Heimsendir er alltaf handan við hornið - er olían á þrotum?

Þau eru býsna mörg vandræðin sem hafa sótt svo að mannkyninu í gegnum tíðina.  Mörg hver hafa jafnvel verið talin "óumflýjanleg, af færustu vísindamönnum" svo notuð sé orð sem álík þeim sem oft heyrast.

Margir muna eflaust eftir "mannfjöldasprengingunni" svokölluðu, þar sem mannfjöldi yrði skjótt allt of mikill til að jörðin gæti borið hann.  Á áttunda áratugnum var þó nokkuð mikið fjallað um að kuldakast væri óumflýjanlegt á jörðinni, líklega skylli á ísöld.  Flestir kannast svo við 2000 vandann, yfirvofandi hlýnun jarðar, og svo það sem hefur verið ofarlega í umræðunni undanfarin misseri, að jarðarbúar séu í þann veginn að klára alla olíu sem til er, það er að segja innan nokkurra áratuga.

Þessi vandamál eiga það sameiginlegt að það er nokkuð vonlaust fyrir "bol" eins og mig að að mynda mér sjálfstæða skoðun á þessum málum.  Gagnaaðgangur okkar "bolanna" er frekar takmarkaður og við höfum hvorki tíma né fé til að þeytast heimshornanna á milli til að skoða aðstæður, né höfum við peninga til að kaupa dýr mælitæki.

Því verðum við "bolirnir" að treysta á aðra, við verðum að treysta því að þeir upplýsi okkur um ástandið og reynum svo eftir besta megni að móta okkar eigin skoðanir út frá því.  Stundum er það þó ískyggilega nærri því að við veljum okkur einhvern til að "halda með", því þegar svo misvísandi skoðanir koma fram, erum við "bolirnir" í raun ekki þeim vanda vaxnir að meta hver hefur rétt fyrir sér.

Ég hef þó leyft mér að hafa þá skoðun að  (byggða þó á upplýsingum frá öðrum, en ekki eigin athugunum) að olíuskorturinn sé orðum aukin.  Til sé mun meiri olía á jörðinni en "heimsendaspámennirnir" vilji vera láta.  Mín skoðun sé sú, að það sé spurning um betri tækni, við leit og olíuvinnslu sem sé það sem skipti máli, olíu sé víða að finna.

Það sýnir sig að nokkru marki í olíusöndunum hér í Kanada, vinnslan þar er að stóraukast með bættri tækni, auk þess sem hátt olíuverð hefur gert hana mun áhugaverðari en áður var. Olíusandar munu víst líka vera gríðarmiklir í Venezuvela.  Það mátti sömuleiðis sjá afar áhugaverða frétt á vef BBC fyrir nokkrum dögum. 

Þarna er verið að tala um gríðarlegt magn af olíu, en tæknin til að vinna hana á hagkvæman máta er ekki til staðar - enn.

Hitt er þó líklegt að olíuverð eigi eftir að haldast hátt um fyrirsjáanlega framtíð, þó að vonir standi til að það lækki eitthvað, fer það ábyggilega ekki í fyrra horf.

Það er líka ljóst að þó að olíubirgðir jarðar séu meiri en margir vilja telja, er engin ástæða til að slá slöku við að hagnýta aðra og vistvænni orkugjafa.

En það er heldur engin ástæða til að mála í sífellu skrattann á vegginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

HAH! Ég var einmitt að skrifa um olíumálið og "heimsendi". Ég tók aðeins öðruvísi á málinu. Ég held með "fullt af olíu" fólkinu eins og ég held með íslendingum í fótbolta móti Þýskalandi. Hvað um það, gaman að sjá önnur sjónarmið á meðan fólk hefur eitthvað fram að færa og er ekki í afneitun.

Villi Asgeirsson, 21.6.2006 kl. 08:38

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað rétt að líta á þetta frá öllum hugsanlegum hliðum, en það koma verulega misvísandi fréttir af olíumálum og hvað mikil olía sé hugsanlega í jörð. En það er líka ljóst að það hagnast margir á því að verðið sé hátt, enda eykst tilkostnaður við olíuvinnsluna ekki að sama skapi.

En eins og ég sagði í blogginu, þá breytir það því ekki að það þarf að vinna af fullum krafti í öðrum orkugjöfum, en ég held að olían sé ekki á þrotum.

G. Tómas Gunnarsson, 21.6.2006 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband