Er Albanía með "hlutfallslega besta" heilbrigðiskerfi í Evrópu?

Ég skrifaði hér pistil að tilefni "Albaníuumræðunnar" hér á Íslandi. Nefndi hann Að kaupa "dýrari pakkann" í heilbrigðiskerfinu.

Þar fjallaði ég stuttlega um reynslu mína af Kanadísku heilbrigðiskerfi.

Eins og ég átti frekar von á, þá spunnust nokkrar umræður um pistilinn í athugasemdakerfinu.  En þær fóru friðsamlega fram, nokkuð kurteisar og án uppnefna, þannig að undan því þurfti ekki að kvarta.

Eins og oft vill verða þá barst umræðan um víðan völl og ýmislegt bar á góma, margt fróðlegt.

Það var síðan í morgun þegar ég var að svara einu innlegginu, að ég leitaði aðeins á náðir Hr. Google, til að finna samanburð á heilbrigðiskerfum.

Healtcare results 2013

Þar fann ég m.a. skýrslu frá Health Powerhouse, sem ber saman heilbrigðiskerfi í Evrópu.  Ég held að fyrirtækið sé nokkuð virt á sínu sviði, alla vegna hef ég mikið séð vitnað til skýrslunnar.

Til að gera langa sögu stutta kemur Íslenskt heilbrigðiskerfi mjög vel út úr skýrslunni.  Talið 3. besta heilbrigðiskerfi á eftir Hollandi og Danmörku.  Albanska kerfið fær ekki slíka glimrandi dóma.

Um Hollenska kerfið er sagt m.a:

The NL is characterized by a multitude of health insurance providers acting in competition, and being separate from caregivers/hospitals. Also, the NL probably has the best and most structured arrangement for patient organisation participation in healthcare decision and
policymaking in Europe.

En skýrslan birtir líka yfirlit yfir hvernig heilbrigðiskerfin eru metin eftir því hvað þau kosta.

Þar kemur Ísland sömuleiðis glimrandi út. Er í öðru sæti og sýnir að heilbrigðiskerfið stendur sig afar vel.

En hvaða ríki Evrópu skyldi hafa skotið Íslandi ref fyrir rass í þessum efnum? 

Jú, það var Albanía.

Healthcare bang for buck 2013

Áður en athugasemdum rignir hér inn (þær eru velkomnar, settar fram á kurteislegan hátt), þá er auðvitað nauðsynlegt að segja að samanburður sem þessi er auðvitað ekki endanlegur dómur og þeim ber að taka með miklum fyrirvara.  Sérstaklega er samanburður eins og "bang for the buck" erfiður í framkvæmd, og skýrsluhöfundar vara við að hann sé tekinn of hátíðlega.

En það er líka auðvelt að tala niður til heilbrigðiskerfa eins og þess sem Albaníubúar þurfa að gera sér að góðu.

Þjóðartekjur á mann þar eru rétt um 12.000 dollarar á einstakling (er ekki svipuð tala fyrir Ísland u.þ.b. 42.000 dollarar?).

Albaníu lengst af verið talið vanþróað land og bjó auk þess við "sæluríki sósíalismans" um áratuga skeið, jafnvel svæsnara en víða annars staðar.

Sjálfsagt nota þeir öll ráð til að "teygja" aurinn sem þeir hafa efni á að leggja í heilbrigðisþjónustu.

Og það er auðvitað engin leið að halda því fram að heilbrigðiskerfið í Albaníu sé til fyrirmyndar og það hef ég engan heyrt gera.

Alþjóðabankinn talar um að mikil mismunun sé í kerfinu og kostnaðarþátttaka sé þrisvar sinnum meiri en hún gerist að meðaltali í Evrópusambandinu (í fréttinni er ESB meðaltalið 17%).

En Albanía eyðir aðeins um 2.1% af þjóðartekjum í heilbrigðiskerfið.  Þess utan er talað um að spilling, mútur og því um líkt sé inngróið í kerfið (eins og reyndar landið í heild).

það er því ljóst að heilbrigðiskerfið í Albaníu á við mörg vandamál að stríða.  Persónulega tel ég ólíklegt að of mikið valfrelsi eða samkeppni sé aðalorsök þess hvernig kerfið er statt.

Það er heldur ekki hægt að draga þá ályktun að valfrelsi og samkeppni hafi komið í veg fyrir að Hollenska kerfið sé gott.

Og ég hef litla trú á því að skortur á samkeppni og valfrelsi sé undirstaðan sem geri Íslenskt heilbrigðiskerfi svona gott.

Mig rekur t.d. minni til þess að hafa lesið grein þar sem höfundur (læknir) taldi sameiningu allra sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu ekki af hinu góða, einmitt vegna einsleitni.

Þess vegna er sjálfsagt og gott að rætt sé um heilbrigðiskerfið á Íslandi, það jafnvel borið saman við önnur, en það væri ólikt heilbrigðara ef sú umræða færi fram án mikilla upphrópanna, skætings og uppnefna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta byrjaði allt á fullyrðingunni um að Albanía væri ljósárum á undan Íslandi í valfrelsi í heilbrigðisrekstri, var það ekki?

En ef á Íslandi er heilbrigðiskerfi sem telst framúrskarandi, hvaða ástæða er þá til að breyta því - og auka valfrelsi? Þú veist, if it ain´t broken ...

Eru ekki dæmin um Albaníu annarsvegar og Holland hinsvegar til marks um að mikið valfrelsi ráði engum úrslitum um hvort heilbrigðiskerfi er gott eða ekki? Að það eru aðrir þættir sem ráða þar mestu?

Kristján G. Arngrímsson, 6.1.2015 kl. 20:41

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Ég held að þú hafir mikið til þíns máls að það er ekki valfrelsi, eða samkeppni, sem er grundvöllurinn, eða það sem ræður úrslitum um gæði í  heilbrigðismálum.

Bæði Albanía og Holland bjóða upp á all nokkuð valfrelsi, eða svo er mér sagt, ekki það að ég þekki þau heilbrigðiskerfi til hlýtar.

Holland er í þessari skýrslu talið besta heilbrigðiskerfið.  Heilbrigðiskerfiði í Albaníu fær afar slæma dóma, þó að það þyki í raun ekki slæmt miðað við hvaða fé það hefur úr að moða.

Ísland fær afar góða dóma, bæði fyrir gæði og miðað við fé.  3ja sæti og svo 2.  Í raun verulega athyglisverður árangur.

Ef marka má álit sem heyrast er þó spurning um hvað það endist lengi.

Það má því leyfa sér að draga þá ályktun að valfrelsi og samkeppni geti aukið gæði heilbrigðiskerfa, t.d. í tilfelli Hollands og Sviss (sem er í 2. sæti).

En að sama skapi að sé auðvitað langt í frá að valfrelsi eða samkeppni tryggi gæði heilbrigðiskerfa, eins og er tilfellið með Albaníu.

En væri heilbrigðiskerfið í Albaníu betra án valfrelsis og samkeppni?

Síðan kemur Íslenska kerfið.  Lítið sem ekkert val og lítil samkeppni. En stendur sig mjög vel.

Kæmist það kerfi nær kerfum Hollands og Sviss, ef samkeppni og valfrelsi yrði aukið?

Um það eru ábyggilega skiptar skoðanir og einnig ber að líta til þess að umrædd skýrsla er ekki "endanlegur dómur", eða "hinn stóri sannleikur".

Þess vegna er æskilegt að mínu mati að slíkt sé rætt án upphlaupa, skætings og uppnefna.

Að sjálfsögðu er líka rétt að hafa í huga að einstaklingar eins og við leiðum þetta ekki til lykta, til þess þarf líklega meiri sérfræðiþekkkingu og innsýn í kerfið.

En það þýðir auðvitað ekki að við höfum ekki heimild til að ræða þetta, rétt eins og annað.

G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2015 kl. 21:07

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Ég er sömuliðis þeirrar skoðunar, að þó að Holland og Sviss séu fyrir ofan Ísland í þessari skýrslu, þýði það ekki að þau lönd gætu eflaust lært sitthvað frá Íslandi.

Það eru það margir þættir sem þurfa að vera samverkandi, að það er alls ekki víst að það séu þeir sömu, sem gefa löndunum þremur þess góðu niðurstöðu.

Eins er líklegt að læra megi af löndum sem eru neðar á listanum.

"if it aint broken...." máltækið á oft við.  En að mínu viti ekki hvað varða kerfi eins og heilbrigðiskerfi.

Þar er uppbyggingu og breytingum aldrei lokið.  Þar er kyrrstaða hættuleg og varla boðleg.  Það er alrei hægt að halla sér aftur ot telja verkinu lokið.

Þar á frekar við að segja að við stefnum á toppinn, við viljum vera bestir, og þó að líklegt sé að við náum þvi aldrei, þá getum við ekki leyft okkur að hætta að reyna.

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 06:26

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Gott og vel, en allar vísbendingar eru um að það sem þarf til að bæta kerfið enn er ekki aukið valfrelsi. Líklega myndi aukið valfrelsi ekki gera það verra, en það er nær að setja kraftana í eitthvað annað - eins og til dæmis nýtt sjúkrahús þar sem allt er undir einu þaki. Það hafa læknar ítrekað sagt að sé besta fyrirkomulagið. Að hafa Landspítalann á mörgum stöðum er óhagræðing.

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 07:58

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Hvernig er hægt að fullyrða að aukið valfrelsi og samkeppni bæti ekki, ef meira valfrelsi og samkeppni er i heilbrigðiskerfum Holands og Sviss, sem í skýrslunni koma í heidl betur út en Ísland?

Margir læknar vila hafa einn spítala, aðrir telja það betra að hafa fleiri.  "Big is bjútifúl" er umdeilt eins og annað.

En mér finnst nokkuð merkilegt hvað þú virðist gjarna telja að "sannleikurinn sé aðeins einn".

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 09:32

6 identicon

"en allar vísbendingar eru um að það sem þarf til að bæta kerfið enn er ekki aukið valfrelsi."

Sé mark tekið á því að tvær þjóðir hafi betra kerfi en er hér og þar sé talsvert meira valfrelsi er þetta talsvert djúpt tekið í árinni, og segir meira um skoðanir höfundar.  N.b. ekki þar með sagt að þær skoðanir séu verri en hinar eða rangar (og ég hef enga sérstaka, sé kosti og galla við hvorutveggja).  Notkun á "allar vísbendingar" og fleiru slíku þykir ekki flott í rökræðu.

Hitt er svo annað að það er talsvert valfrelsi hér, t.d. varðandi fæðingar og svo eru sérfræðingar með stofur út um allan bæ og hægt að velja á milli svo dæmi séu tekin.

Það er lika heilmikill einkarekstur í gangi, og átakið sem gert var til að stytta biðlista eftir augnsteinaskiptiaðgerðum eftir útboð sýndi að það er ýmislegt hægt án þess að hætta að hafa heilbrigðiskerfið félagslegt.  Hins vegar gerir fámennið það að verkum að hér verður seint hægt að velja úr mörgum sjúkrahúsum til að gera hinar og þessar stærri aðgerðir, hvort sem menn vilja stefna í þá áttina eða ekki.

ls (IP-tala skráð) 7.1.2015 kl. 09:59

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tommi, það er líka meira valfrelsi í Albaníu þar sem kerfið er vont. Var það ekki komið að valfrelsi er ekki það sem ræður úrslitum?

Óhrekjanlegur sannleikur er að öllum líkindum hvergi til nema í stærðfræði. Þannig að það er ekki svo að ég telji sannleikann vera bara einn. Mér sýnist hins vegar að allar líkur séu á, og öll rök hníga að því, og flestar vísbendingar vera um það, að aukið valfrelsi í heilbrigðisþjónustu á Íslandi muni ekki endilega leiða til betri þjónustu (nema kannski fyrir þá sem eru ríkir). Það gæti bætt þjónustuna í heild en ég sé ekki hvers vegna þörf er á að fara út í svoleiðis tilraunir. Endurtek: If it ain´t broken, don´t fix it.

Ég skil ekki hvers vegna fólk kommentar á blogg án þess að láta nafns síns getið. Þorir það ekki að eiga skoðanir sínar? Að minnsta kosti vil ég ekki ræða við eða taka mark á þeim sem þannig haga sér í samræðu.

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 13:16

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér finnst að þegar maður tekur ákvörðun um hvað maður eigi að gera þá eigi maður að taka hana á grundvelli fyrirliggjandi vísbendinga og bestu röksemda, en ekki á grundvelli pólitískrar sannfæringar eða því sem maður hefur óljóst á tilfinningunni.

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 13:54

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls  Þakka þér fyrir þitt innlegg.  Það er sérstaklega gott að bent sé á að í raun sé ekki bara "einn ríkispakki" á Íslandi.  Ég viðurkenni fúslega að ég fylgist ekki mjög grannt með, enda búseta mín verið annarsstaðar um all nokkra hríð.

Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að um virka samkeppni í t.d. krabbameinslækningum eða hjarta og heilaskurðaðgerðum verður seint um að ræða á Íslandi.  Þær erfiðustu enda oft framkvæmdar erlendis eins og áður.  Sérhæfingin á því sviði enda mikil.

En ég held að það sé þörf umræða, hvar samkeppni og valfrelsi gæti aukið gæði kerfisins.

@Kristján Ég held að allir (eða næstum allir) séu sammála um að valfrelsi og samkeppni ein og sér skapi ekki betra heilbrigðiskerfi. 

En gerir samkeppni og valfrelsi þau verri?

Væri Albanía með betra heilbrigðiskerfi ef valfrelsi og samkeppni væri skorið niður?

Væri Holland með betra heilbrigðiskerfi ef valfrelsi og samkeppni væri tekið alfarið út?

Væri Sviss með betra heilbrigðiskerfi ef valfrelsi og samkeppni væri tekið alfarið út.

Þetta eru þau tvö lönd sem koma betur út en Ísland í skýrslunni sem ég vitnaði til.

Gæti því hugsast að aukin samkeppni og valfrelsi færði Ísland nær þeim, eða framfyrir?

Er ekki vert að velta því fyrir sér og jafnvel ræða á hvaða sviðum samkeppni og valfrelsi gæti bætt kerfið og hvar ekki?

Er það að Sviss og Holland séu með betra kerfi en Ísland ekki vísbending?  Eða er skýrslan og könnunin sem þú vitnaðir til "hinn eini stóri sannleikur"?  Þú skrifar að læknar segi, eru það allir læknar, tala þeir einni röddu í þessu máli?

Hvað varðar nafnleysi, þá hef ég frá upphafi markað þá stefnu að hér megi allir tjá sig, með nafni eða án, svo lengi sem þeir halda "almennt siðgæði", ef svo má að orði komast.

Það skiptir mig meira máli hvað einstaklingur hefur að segja, en hvað hann heitir, eða hvort hann heldur nafni sínu leyndu.

Fyrir suma skiptir það máli.  Starfsmenn til dæmis Landspítala, heilbrigðis eða fjármálaráðuneytis kynnu til að forðast að koma fram undir nafni í umræðu sem þessari.  Ef til vill stendur ls fyrir landspítali  lol  En hvort að það stendur fyrir Landspítali eða Ludwig Schwarzwald, skiptir mig engu máli.

En ls hefur "kommentarað" hér á bloggið mitt af og til um nokkurt skeið, án þess að vera til minnstu vandræða.  Hans rök, innlegg og tillögur haf því í mínum huga sama vægi og annara.

En að sjálfsögðu er þér í sjálfsvald sett hvort þú hirðir um að svara, hér eru ekki settar neinar kvaðir, umfram kurteisina og "almenna siðgæðið".

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 16:58

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Sumir vilja koma á kerfi þar sem ríkið borgar, en sjúklingurinn getur leitað til mismunandi þjónustaðila, jafnvel erlendis, sérstaklega ef bíðtími í heimalandinu fer yfir ákveðin mörk.  Örðrum finnst það sniðugt en aðeins ef biðtíminn er of langur.  Tek það fram að ég er ekki að vitna til Íslenskrar umræðu.

Finnst þér slíkt kerfi koma til greina?

Sem dæmi:

Patient living in country A wants to get her complex surgery performed in country B by a provider contracted to the public health system. Since this surgery is subject to prior authorisation under either the direct payment or reimbursement routes, she applies for prior authorisation and either gets the cost covered directly by the institution or claims the reimbursement when she gets back home.

Another patient wants the same surgery, also in country B, but from a private provider. In this case he must still apply for authorisation, but the direct payment option does not apply. He must pay the cost of treatment and then claim reimbursement. He will usually receive it up to the level applied in his home country for the same kind of treatment.

Endurgreiðslan er semsagt aðeins upp að því marki sem aðgerðin hefði kostað í heimalandinu.

Það sem margir vilja meina að ávinnist, er styttri biðtíma, sjúklingurinn missir þá minna úr vinnu, ef hann getur ekki unnið vegna þarfarinnar fyrir aðgerð.  Heildarkostnaður samfélagsins verður lægri, þjáningar sjúklingsins styttri.

Fókusinn er settur á sjúklinginn en ekki "kerfið".

Að sumu leyti finnst mér þetta nokkuð heillandi, en ég segi án hiks, að ég hef þó vissar efasemdir um hvernig kerfi sem þetta virkar í "praxís".

En hvað finnst þér?

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 17:53

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eins og ég hef áður sagt er mér alveg sama hver veitir þjónustuna svo fremi sem hún er borguð úr opinberum sjóðum og þess gætt að forgangsröðun sjúklinga ráðist ekki af ríkidæmi þeirra heldur þörf þeirra fyrir þjónustuna.

Og eins og ég hef líka sagt áður þá finnst mér ekki þess vert að auka valfrelsi og einkarekstur á Íslandi vegna þess að það gæti alveg eins þýtt að við færðumst niður á level við USA og Albaníu eins og að við færðumst uppfyrir Sviss og Holland - vegna þess eins og við höfum þó orðið ásáttir um að valfrelsi er ekki það sem ræður úrslitum og er þar af leiðandi líklega ekki ástæðan fyrir því að Sviss og Holland eru ofan við Ísland.

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 18:38

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef ég man rétt setti ég mig ekki upp á móti nafnlausum athugasemdum þegar ég hélt úti bloggi (núna er ég bara á Facebook) einmitt á sömu forsendum og þú, að hvað sagt er skiptir meira máli en hver segir það. Samt finnst mér þetta eiginlega bara ókurteisi að vilja ekki kynna sig.

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 18:43

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Ef að sjúklingur getur valið á milli margra sjúkrastofnana, jafnt innanlands sem erlendis, og ríkið greiðir fyrir það, hefur valfrelsi stórlega aukist.

Þó er í dæminu sem ég setti hér inn að ofan, gert ráð fyrir því að einstaklingur geti farið á "einkastofu" erlendis, þar sem aðgerðin er framkvæmd, greitt fyrir hana og fái jafnvirði kostnaðar heimafyrir endurgreitt frá ríkinu.

Ef kostnaðurinn við aðgerðina er hærri, verður hann að greiða hann sjálfur.

Þetta getur virkað vel, getur tekið "toppa" af og stytt biðlista, jafnframt því að hugsanlegt er að lönd taki einhverja álagstoppa af hverju öðru.

Það er hugsanlegt að þetta gerði fátækari þjóðum mögulegt að halda betur í heilbrigðisstarfsfólk, þar sem með því að taka sjúklinga frá ríkari þjóðum, gerði það þeim kleyft að hækka verð og borga heilbrigðisstarfsfólki samkeppnishæf laun.

En það er langt í frá að vera sér Íslenskt vandamál að heilbrigðisstarfólk flytji á brott, þangað sem betri laun bjóðast.  Þetta er þekkt vandamál víða um heim.

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 19:40

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En er þá ekki líklegt að innganga Íslands í ESB myndi auka valfrelsi í heilbrigðismálum? Yrði þá ekki auðveldara að fara milli landa til lækninga?

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 20:27

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Það er því sem næst öruggt að innganga Íslands í ESB myndi auka valfrelsi í heilbrigðismálum.

Jafnframt yrði kerfið þannig að þeir sem hefðu efni á að borga mismuninn á milli þess sem Íslenska ríkið borgar fyrir einhverja aðgerð og það sem hún kostar t.d. í Hollandi, gætu fengið peninginn hjá Íslenska ríkinu og farið fram hjá röðinni og borgað mismunninn í Hollandi.

Biðröðin myndi styttast á Íslandi, en þar myndu þeir sem ekki hefðu efni á því að fara erlendis bíða í röðinni.  Ef til vill hefðu þeir þó efni á því að fara til Búlgaríu eða Albaníu, því Albanía vill vissulega ganga í "Sambandið".

Er þetta ekki "blautur draumur" allra jafnaðarmanna?

En ef þeim finnst þetta allt í lagi, ef gengið er í "Sambandið", hví eru þeir þá á móti því að sama kerfi gilti á Íslandi, án þess að ganga í "Sambandið"?

Það hlýtur að vera næsta spurning.

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 20:52

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég held að spurningin hljóti þvert á móti að vera sú, hvers vegna þeir sem leggja höfuðáherslu á aukið valfrelsi eru svona andvígir ESB.

Hvers vegna þessi þversögn í hinni pólitísku afstöðu/sannfæringu?

Reyndar held ég að það sé rangt hjá þér að ESB-innganga leiddi til ójöfnuðar vegna þess að hið opinbera myndi að sjálfsögðu greiða allan kostnað við ferðir í lækningaskyni. Annað væri brot á jafnræðisreglunni.

Kristján G. Arngrímsson, 7.1.2015 kl. 21:36

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Þó að ég svari ekki fyrir andstæðinga ESB eða t.d. hægri menn eru auðvitað fyrir andstöðunni margar ástæður.

En auðvitað eru margir Sjálfstæðismenn ekkert áfram um auki valfrelsi í heilbrigðisþjónustunni og vilja einfaldlega óbreytt eða lítið breytt kerfi.

Þó að vinstri stjórnmálamenn vilji auðvitað gjarna tala um Sjálfstæðisflokkinn sem frjálshyggjuflokk og á Íslandi ríki einhver "dólgafrjálshyggja", er það eingöngu innantómir frasar.

Sjálfstæðisflokkurinn er að lang stærstum hluta, nú sem alltaf kristilegur íhaldsflokkur.  Frjálshyggjumenn má vissulega finna þar innan um, og stundum hafa þeir náð að hafa nokkur áhrif, en það breytir ekki eðli flokksins.  Síðan eru auðvitað þeir sjálfstæðismenn sem vilja ganga í ESB, þó að þeir séu ekki mjög stór hópur.

En ætli stærsti hópurinn sé ekki sá sem telur, og það réttilega að ef við viljum taka upp kerfi sem þetta, þá sé ónauðsynlegt að ganga í ESB til að taka það upp.  Rétt eins og svo margt annað.

En hvers vegna vilja t.d. þá "Sambandssinnar" ekki taka upp þetta kerfi, ef þeir geta sætt sig við það ef gengið yrði í ESB?

En ríkin greiða ekki fyrir ferðir.  En það sem skiptir líklega mestu máli er að einstaklingnum er heimilt að greiða aukalega.

Ef t.d. mjaðmakúluskipti kosta 500.000 í Svíþjóð, getur Svíi farið yfir til Þýskalands og fengið aðgerð þar, og sloppið fram hjá biðlista í Svíþjóð, sem sífellt eru að lengjast.  Segjum að aðgerðin kosti 700.000, þá endurgreiðir Sænska ríkið honum 500.000 en hanns stendur sjálfur straum af mismuninum.

Ég veit af því Finnar koma til dæmis eitthvað yfir til Eistlands til tannæknis.  Þeir fá flestir kvittun og eiga rétt á endurgreiðslu á mörgu, en fá ekkert greitt upp í ferðir.  En ferjan á milli kostar auðvitað ekki mikið.

Það má finna mikið um þetta á þessari síður og síðunum í kring 

http://europa.eu/youreurope/citizens/health/planned-healthcare/expenses-reimbursements/index_en.htm

Eftir því sem mér skilst er þetta þó ennþá almennt lítið notað, en eykst.

Ef einhver er hinsvegar sendur til lækninga, er auðvitað greitt fyrir ferðir og uppihald.  En ekki þegar "farið er fram fyrir röðina" og leitað eftir heilbrigðisþjónustu erlendis.

G. Tómas Gunnarsson, 7.1.2015 kl. 22:09

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Spurning hvort EES aðildin gerir ekki að verkum að það sem þú segir eigi nú þegar við hérlendis.

En svo má líka segja að það sé kannski til of mikils mælst að ég fái greitt kílómetragjald fyrir að keyra til læknis ef ég ákveð að fara á Læknavaktina suður í Kópavogi frekar en að hjóla útá Heilsugæsluna hérna í Vesturbænum.

Ef þú ert innan ESB ertu kannski ekki heldur að fara framfyrir röð ef þú ferð úr einu landi í annað þar sem í vissum skilningi eru öll ESB löndin eitt land, svona eins og öll fylkin í Kanada eru eitt land.

Svo verð ég að viðurkenna að það er mér ný sýn að Sjálfstæðisflokkurinn sé fyrst og fremst kristilegur íhaldsflokkur. Ég dreg þetta ekki í efa, þú veist meira um Sjalla en ég, og ef eitthvað er finnst mér ólíkt þægilegra að hugsa svona um flokkinn heldur en sem flokk frjálshyggjurugludalla á borð við Óla Björn og Svein Andra - sem ég þekki báða frá fornu fari og kann ekki sérlega vel við. En nú er flokkurinn með sögulega lítil fylgi, spurningin er hvaða kjósendur hafa yfirgefið hann, eru það kristilegu íhaldsmennirnir eða ESB-sinnarnir?

Kristján G. Arngrímsson, 8.1.2015 kl. 07:30

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þú hefur velt því nokkuð upp hér hvers vegna margir séu svo "trúaðir" á að einkarekstur sé betri.

Auðvitað liggja fyrir því margar mismunandi ástæður, og sjálfsagt mismunandi á milli einstaklinga. 

En margir telja að reynslan hafi sýnt að almennt fari menn betur með eigið fé en annarra.  Margir telja að reynslan hafi sýnt að frekar sé leitað leiða til hagræðingar og sparnaðar ef viðkomandi fái hluta sparnaðarins í eigin vasa, eða á annan hátt til ráðstöfunar.

Vissulega eru án efa til margar undantekningar frá þessu og margur maðurinn fer jafnvel með fé annara og sjálfs sín. 

Eitt af sorglegustu dæmum sem ég hef séð nýlega er þó líklega fréttin um forstöðumanninn í ríkisstofnun norður í landi sem vildi flytja stofnunina í ódýrara húsnæði.

Þegar ljóst varð að ef að húsnæðiskostnaðurinn lækkaði, myndi framlag ríkisins til stofnunarinnar lækka samsvarandi hvarf áhuginn fyrir flutningi og því að finna ódýara húsnæði.

Forstöðumaðurinn hafði hins vegar áhuga á því að spara ef stofnunin hefði meira fé á milli handanna til að "eyða í annað", en hafi engan áhuga á því að spara fyrir ríkissjóð.

Því miður held ég að slikur hugsunarháttur sé alltof algengur og líklega jafnvel algengari en hitt.

G. Tómas Gunnarsson, 8.1.2015 kl. 07:37

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Öll löndin í ESB eru ekki eitt land.  Alla vegna ekki ennþá.

Heilbrigðisþjónustan í Kanada virkar heldur ekki á milli fylkja.  Ontario búi á ekki rétt á því að fara til Alberta og fara í aðgerð.  Honum yrði þó að sjálfsögðu sinnt ef hann lenti í slysi þar.

Því ertu að fara fram fyrir röðina í Svíþjóð ef þú ferð yfir til Þýskalands og borgar þar aukalega fyrir aðgerð.

Mín sýn á Sjálfstæðisflokkinn er auðvitað ekki endilega sú eina rétta. Þetta er eins og ég upplifi hann.

Ég man t.d. í fljótu bragði ekki eftir neinm ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hefur starfað verulega með frjálshygju að leiðarljósi.

Líklega hefur þó mátt greina hvað mest áhrif frjálshyggju hjá Davíð og svo aftur Guðlaugi Þór.

En auðvitað má líta á málin frá mörgum sjónarhornum.  Margir líta svo á að Ísland hafi alltaf verið blandað hagkerfi og það er líklega rétt (alla vegna á lýðveldistímanum).  En það er alltaf spurningin hver hlutföllin í blöndunni eru.

Það er ekki til nein ein uppskrift að blönduðu hagkerfi.

Ég held til dæmis að þegar Viðeyjarstjórnin tók til að breyta, var til að færa Ísland nær Norðurlöndunum en fjær í flestum tilfellum.

Þegar einkavæðing á sér stað, t.d. á bönkunum (þá er ég ekki að segja að ekki hafi mátt standa betur að henni) þá er verið að færa samfélagið nær Norræna módelinu en fjær.

Það eru til ríkisbankar á Norðurlöndunum, en þeir eru ekki margir. Í fljótu bragði man ég bara eftir DNB þar sem Norska ríkið á 34%, en það geta verið til einhverjir fleiri.

Þannig er einkavæðing banka í sjálfu sér engin frjálshyggjuvæðing, heldur eðlileg framkvæmd í blönduðu hagkerfi.

Þó að það sé ekki beint umræðuefnið, er líka vert að velta fyrir sér bankakreppunum í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi snemma á tíunda áratugnum, því til að slíkt gerist þarf enga frjálshyggju til, nema síður sé.

Ég varð heldur ekki var við að umsvif ríkisins drægjust saman á valdatíma Sjálfstæðisflokksins, þó að frelsi ykist á mörgum sviðum.  Þeir eru heldur ekki margir "frjálshyggjuflokkarnir" sem standa jafn þétt við hliðina á "ríkiskirkju" og margir myndu taka svo til orða að Sjálfstæðisflokkurinn hafi dælt í hana fé og skuldbundið hið opinbera til að gera það um ókomna tíma.

Nú þekki ég ekki mikið til Óla Björns og enn minna til Sveins Andra.  Óli Björn kemur oft með hárbeittar og gagnlegar athugasemdir um ríkisfjármál, en ég man nú ekki eftir mörgu skynsamlegu frá Sveini, og ég segi það ekki bara vegna þess að hann vill ólmur í "Sambandið".

Finnst þér mikið um frjálshyggjulausnir hjá núverandi ríkisstjórn?

G. Tómas Gunnarsson, 8.1.2015 kl. 08:02

21 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Óli Björn er fyllibytta.

Ég þekki alveg rökin fyrir einkarekstri fremur en ríkis og er sammála mörgum. En málið er ekki svarthvítt og margt bendir til að á sviðum eins og heilbrigðisþjónustu og menntamálum fari betur á að hafa ríkisrekstur.

Ég þekki til menntamálanna og hafði þar til nýverið yfirmann (skólastjóra) sem var alltaf að hugsa um peningana en hafði enga faglega skólasýn. Það var herfilegt. Hún fór því miður illa með skólann sem menntastofnun, en alltaf skilaði hún hagnaði. Sem betur fer er hún hætt og orðin sveitarstjóri í Borgarbyggð, þar held ég að hún njóti sín mun betur. Enda byrjaði hún á að reka slatta af fólki.

Til hvers á skóli að skila hagnaði? Eða sjúkrastofnun? Markmið slíkra stofnana er ekki hagnaður heldur velferð þess fólks sem þær sinna. Ég er ekki að segja að slíkar stofnanir eigi að vera reknar með tapi. En meginmarkmið þeirra er ekki fjárhagslegt.

Já, einkavæðing bankanna var því miður ekki eðlileg einkavæðing (mér finnst gott að bankar séu einkareknir) heldur skiptu Sjálfstæðisfokkurinn og Framsóknn bönkunum á milli síns fólks. Því miður tókst forystumönnum þeirra ekki að losna úr fjötrum gamla lénskerfisins.

Ég sé yfirleitt engar lausnir hjá núverandi ríkisstjórn. Hún virðist aðallega vera í því að slökkva elda á borð við læknadeiluna og svo er hún í mjög undarlegri byggðapólitík. Það sem Sigmundur kallar "leiðréttingu" veit ég hreinlega ekki hvað er. Kannski mestu atkvæðakaup sem fram hafa farið í Íslandssögunni. Vonandi þurrkast Framsóknarflokkurinn út í næstu kosningum eins og Íhaldsflokkurinn í Kanada hérna um árið. Það var magnað.

Kristján G. Arngrímsson, 8.1.2015 kl. 08:31

22 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Ég er ekki gjarn á að koma með slíka "sleggjudóma" um fólk, mér finnst það ekki fara neinum vel.

Sjálfsagt fannst mörgum ég vera "fyllibytta" hér í den. Ég man alltaf eftir manninum sem spurði mig: "Hvernig getur þú hagað þér svona, hálffullorðin maðurinn".

Ég er ekki kristinn, en álít mig ekki syndlausan og er ekki gjarn á að kasta fyrsta steininum.

Það er alveg rétt að það er í sjálfu sér ekki markmiðað skóli skili hagnaði, nú eða sjúkrastofnanir.

Hins vegar er ekkert óeðlilegt að reynt sé að spara eins og mögulegt er.  Hvað er mögulegt og hvað er of langt gengið verður hins vegar líklega seint allir sammála um.

En það er auðveldara að eyða annara manna fé, en eigin.

Staðreyndin er líklega sú að til að framfylgja faglegum metnaði, eða hvað sem við viljum nefna það, er lítil takmörk fyrir því hvað hægt er að eyða miklu fé, ef litið er svo á að það sé ótakmarkað.

Ég held að fáir spítalar í heiminum myndu í sjálfu sér treysta sér til að eyða öllu því fé sem þeir kæmu höndum yfir.

Hvar er rétt að draga mörkin?  Má hvergi spara? Er ekkert sem hægt er að gera ódýrara?

Og rétt eins og í dæmi ríkisstofnunarinnar norður í landi, er engin ástæða til að spara, ef það er "bara fyrir ríkið"?

Þú sérð engar lausnir.  Þannig að þú sérð ekki "öfga" og "dólgafrjálshyggjuna" sem svo margir eru alltaf að tala um?

Ekki það að ég geri það ekki heldur.

Nú er meiri talað um hættu á að NDP þurkist að miklu leyti út í Kanada.  Veður skipast oft í lofti, þó stundum taki það tíma.  Ég held að fáir hefðu spáð því með löngum fyrirvara, hvað Olivia Chow fékk lélega kosningu í Toronto.

En það er ekki hægt að afskrifa Harper ennþá, en það er eins líklegt að Frjálslyndi flokkurinn taki við næst.  En NPD er í hættu að því sem næst þurkast út, en auðvitað ýkir kosningakerfið fylgistap flokka svo mikið í kerfum eins og Kanada og Bretlandi.

G. Tómas Gunnarsson, 8.1.2015 kl. 09:34

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þegar ég segi Óla Björn vera fyllibyttu er ég bara að lýsa staðreynd, ekki fella dóm. Á sama hátt get ég sagt sem staðreynd um sjálfan mig að ég er þrasgjarn.

Öfgafrjálshyggja miðað við hvað? Það er helst að SUS-liðar tali eins og hörðustu Repúblíkanar í USA.

Sko, þetta með að eyða peningum annarra er ekki bara vandi í ríkisrekstri. Í fræðunum er til hugtakið "moral hazard" yfir þetta og einmitt þetta var ein orsök fjármálahrunsins 2008. Fjárfestingarbankarnir seldu alltaf frá sér áhættuna og þess vegna varð þeim alveg sama um hana og þar með um peningana sem þeir fengu frá kúnnunum sínum.

Vandinn er fólginn í því að fólk fer að hugsa eingöngu um sína eigin þröngu hagsmuni, sinn stundargróða. Veit ekki hvort þú hefur lesið eitthvað eftir Michael Lewis, sem skrifaði þá frábæru grein Wall Street on the Tundra.

Í annarri bók segir hann:

"It´s a problem of people taking what they can, just because they can, without regard to the larger social consequences."

Þetta er vandinn í hnotskurn.

Kristján G. Arngrímsson, 8.1.2015 kl. 12:22

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján  Hvað gerir einstakling að "fyllibyttu" og hvað gerir þig hæfan til að dæma hvort svo sé eður ei?

Það er líka frekar ódýrt, og í mínum huga ómerkilegt að sletta fram fullyrðingum eins og hann er "fyllibytta", "hálfviti", "ómarktækur", og svo frv, og halda með því að þá þurfi ekkert að gera með það sem viðkomandi hafi fram að færa.  Hvað þá að rök hans séu einhvers virði.

Einn af fyrrverandi ráðherrum Íslendinga hefur oft verið talinn  "fyllibytta" í mín eyru.  Síðan var hann ásakaður um að vera "pervert".  Ég er auðvitað að tala um Jón Baldvin, ég held að þýðingarlaust sé að vera með nafnleynd, því lýsingin á aðeins við einn.

Ég ætla ekki að dæma um það.  En þó að hvoru tveggja væri rétt, gerir það ekki minna úr því sem hann gerði og sagði sem þingmaður og ráðherra.

Auðvitað var ég ýmist sammála honum eða ósammála.  Það er ekki aðalmálið.  En hann var án vafa einn af merkustu stjórnmálamönnum Íslands síðasta hluta síðustu aldar.

Það var líka frægt tilvikið með Sigmund Erni.  Ég veit heldur ekki hvort að hann er "fyllibytta" eður ei.  En það þótti mikill bömmer þegar hann fór í ræðustól Alþingis hálf slompaður.

Persónulega hef ég meiri áhyggjur af því rugli sem þingmenn láta út úr sér oft á tíðum blá edrú (að ég tel í það minnsta) en þó að einhver þeirra hafi verið slompaður.

Það þýðir ekki að ég sé að mæla með vinnustaðadrykku, þó að ég hafi reyndar margsinnis tekið þátt í slíku.

OPM er auðvitað víða vandamál  Þó í raun hvergi eins og í ríkisrekstri.  Persónulega lít ég á það sem grundavallar mun hvort að peningum sem eru teknir af mér með valdi (skattfé) eða peningar sem ég ákveð að treysta einhverjum fyrir, tapast eða er stolið.

Ef mér væri boðið að "velja" ríkisfyrirtæki sem ég vildi láta fá peninga, t.d. menntastofnun eða sjúkrahús, væri dæmið annað.  En við vitum báðir að slíkt gengi ekki upp.

Það að fjárfestingarbankamaður skili mér ekki arði, eða jafnvel stingi af með peninginn, er ekki sambærilegt að mínu mati.

P.S. Ég get líklega viðurkennt sömuleiðis að hafa eitthvað af "þrasgenum".  Ef til vill liggur þetta í ættum.

G. Tómas Gunnarsson, 8.1.2015 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband