Sýndarveruleiki Samfylkingarinnar?

Þegar ég las þessa frétt fékk ég það á tilfinninguna að fulltrúar Samfylkingarinnar hljóti að lifa í einhverjum sýndarveruleika.

Það er að segja að veruleikinn liggi þeim ekki alveg ljós. Þessi tillöguflutningur finnst mér bera þess nokkur merki.

Auðvitað er skipulagsvald merkilegt vald.

En það ber að hafa í huga að Ísland er ekki stórt land, hvorki að íbúafjölda né flatarmáli, þó að vissulega sé flatarmálið á íbúa all nokkurt.

En íbúarnir eru þó ekki fleiri en svo og landið ekki stærra en að eðlilegt geti talist að líta á hvoru tveggja sem eina heild.

Þannig er það nú algengt að íbúar eins landsvæðis telji sig hafa sitthvað að segja um ráðstöfun landgæða í öðrum landsfjórðungum, og getur varla talist óeðlilegt.

Ekki man ég eftir að það þætti óeðlilegt að Reykvíkingar ættu rödd (eða raddir) um nýtingu Eyjabakka eða Kárahnjúka, og voru ekki Reykvíkingar á meðal þeirra sem mótmæltu vegalagninug í Garðabæ?

Getur það því talist óeðlilegt að fleiri en Reykvíkingar vilji hafa skoðun, og krefjist þess að á þá sé hlustað, þegar talað er um einn af meginflugvöllum landsins, flugvöllinn sem tengir landbyggðina við höfuðborgina?

Eða er það aðeins skipulagsmál höfuðborgarbúa?

Eru virkjanir, vegalagnir, flugvellir o.s.frv. aðeins skipulagsmál viðkomandi sveitarfélags, eða snerta slík málefni íbúa landsins alls?

Auðvitað sjá allir (nema einhverjir Samfylkingarmenn) hvað fáránlegt það væri að kljúfa Reykjavík frá Íslandi, og hve litla möguleika Reykjavíkurborg ætti á því að standa ein, en samt finnast pólítískir fulltrúar stjórnmálaflokks, sem þykir þörf á því að kanna slíkan vilja.

Ég spyr, í hvaða sýndarveruleika lifa slíkir pólítíkusar?

 

P.S. Ég bloggaði um tengt efni fyrir all nokkru, þann pistil má finna hér.

 

 

 

 

 


mbl.is Viltu að Reykjavík verði borgríki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Almennt séð er það fráleitt að Reykjavík verði borgríki. En ef hún sætir síendurteknu ofbeldi af hálfu ríkisvaldsins er það möguleiki í stöðunni sem vert er að minna á.

Það er auðvitað algjörlega fráleitt, að Alþingi taki skipulagsvaldið af Reykjavík, ef það sér ekki fram á að geta haft flugvöllinn í Vatnsmýrinni, svo að landsbyggðarþingmenn komist sem fyrst til síns heima.

Að mínu mati eru hagsmunir landsbyggðarinnar best tryggðir með því að innanlandsflugið fari til Keflavíkur. Þannig fær landsbyggðin stærri skerf af ferðamannastraumnum vegna beins tengiflugs.

Það mun einnig nýtast landsbyggðarfólki sem getur með millilendingu í Keflavík komist greiðlega til og frá útlöndum.

Við þetta mun rekstrargrundvöllur innanlandsflugsins einnig stórbatna, sem getur leitt til lægri fargjalda og fleiri áfangastaða eða jafnvel komið í veg fyrir að innanlandsflugið verði lagt niður.

Vegna fullyrðinga um að flugvöllurinn verði að vera nálægt Landsspítalanum til að bjarga mannslífum þá virðist eftirfarandi alveg hafa gleymst:

Byggð í Vatnsmýri mun bjarga mörgum mannslífum. Ef sá fjöldi sem þar myndi búa þyrfti að sætta sig við Úlfarsárdal eða álíka fjarlæg úthverfi myndi sjúkraakstur til Landspítalans valda töfum sem oft geta skilið á milli lífs og dauða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 09:33

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég held að líta verði á mál sem þetta í stærra samhengi og ef til vill segja að Ísland sé sameign.

Rétt eins og að Reykvíkingar eigi sinn skerf af hálendinu, þá eigi landsbyggðarbúar sinn skerf af Reykjavík.

Það er heldur ekki óeðlilegt að litið sé á málefni eins og mikilvæg samgöngumannvirki og t.d. virkjanir sem viðameira en skipulagsmál.

Það eru uppi skiptar skoðanir hvernig framtíð innanlandsflugs sé best tryggð. Þeir sem standa í flugrekstri virðast fæstir taka undir sjónarmið eins og þú setur fram hér.

Ég er reyndar þeirra skoðunar að líklega sé best að byggja Landspitala annars staðar en í miðborginni, en það er önnur saga.

Ég held að Reykjavík eigi enga möguleika á því að spjara sig á eigin spýtur, þó að ég geti ekki sagt að ég hagi lagst í miklar reiknikúnstir vegna þess.

En orkulítil, með afar littlar auðlindir (stranglengjan gefur ekki mikla landhelgi), og takmarkaða samgöngumöguleika (þegar enginn flugvöllur verður í borginni), er hætta á að mörg fyrirtæki myndu fylgja með í brottflutningi opinberra stofnana úr borginni.

En slíkur málflutningur þarf þó ef til vill ekki að koma verulega á óvart, komandi frá Samfylkingunni.

G. Tómas Gunnarsson, 4.6.2015 kl. 09:57

3 identicon

Þú þarft að reyna að lesa betur. Þetta er ekki hugmynd Samfylkingarinnar.

Því miður þá hugsa flestir fyrst og fremst um eigin hagsmuni í þessu máli. Þeir sem hafa atvinnu af innanlandsflugi búa á höfuðborgarsvæðinu og vilja því alls ekki að það flytji til Keflavíkur þrátt fyrir augljósa kosti þess.

Helstu rökin gegn flutningnum eru meiri hætta á dauðsföllum ef sjúkrahúsið flyst. Þau rök standast ekki eins og ég bendi á í fyrra innleggi mínu. Fleiri dauðsföll borgarbúa í stað færri dauðsfalla landsbyggðarbúa er engin lausn.

Rekstur innanlandsflugsins er í járnum og fer versnandi. Hann byggist að miklu leyti á opinberum starfsmönnum og þingmönnum á leið úr og í vinnu. Slíkt dekur á kostnað almennings á ekki að þekkjast.

Opinberar stofnanir eiga aðeins að vera þar sem hæfir starfsmenn vilja búa. Annað er sóun á almannafé og dregur auk þess úr getu stofnananna.

Alþingismenn landsbyggðarinnar verða að vera tilbúnir til að flytja til höfuðborgarsvæðisins

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 11:24

4 identicon

....sjúkraflugið flyst...á þetta að vera...ekki sjúkrahúsið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 11:26

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég hef satt best að segja litla trú á því að stjórnendur flugfélaga taki hagsmuni af eigin búsetu fram fyrir rekstrarforsendur fyrirtækjanna sem þeir reka. Það hljómar ekki líklega.

Ég er hins vegar sammála því að innanlandsflug á undir högg að sækja, en það þýðir ekki að hið opinbera eigi að greiða því náðarhöggið. Það ætti að vera óhætt að leyfa því að fjara út.

Flug frá landsbyggðini til að tengjast flugi erlendis, efast ég um að nái vinsældum, enda tengiflug erfitt til að ná flestum Evrópuflugum, tímanlega séð.

Það getur varla talist eðlilegt að taka þann fjölda sem hugsanlega getur búið í Vatnsmýrinni og segja hann vega þyngra en alla þá sem búa á landsbyggðinni, ef menn kæra sig á annað borð um að fara út í slíkan samanburð.

Þessi málflutningur kemur innan úr Samfylkingunni, þó ekki sé um formalegar samþykktir að ræða. En ég er ekki hissa þó að Samfylkingin vilja fjarlægja sig eins og kostur er frá slíkum tillöguflutningi. Hann er ekki beysinn.

G. Tómas Gunnarsson, 4.6.2015 kl. 13:06

6 identicon

Flestir sem gegna störfum sem tengjast flugi eiga engra rekstrarlegra hagsmuna að gæta nema að starfsemin haldi áfram. Fyrir utan starfsmenn flugfélaga eru þetta starfsmenn flugvalla og flugmálayfirvalda.

Þeir sem hafa hagsmuna að gæta vegna rekstrar eru oftast hræddir við allar meiri háttar breytingar. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá og óttast því hið versta. Þeim þykir oft betra að vera á ríkisjötunni en að reyna að spjara sig.

Það er ekki eðlilegt að tala annars vegar um þá sem geta búið í Vatnsmýrinni og hins vegar alla íbúa landsbyggðarinnar. Íbúar landsbyggðarinnar njóta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og þurfa aðeins í undantekningartilvikum á þjónustu Landsspítalans að halda.

Ef þú ert sjálfum þér samkvæmur hlýturðu að telja að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur rasista og hommahatara, þó að það hafi ekki verið samþykkt í flokknum, úr því að Gústaf Níelsson er stuðningsmaður flokksins?

Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 15:05

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég er ekki að tala um þá sem starfa við flug, per se, heldur forsvarsmenn flugfélaga, sem hafa flestir að ég tel, lagst gegn flutningin innanlandsflugs á rekstrarlegum forsendum.

Það er alveg rétt að það er aðeins í undantekningartilfellum sem mínútur skipta máli, þegar flogið er með sjúklinga af landsbyggðinni. En það nákvæmlega sama gildir um þá sem búa í Grafarvogi, eða -holti, sem betur fer það aðeins í undantekningartilfellum sem að það skiptir máli, hvað lengi þeír eru á á leiðinni á Landspítalann.

Ég man ekki eftir því að að Gústaf Níelsson sitji í nokkru ráði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borginni eða hafi lagt fram nokkra tillögu í nefndum eða ráðum borgarinnar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Tillagan um að hugur Reykvíkinga til stofnunar borgríkis er hins vegar lögð fram af fulltrúa Samfylkingarinnar.

Vissulega eins og áður sagði, ekki samþykkt í flokksstofnunum, en eigi að síður lögð fram af fulltrúa sem er skipaður af Samfylkingunni.

G. Tómas Gunnarsson, 4.6.2015 kl. 17:31

8 identicon

Varðandi flugvöllinn er kannski allt í lagi að hafa líka í huga að kostnaður við millilandaflug eykst fari Reykjavíkurflugvöllur.  Það er vegna þess að vélar á leið til landsins þurfa þá að hafa meira eldsneyti um borð vegna þess að lengra er i næsta varaflugvöll.  Þar með verða þær þyngri og eyða meira eldsneyti. Og þar með eykst kostnaðurinn og ég væri dálítið hissa ef sá kosnaðarauki kæmi ekki fram í verðinu.

Þetta með hugsanlegt tengiflug fyrir fólk utanaf landi er dálitið athyglisvert.  Flestir sem ég þekki og hafa farið til útlanda á eigin vegum hafa tekið einhverja af þeim fjölmörgu ferðum sem fara frá Keflavík milli sjö og átta á morgnana (eða fyrr margar hverjar). Væntanlega vegna þess að það er hagstæðast. Mæting á flugvöllinn vegna þessara ferða er þá milli fimm og sex. Tengiflug utan af landi yrði því að fara milli fjögur og fimm. Og vélin því að fara frá Keflavík um þrjúleytið. Hljómar ekki nógu og vel.

Því myndu þeir væntanlega gera eins og hingað til: taka kvöldvélina kvöldið áður. En hvar á þá að vera um nóttina?

Ég held satt að segja að það sé ástæða fyrir því að flestir sem búa úti á landi vilja ekki að innanlandsflugið fari til Keflavíkur. Þeir hafa nefnilega dálítið sem við borgarbúarnir höfum ekki: Reynslu.

ls (IP-tala skráð) 5.6.2015 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband