Um höfundarrétt

All nokkuð hefur verið fjallað um höfundarétt og brot á honum upp á síðkastið og eins og í mörgum öðrum málum sýnist sitt hverjum.

Í grunninn hlýtur þó öllum að vera ljóst, hvort sem þeir eru "sjóræningjar" eður ei, að lög skulu gilda. Það er með þeim sem við byggjum landið.

Og það er auðvitað rugl að ekki borgi sig að stoppa þá sem brjóta lögin, vegna þess að líklega munu þá aðrir gera það.

Lögbrot er alltaf lögbrot.

Ef margir eru hins vegar þeirra skoðunar að lögin séu röng og ekki "barn síns tíma", ef svo má að orði komast, er sjálfsagt að berjast fyrir því að þeim sé breytt.

Engir eru í betri stöðu í slíkri baráttu, en þeir sem eiga sæti á Alþingi.

Það hlýtur því að klaga upp á þá að leggja fram lagabreytingar hvað varðar höfundarétt, ef þeir eru sannfærðir um að slík lög þjóni ekki nútímanum.

Og að mínu mati er sjálfsagt að ræða um höfundarétt og hvort hann sé og ítarlegur, eða lög hvað slík réttindi varðar þurfi endurskoðun.

Ekki síst er t.d. eðlilegt að ræða hvers vegna höfundaréttur er jafn misjafn og raun ber vitni.

Út af hverju er t.d. höfundaréttur á tónverki varin þangað til 70 árum eftir andlát höfundar (ef ég man rétt), en allir mega kópera lyf 20 árum eftir að sótt er um einkaleyfi fyrir því?

Er það af því að tónlistarmenn eru gjarna "poppstjörnur", en vísindamenn eru "nördar", eða er eitthvað annað sem spilar þar inn í?

Er meiri ástæða til að höfundarvernda lög á geisladiski, en þá uppfinningu sem geisladiskurinn sjálfur er?

Nú skil ég mætavel og hef fulla samúð með því sjónarmiði að tónlistarmenn og aðrir hugverkasmiðir vilji fá greitt fyrir vinnu sína, en gildir ekki það sama um vísindamenn og aðra hugvitsmenn?

Út af hverju þarf t.d. lítil rakarastofa að greiða gjald fyrir það að þeir 2 til 4 viðskiptavinir, sem þar eru inni á sama tíma, hlusti á lag í útvarpi, þegar útvarpsstöðin hefur þegar greitt höfundi og flytjendum lagsins fyrir réttinn til að útvarpa því? 

Rakarastofan þarf í ofanálag (í sumum tilfellum) að greiða útvarpsstöðinni fyrir að njóta útsendingar hennar, sem er auðvitað að hluta til notað til að greiða lagahöfundum umrætt gjald.

Er þetta dæmi um að höfundaréttur hafi verið teygður og langt?

Það er sjálfsagt að ræða höfundaréttarmál mun meira en nú hefur verið gert.

Ef til vill er þörf á breytingum á þeim, ef til vill ekki.

En það þurfa allir að fara eftir lögunum, á því á ekki að gefa afslátt og í raun stórhættulegt ef alþingismenn eru að leggja slíkt til.

En þeirra eru löggjafarvaldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Höfundarréttur er flókinn og mismunandi á milli landa.

Höfundaréttur á *sumum* verkum er varinn þar til eftir 70 ár, með vissum skilyrðum, jafnvel lengur, samkvæmt svokölluðum "Mikka mús" lögum.  Gettu tvisvar hver kom þeim á.

Þetta er fyrir peninginn.  Vegna þess að *fyrirtæki* á höfundarréttinn, ekki mannvera.  Og fyrirtæki geta enst talsvert lengur.

Mannverum má vera sama hvað verður um höfundarrétt eftir andlát.  Fyrir fyrirtæki er það ekki svo.

Það er ekkert langt síðan að þetta var 30 ár fyrir kvikmyndir.  Reyndar er höfundarréttur *enn* 30 ár, en ekkert allir nenna að endurnýja hann.  T.d. Roger Corman.  Hans fílósófía er: ef verkið á ekki uppí kostnað innan 10 ára, tekur ekki að standa í að halda uppá það.

Hann hefur aldrei tapað, mér vitanlega.

Það er ekki Corman að kenna að flestar hans myndir eru ekki public domain, heldur öðrum fyrirtækjum - handhöfum höfunarréttar.  Það eru enn einhverjir aurar í þessu.

Annars, þá gleymist alltaf seinni hluti tilvitnunarinnar í hann Njál: ... en með ólögum eyða.

Ásgrímur Hartmannsson, 17.9.2015 kl. 20:27

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta með tónverkið og lyfin kann einfaldlega að skýrast af því, að það liggur meira á að koma lyfjum sem víðast og ódýrast. Að hafa styttri höfundarrétt á lyfjum er því bara spurning um almannahagsmuni.

Kristján G. Arngrímsson, 18.9.2015 kl. 20:35

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásgrímur Þakka þér fyrir þetta. Vissulega er höfundaréttur mismunandi á milli landa, og tekinn mismunandi alvarlega.

Það er þetta með hann Njál og ólögin, þá kann vissulega að vera þörf að taka ýmis lög úr gildi, eða endurnýja þau, rétt eins og gert var með lögin um guðlast.

En þingmenn, sem handhafar löggjafarvalds, sem segja að ekki eigi að framfylgja lögum, eru gjörsamlega á rangri hillu og eiga að segja af sér, að mínu mati.

@Kristján Þakka þér fyrir þett. Vissulega má segja að það sé meiri "almannaþörf", á því að koma lyfjum til almennings, en tónlist.  Ég hygg að flestir geti tekið undir það.

En er þá rétt að segja að minni ástæða sé til þess að umbuna þeim sem finna upp lyf, en þeim sem skrifa tónlistina?

Þar hygg ég að uppi gætu verið mismunandi skoðanir, hvað segir þú?

G. Tómas Gunnarsson, 19.9.2015 kl. 17:11

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Gróðinn af lyfjaframleiðslu er náttúrulega svo margfalt meiri en ef tónlist að það er ekki hægt að miða bara við lengd réttarins. Það verður ekki betur séð en lyfjarisar þrífist ágætlega eins og málum er háttað í dag.

En svo má líka segja bara já, það eru meiri hagsmunir í húfi í dreifingu lyfja þannig að það er eðlilegt að fórna umbun og hagsmunum fárra (framleiðenda) fyrir hagsmuni fleiri.

Kristján G. Arngrímsson, 20.9.2015 kl. 00:26

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Vissulega gera mörg lyfjafyrirtæki það afar gott, en sagan geymir þó vissulega mörg þeirra sem hafa farið á höfuðið, eða verið gleypt vegna slaks gengis.

Það eru mörg "media" fyrirtæki (þetta er allt meira og minna runnið saman) sem hafa verulega hátt hagnaðarhlutfall.

Það eru líka til lög sem hafa tekið inn milljarða í höfundarrétt.

En í raun ætti auðvitað að vera sterkari hvati í formi fjárhagslegrar umbunar að finna upp nýtt lyf, en að semja lag.

En þetta á ekki bara við um lyf. Almenn einkaleyfi eru víðast í kringum 20 ár.

G. Tómas Gunnarsson, 20.9.2015 kl. 07:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband