Verðlaunum við þjóðernishreinsanir?

Viðskiptaþvinganir sem Rússar hafa nú beitt gegn Íslendingum (og öðrum þjóðum) hafa sem von er vakið mikla athygli og umræður.

Eins og eðlilegt er um mál sem þetta og mikla hagsmuni eru skiptar skoðanir um hvernig standa ber að málum.

Persónulega þykir mér þó mörg þau rök sem hafa komið fram um hvaða afstöðu Íslendingar ættu að hafa til yfirgangs Rússa í Ukraínu, undarleg og jafnframt sum hver nokkuð ógeðfelld.

Ýmsir tala eins og Rússar hafi verið í fullum rétti til að "taka" Krím hérað. Það hafi lengi tilheyrt þeim, og þar að auki sé meirihluti íbúanna af Rússneskum uppruna og tali Rússnesku.

Þetta er vissulega rétt.

En þeir hinir sömu horfa framhjá sögunni, sem mig grunar þó að mörgum þeirra sé vel kunn.

Vissulega náðu Rússar að sölsa undir sig Krímskaga á keisaratímanum. En eftir byltinguna 1917, lýsti Krím yfir sjálfstæði sínu. En kommúnistarnir náðu þó að sölsa landið undir sig að nýju, en það var "sjálfstætt" Sovétlýðveldi, þó að vissulega hljómi það sem nokkurs konar þversögn.

Það var svo ekki fyrr en árið 1945, sem það var flutt undir Rússland að nýju. Þá eftir að meirihluti íbúanna hafði verið myrtur eða fluttur í útlegð af Sovétinu. Talið er að um helmingur þeirra hafi látist í þeim aðförum. Þar var um að ræða Tatara, og íbúa af Grískum, Armenskum og Búlgörskum uppruna.

Það er vegna morða og brottflutnings á íbúum Krímskaga sem Rússar eru þar í meirihluta.

Er æskilegt að verðlauna slíkar þjóðernishreinsanir?

Eigum við að líta svo á að ekkert sé sjálfsagðara en undir slíkum formerkjum ákveði landssvæði að vilja tilheyra þeim sem frömdu þjóðernishreinsanirnar?

Það sama gildir um héruðin í A-Ukraínu. Þar hafa fjöldamorð Sovétsins og Þýskalands (fyrir, í og eftir síðari heimstyrjöld) breytt íbúasamsetningunni, þannig að Rússar eru þar í meirihluta.

En gefur það þeim rétt til að reyna að innlima landsvæðin?

Þó að sterk rök liggi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa afmarkaðra landsvæða sé virtur, er að mínu mati nauðsynlegt að líta til sögunnar einnig.

Slíkur réttur hlýtur að vera mjög takmarkaður, ef nokkur, ef staðan er afleiðing þjóðernishreinsana.

Því miður er það svo að fullyrðingar Rússa um nauðsyn þess að "vernda" íbúa Ukraínu sem eru af Rússneskum uppruna, eru óþægilegt bergmál frá liðnum tíma. Tilraunir til að sameina þá í einu ríki eru það sömuleiðis.

Eins og áður sagði var Krímskagi "sjálfstætt Sovétlýðveldi", þar til það var innlimað í Rússland, árið 1945, eftir brottfluttning stórs hluta íbúanna, það var síðan "flutt" til Ukraínu árið 1954.

En þetta voru langt í frá einu breytingarnar sem gerðar voru á milli "Sovétlýðvelda".

Tekin voru landsvæði af bæði Eistlandi og Lettlandi svo dæmi séu tekin.

Það er engin áhugi á því á meðal Rússa að slíkt gangi til baka, og hinir smáu nágrannar þeirra gera sér grein fyrir því að ómögulegt er að sækja slíkt.

P.S. Að sumu leyti má segja að áframhald á þessu eigi sér stað í A-Ukraínu nú. Auðvitað flýtja flestir þeir sem vilja að Ukraína sé óbreytt, og halli sér til vesturs.

Eftir sitja "litlu grænu karlarnir hans Putins" og þeir sem vilja að héruðin tilheyri Rússlandi. Þannig styrkist meirihluti þeirra svo um munar.

Ólíklegt er að þeir sem flúið hafa snúi aftur.

 


mbl.is Stjórnvöld endurskoði afstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Væri ekki bara besta leiðin að ALMENNINGUR hafnaði sjálfur vörum út í sinni búð frá þeim löndum sem að honum finnst vera á rangri leið; frekar en að ríkið sé að skipta sér af málinu?

---------------------------------------------------------------

Það er víða pottur brotinn í kommonista-ríkinu kína;

samt vil sitjandi ríkisstjórn frekar auka viðskipti sín við það heimsveldi frekar en ESB:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1395173/

----------------------------------------------------------------

Íslendingar eru almennt ekki fylgjangi dauðarefsingum samt eigum við viðskipti við USA.

---------------------------------------------------------------

Jón Þórhallsson, 16.8.2015 kl. 10:20

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Þórhallsson þakka þér fyrir þetta. Það er vissulega svo að oft greiðir almenningur atkvæði með buddunni, eins og það er kallað. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt og rétt í raun að hvetja alla til slíks. Ég tek undir það.

Það þarf enda að hafa í huga að skoðanir eru margar og mismunandi, og ríkin sem allir eru sáttir við allt hjá líklega mörg.

En skýlaus brot Rússa og breytingar þeirra á landamærum með valdi, er nokkuð sem ég tel að flestir hafi talið og vonað að væri að baki í Evrópu.

Persónulega finnst mér að Íslendingar geti ekki einfaldlega horft fram hjá og látið eins og ekkert hafi í skorist, eða láta duga að segja: Svona gera menn ekki.

Auðvitað er alltaf umdeilanlegt hvað langt á að ganga, hvort að viðskiptabann sé réttlætanlegt, eða árangursríkt.

En eins og fram hefur komið í fréttum, hótuðu Sovétríkin Íslendingum að viðskiptum yrði hætt, ef Ísland viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

Víð skoruðumst ekki undan þá, er ríkari ástæða til að gera það nú?

G. Tómas Gunnarsson, 16.8.2015 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband