Stjórnmálamenn sem óttast ekkert nema kjósendur

Svo virðist sem Grískir þingmenn hafi ekki verið sömu skoðunar og Jean Claude Juncker hvað það væri að "kjósa rangt".

Svo virðist í það minnsta að þeir hafi fylgt eigin sannfæringu og frekar valið að efnt yrði til kosninga, en að beygja frá henni.

Það gefur hinum almenna Grikkja tækifæri til að segja álit sitt og stjórnmálamönnum tækifæri til að fá nýtt umboð fyrir komandi ár.

En nú virðist það vera orðið víða um lönd að farið er að tala um kosningar sem ógn.  Stjórnmálamenn jafnvel farnir að taka svo til orða að tekist hafi að afstýra kosningum.

Slíkir stjórnmálamen virðast fátt óttast nema kjósendur og úrskurð þeirra.

En Grikkir eiga nú fáa kosti og enga góða.

Þó að vissulega megi færa fyrir því rök að best væri fyrir þá að yfirgefa eurosvæðið, þá er það sitthvað að skipta um mynt með skipulegum hætti, eða að vera hugsanlega sviptir myntinni sem þeir hafa kosið að nota og þurfa að taka upp sína eigin við erfiðar aðstæður og ónógan undirbúning.

Grikkir búa nú við þann veruleika að þeir nota ekki eigin mynt, heldur nota mynt sem Seðlabanki Evrópusambandsins ræður yfir.  Þess vegna hefur Seðlabankinn komist upp með að senda "skipunarbréf" til landa eins og Grikklands, Írlands og Ítalíu.

Það er vert að hafa í huga að slíkar aðstæður er auðveldara að koma sér í, en úr.

En kosningabaráttan í Grikklandi verður snörp en hörð.  Talað er um að kosningar verði haldnar þann 25. janúar.

Þó að margt bendi til þess nú að Syriza vinni góðan sigur, leyfi ég mér að efast um að sú verði raunin.

Þó að ég efist ekki um að margir Grikkir vilji gefa þeim atkvæði sitt, er ekki þar með sagt að þeir hafi hugrekki til þess í kjörklefanum.

Þó að þeir vilji taka meira vald "heim", þá er þeim þröngt skorinn stakkur.  Skuldir ríkisins eru gríðarlegar, atvinnuleysi er ógnvænlegt og höggið sem kæmi á Grikkland ef því yrði "sparkað" af eurosvæðinu yrði slæmt.

Það er því ekki ótrúlegt að margur Grikkinn muni velja "árann" sem hann þekkir, frekar en að kaupa miða í "óvissuferð" með Syriza. 

Það sýnir enn og aftur að það er umtalsvert auðveldara fyrir þjóðir að gefa frá sér völd, en að endurheimta þau.

En nú færast völdin um stundarsakir til Grískra kjósenda.  Þeim er falið að að velja sér fulltrúa á þingið.  Það er í sjálfu sér fagnaðarefni.  Þingmenn fá nýtt umboð og nýta það vonandi vel.

Það er hins vegar allt eins líklegt að umboðið þingsins í heild, verði ekki skýrt, skiptar skoðanir og margar meiningar.  En það endurspeglar þá líklega stöðuna í þjóðfélaginu.

 


mbl.is Tókst ekki að kjósa forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir það að það sé betra í að komast en úr að fara, þetta ættum við að hafa vel í huga ef gerð verður önnur atlaga stjórnvalda til að koma okkur inn í ESB. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2014 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband