.  Þorgerður Katrín vinnur sömuleiðis gríðarlegan og mikilvægan sigur í sínu kjördæmi.  Flokkurinn náði sömuleiðis þeim áfanga að vera stærstur í öllum kjördæmum.

Þegar það bætist svo við að flokkurinn hefur stjórnað stjórnarmyndunarviðræðunum er sigur hans augljós.

Af öðrum sigurvegurum má nefna:

Valgerði Sverrisdóttur.  Eins og ljósgeisli í myrkrinu fyrir Framsóknarflokkinn.  NorðAustur skilar 3 þingmönnum, næstum helmingnum af þingflokki Framsóknar.  Eina kjördæmið þar sem Framsóknarflokkurinn er yfir 20%, eina kjördæmið þar sem Framsóknarflokkurinn nær því að vera annar stærsti flokkurinn.  Valgerður hlýtur að hafa gríðarlega sterka stöðu innan Framsóknarflokksins.

Ellert Schram.  Óvæntasti þingmaðurinn í þessum kosningum.  Skutlast inn á þing eftir langa fjarveru.  Hans sigur er þó algerlega á kostnað Marðar Árnasonar, Láru Stefánsdóttur og Róberts Marshall.

Kristinn H. Gunnarsson.  Kemur enn á óvart og kemur inn á þing fyrir þriðja stjórnmálaflokkinn.

Þeir sem halda í horfinu.

Frjálslyndi flokkurinn.  Hélt sjó, hélt þingmannafjölda, formaðurinn sterkur.

Siv Friðleifsdóttir.  Slapp inn á 11.  Hélt í horfinu, þó að hún sé verulega "löskuð", á sér þó von um "upprisu" og hefur "lifað af" marga andstæðinga sína.

Guðni Ágústsson.  Stendur nokkuð keikur, en styrkurinn er horfinn.  Líklega hans síðasta kjörtímabil.

Þeir sem töpuðu.

Framsóknarflokkurinn.  Það getur enginn á móti því mælt að Framsóknarflokkurinn fékk háðulega útreið í þessum kosningum.  Flokkur sem ekki fær þingmenn í öllum kjördæmum getur varla talist til "Fjórflokksins" og fasts pólitísks skipulags landsins.  Eins og hálftóm blaðra sem marrar í hnéhæð en er ekki sprungin enn.

Samfylkingin.  Það er engin leið að segja annað en að stjórnarandstöðuflokkur sem tapar ríflega 4% fylgi (eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu frá stofnun) hafi gert annað en að tapa.

Enn verra fyrir flokkinn er að tapið er hvað mest í þéttbýlinu þar sem því sem næst allir forystumenn flokksins voru í framboði, formaður, varaformaður og formaður þingflokksins.  Samfylkingin er ekki 30% flokkur og ef þetta er breiðfylking jafnaðarmanna sem á að vera burðaafl í Íslenskum stjórnmálum, þá er það ekki beysið.

Það er hálf grátbroslegt og stráir salti í sár Samfylkingarinnar, þegar maður sér forystumenn hennar vera að telja sér trú um að þetta sé frábær árangur og "næst besti árangur vinstri flokks", því það er eins og þeir gleymi því að Samfylkingin er samruni fjögurra flokka, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka.

Þegar menn tala um eins og það sé eðlilegt að VG sé arftaki Alþýðubandalagsins og fylgis þess, gera menn lítið úr fólki eins og Margréti Frímannsdóttur, Jóhanni Ársælssyni og fleirum sem komu langt í frá fylgislaus til liðs við Samfylkinguna.  Ennfremur má líklega minna á menn eins og Björgvin G. Sigurðsson, Róbert Marshall og Össur Skarphéðinsson sem eiga rætur í Alþýðubandalaginu og svo er líklega um marga fleiri.  Ekki er heldur ástæða til að gera lítið úr fylgi Kvennalista og Þjóðvaka.

Ef menn vilja telja sér trú um að Samfylkingin hafi "sigrað kosningabaráttuna" og skoðanakannanir, hlýtur það sama að gilda um Framsóknarflokkinn.  Hann var kominn niður í um 4% þegar verst lét, en endað í tæpum 12. 

En það sjá allir að það er fáranlegur málflutningur.

Íslandshreyfingin.  Lítill sem enginn árangur af framboðinu og þegar við bætist leiðinda væl eftir að úrslit voru ljós, er "lúserstimpillinn" ennþá meira áberandi.

Björn Bjarnason og Árni Johnsen.  Þegar um eða yfir 20% af kjósendum sjá ástæðu til að strika frambjóðenda út af kjörseðlinum, hafa menn beðið hnekki og ósigur.  Að mínu mati þarf ekki að rökstyðja það neitt frekar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband