Hið rímaða réttlæti

Voðaverkin í París standa okkur líklega flestum enn í fersku minni. Vissulega er farið að "fenna yfir þau", ódæðismennirnir voru vegnir, réttlætinu var fullnægt.

Og svo fengum við þessa fínu samstöðugöngu. Reyndar skipaði þar köttur bjarnarból, því Sarkozy sá sér leik á borði og skaust í fremstu röð, þar sem var nóg pláss vegna þess að Sigmundur Davíð og Obama sátu heima.

Og stór hluti heimsbyggðarinnar "gerðist Charie".  Margir sem svo gerðu höfðu líklega aldrei heyrt um Charlie áður.  Aðrir eins og ég sjálfur, höfðu séð það sárasjaldan, hlegið að skopmyndunum en höfðum engan áhuga fyrir "far out" vinstriskrifunum.

En að sjálfsögðu stóðum við með "Charie", jafnvel þjóðir eins og Íslendingar sem enn geta ekki lesið "Spegillinn" á löglegan máta, stóðu með tjáningarfrelsinu, en líkega þó sterkar gegn ofbeldis- og hryðjuverkum.

En það voru ekki margir sem keyptu Charlie Hobdo reglulega. Upplagið var 60.000 á viku eða hér um bil.  Og seldist sjaldan upp.

Það hefur komið fram í fréttum að útgáfan átti ekki fyrir launum í desember.  Sumir hafa sagt að ólíklegt hafi verið að hægt væri að gefa Charlie Hebdo út mikið lengur.

En nú er það breytt, útgáfan stendur líklega traustari fótum en um langa hríð.

Jafn öfugsnúið og það er, að skelfilegt fjöldamorð í nafni trúarbragða hafi í raun tryggt útgáfu blaðs sem hefur markvisst angrað og skopast að þeim sömu trúarbrögðum, þá er það raunin.

En hægt og rólega fara sölutölur "Charlie" líklega í sama farið, það er æ erfiðara að halda úti fjölmiðlum af þessu tagi.

En þannig tryggðu hryðjuverkamennirnar að Charlie Hebdo lifir og mun halda áfram að grýta eitruðum skopmyndum, af Múhameð jafnt sem öðrum.

Þeir tryggðu jafnfram dreifingu þeirra víðar en nokkru sinni áður og að fleiri sæju þær en í raun höfðu áhuga fyrir því.

Þannig vinnur hið rímaða réttlæti eða ætti ég frekar að segja hið ljóðræna?

Og rétt eins og það rignir á okkur öll verður gert grín að bæði réttlátum og ranglátum.

Sitt á hvað, á smekklegan eða ósmekklegan máta. Slíkt fer enda mest eftir sjónarhorninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband