Magnaður dagur - stórmerkilegar kosningar

Hvernig sem kosningarnar í Skotlandi fara eru þær magnaðar og stórmerkilegar.  Spennan er mikil og í raun virðast úrslitin geta fallið á hvorn veginn sem er.

En það er ekki síst ástæða til að vekja athygli á því hve vel baráttan hefur farið fram.  Eins og ég hef getað fylgst með fréttum hefur ekkert það skeð sem setur ljótan blett á kosningarnar, þó einstaka núningur hafi átt sér stað.

Það er óskandi að þessar kosningar verði að því leyti fyrirmynd þeirra sem sem berjast fyrir sjálfstæði landa sinna eða héraða, hvað það varðar.

Mér sýnist sömuleiðis að skipulag kosningabaráttunnar hafi verið með ágætum, sjónvarpskappræður, fjöldi funda og þar fram eftir götunum.  Báðar fylkingar hafa staðið sig með sóma.

Það er einnig ánægjulegt, þó ekkert sé hægt að fullyrða á þessari stundu, þá er útlit fyrir að kjörsókn verði góð.  Það er óskandi, enda nauðsynlegt í kosningum sem þessum að sem flestir taki þátt, sem styrkir kosningarnar.

Persónlulega spái ég því að Skotar muni segja nei, hafna fullu sjálfstæði og vera enn um sinn í hinu Sameinaða konungsdæmi.

En líklega verður mjótt á mununum.

En það verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með eftirleik kosinganna, hvernig hinar mismunandi fylkingar munu "spila" úr úrslitunum og hvernig sem þær fara verða að öllum líkindum miklar breytingar í Skotlandi.

Ef að Já-fylkingin ber sigur úr býtum, upphefjast langar og flóknar viðræðum um sambandsslitin, en ef Nei-fylkingin hefur sigur, kemur sjálfstæði og sjálfstjórn Skota til með að breikka og aukast og verður ábyggilega fylgst með því víða um Evrópu.

Það er enda víða áhugi fyrir auknu sjálfstæði, sjálfræði og sjálfstjórn.

 

 

 


mbl.is Spennan í algleymingi í Skotlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skotar hugsa öðruvísi en Bretar. Sjálfir eru þeir miklir jafnaðarmenn en verða við núverandi ástand að beygja sig undir frjálshyggju Breta sem Thatcher innleiddi á sínum tíma.

Sjálfstæði Skota er því æskilegt. Þeir hafa fyrirmyndir í nágrönnum sínum á Norðurlöndum sem flest eru með svipaðan íbúafjölda og Skotland. Þetta eru mestu fyrirmyndarríki í heiminum byggð upp af jafnaðarmennsku sem Skotar aðhyllast.

Það er þó hætt við að Skota skorti kjarkinn og óttist um of alvarlegar afleiðingar slíkra breytinga sem krefjast viss aðlögunartíma. Þeir vita hvað þeir hafa en eru ekki vissir um hvað þeir fá.

Fyrir Íslendinga er athyglisvert að sjá að ekki hvarflar annað að Skotum en að vera áfram í ESB eftir að sjálfstæði er náð. Í þeirra augum eins og annarra Evrópubúa hefur ESB-aðild ekkert með sjálfstæði að gera.

Skotar gera sér grein fyrir að þátttaka í samvinnu Evrópuþjóða á jafnréttisgrundvelli er nauðsynleg til að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum. Slík samvinna er enn nauðsynlegri fyrir Íslendinga vegna ónýtrar krónu. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.9.2014 kl. 11:04

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að þegar upp er staðið sé ekki eins mikill munur á Skotum og Englendingum, en vissulega mótar umhverfið og aðrir hlutir eins og trúarbrögð þjóðir til lengri tíma.

Persónulega hef ég ekki sterkar skoðanir á því hvort að Skotland eigi að lýsa yfir sjálfstæði eður ei, en finnst kosningin til fyrirmyndar.

Það er margt merkilegt við hvernig Skotar hyggjast standa að sjálfstæði sínu.  Það er alveg rétt að þeir vilja vera í "Sambandinu" áfram, en jafnframt er euroið ekki fyrsti kostur þeirra í gjaldmiðilsmálum, það er Breska pundið.  Euroið var það í eina tíð, en ekki lengur.

Í hugum margra Evrópubúa hefur "Sambandið" mikið að gera með sjálfstæði, en það eru fáir jafn hreinskilnir og Jurgen Liigi, fjármálaráðherra Eistlands, sem sagði það hreint út að Eistlendingar hefðu ekki ekki efni á fullu sjálfstæði.

Það er alltaf virðingarvert þegar stjórnmálamenn tala af hreinskilni og mættu margir þeirra taka Liigi sér til fyrirmyndar.

Samvinnan innan "Sambandsins" er ekki á jafnréttisgrundvelli, sem hefur auðvitað komið æ betur í ljós undanfarin misseri.  Þar með er ég ekki að segja að slíkt sé óeðlilegt, það er fyllsta réttlæti fyrir því að stærri þjóðirnar hafi meira að segja.

Það hafa fáir mælt gegn samvinnu Evrópuþjóða, en hvort að samruni sé nauðsynlegur og hve víðtæk hún á að vera, hefur vissulega verið deiluefni.

Sú vegferð sem "Sambandið" er á nú, mætir vissuleg vaxandi andstöðu víð um Evrópu, að vonum, að mínu mati.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 12:20

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er þetta ekki soldil sýndarmennska? Ef þeir vilja hafa pundið áfram eru þeir að segja að þeir ætli ekki að hafa sinn sjálfstæða gjaldmiðil ( væri þessvenga nær fyrir þá að taka upp evru og vera aðilar að ESB og hafa þannig smá áhrif á gjaldmiðilinn). Svo yrðu þeir áfram partur af krúnunni eins og Kanada og Ástralía. Og ekki er nú líklegt að yrðu landamæri á milli Skotlands og Englands. Soldið klént finnst mér alltsaman.

En já, fyrirmyndar kosningabarátta og kosningar og allt í kringum það, enda hefði annað komið á óvart hjá fólki sem telst vera Bretar.

Kristján G. Arngrímsson, 18.9.2014 kl. 13:10

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það eru svo mörg "EF", sem er ósvarað.  Eitt af þeim stærri er hvort að Skotland, sem sjálfstætt ríki, myndi halda aðild sinni að "Sambandinu".  Er almennur vilji fyrir því innan "Sambandsins"?

Myndu Spánverjar stoppa það?  

Ef Skotland heldur ekki aðild sinni að ESB, verða sjálfkrafa býsna "ströng" landamæri á milli Skotlands og Englands.  England gæti ekki gert fríverslunarsamning við Skotland.  Það yrði "Sambandið" að gera.

Ef Skotland héldi aðildinni (Spánverjar gæfu eftir), hve lengi gætu þeir þurft að bíða eftir að taka upp euro?  Myndu 18 mánaða samningaviðræðurnar (um slitin) duga til þess?

Það er einmitt vegna þessara "tæknilegu" atriða sem ég held að Skotar muni segja NEI.

En það verður ábyggilega mjótt á mununum.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 13:20

5 identicon

G. Tómas, með inngöngu í ESB væru Íslendingar að nota fullveldið til að bæta eigin hag. Við myndum taka fullan þátt í öllum ákvörðunum innan ESB með hinum þjóðunum.

Þetta væri því að vissu leyti endurheimt fullveldis því að í dag erum við bundin slíkum ákvörðunum með EES samningnum án þess að vera i aðstöðu til að hafa þar nein áhrif.

Í raun er ekki mjög  mikill munur á áhrifum þjóða innan ESB vegna stærðar þeirra. Allar eru þær mjög langt frá því að hafa meirihluta og þurfa því að reiða sig á stuðning annarra. Það getur hent allar þjóðirnar að hennar atkvæði ráði úrslitum.

Það sem ræður mestu um áhrif þjóða innan ESB er fólkið sem þar velst til starfa. Fyrir utan að sumir eru til forystu fallnir dregur það verulega úr áhrifamætti þjóðar að velja á Evrópuþingið andstæðinga ESB.

Til að dreifa valdinu og koma í veg fyrir að nokkrar stærstu þjóðanna ráði of miklu í krafti atkvæðamagns í ráherraráðinu eru ákvæði um lágmarksfjölda þjóða 55% til að fá mál samþykkt auk þess sem krafist er aukins meirihluta atkvæða.

Á Evrópuþinginu skiptast þingmenn milli þjóða ekki í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Ísland fengi sex þingmenn sem er lágmark. Danir hafa td þrettán þingmenn eða aðeins rúmlega tvöfalt meira en við þó að þeir séu 17-18 sinnum fjölmennari.

Vegna þessa yrði atkvæðamagn Íslands 12-13 sinnum meira en ef hlutfallslegur íbúafjöldi réði.

Það er þó bæði rangt og villandi að segja að Danir hefðu rúmlega helmingi meiri áhrif í ESB en við eftir inngöngu. Þeir með sín rúmlega 2% atkvæða þurfa tæplega 48% stuðning annarra ríkja meðan við þurfum rúmlega 49% frá öðrum ríkjum. Þetta er allur munurinn.

Í framkvæmdastjórn ESB, þar sem lagafrumvörp eru undirbúin, er einn fulltrúi frá hverri þjóð. Í ráðherraráðinu sem markar stefnuna sitja ráðherrar ríkjanna. Þar eru flest mál afgreidd samhljóða. Það er því ljóst að mestu máli skiptir áhrif fulltrúa þjóðanna en ekki stærð þeirra.

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.9.2014 kl. 15:19

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er tálsýn að halda því fram að hin smáu ríki hafi jafn mikil völd og áhrif og hin stærri.

Það hefur enda komið í ljós með afgerandi hætti í Eurokreppunni.  Það var ljóst hverjir réðu ferðinni þegar skipt var um stjórn í Grikklandi og á Ítalíu.  Það var ljóst hverjir réðu ferðinni þegar Írar voru látnir taka á sig skuldir þarlendra banka.

Það var líka ljóst hverjir réðu ferðinni þegar ákveðið var hvernig falla bankakerfisins á Kýpur var ákveðið.

Þingmenn á Evrópusambandsþinginu telja ekki mikið, enda hefur það afar takmörkuð raunveruleg völd, þó að það hafi aðeins betur náð að festa sig í sessi.

Það er engin spurning að fullveldi tapast með inngöngu í "Sambandið", en hvort að mönnum kann að þykja það réttlætanlegt er önnur saga.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 15:56

7 identicon

Það er rangt að Írar hafi verið látnir taka á sig skuldir þarlendra banka. Þetta var þeirra eigin ákvörðun. Írar mátu það þannig að það kæmi ekki til greina að láta fjármálakerfið hrynja. Afleiðingarnar yrðu of skelfilegar.

Íslendingar hefðu farið sömu leið og Írar ef þeir hefðu getað það. Reynt var að fá lán til þess að halda bönkunum gangandi en það var alls staðar komið að lokuðum dyrum. Hrun var því óhjákvæmilegt.

Áróðrinum hér heima var snúið á hvolf. Í stað þess að segja að Írar gátu bjargað sínum bönkum vegna þess að þeir fengu aðstoð frá ESB er því haldið fram að ESB hafi komið i veg fyrir að þeir færu íslensku leiðina rétt eins og að hún væri æskileg. 

Þó að Merkel og Sarkozy hafi verið í fremstu víglínu þegar mest á reyndi var þeim einfaldlega falið það af ESB. Það hefðu vel getað verið einhverjir aðrir.

Það sýnir vel hve áhrif lítilla landa geta orðið mikil að fulltrúi næst minnsta ríkisins, Lúxemborgar,  er nú formaður framkvæmdastjórnar ESB og fulltrúi minnsta ríkisins fer nú aftur fyrr sjávarútvegsmálum en Malta fór með þau mál fyrir nokkrum árum.

Áhrif Evrópuþingsins eru auðvitað mikil. Það getur stöðvað öll mál ráðherraráðsins nema mjög viðkvæm mál sem koma eingöngu til kasta þess.

Annars hef ég ekki haldið því fram að áhrif minnstu ríkjanna séu jafnmikil og hinna stóru heldur að val á fulltrúum skipti meira máli en stærð landanna.

Þannig geta áhrif Íslands orðið mikil ef við berum gæfu til að velja rétt fólk eða lítil ef óhæft fólk velst til starfa.

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.9.2014 kl. 20:52

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ Ásmundur "Opinberu útgáfurnar" sem virðist vera býsa vel að þér í, eru eitt.  Oft er veruleikinn nokkur annar.

Þýsku orðin "real" og "macht", öðlast t.d. annað líf og merkinu þegar orðinu pólítik er bætt fyrir aftan.

Auðvitað ákváðu Írar þetta "sjálfir".  Rétt eins og Grikkir ákváðu það "sjálfir" að hætta við að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og skipta um ríkisstjórn.  Ítalir ákváðu það líka alveg "sjálfir" að skipta um ríkisstjórn.

Juncker er þar sem hann er vegna þess að það tókst að sannfæra Merkel um að það væri besti kosturinn.  

Talandi um formanna framkvæmdastjórnar, þá er Barroso, gott dæmi um að stjórnmálaleg "öfga" fortíð þarf ekki að þvælast fyrir einstaklingum við að ná frama eða að þeir séu taldir samstarfshæfir. Ég held reyndar að hún hafi ekki haft áhrif á frammistöðu hans, en hvort hún var góð er dæmt eftir öðrum hlutum.

Ef þú hefur ekki lesið greinaflokk Peters Spiegel, um hvernig euroinu var bjargað, þá er það verulega athygliverð lesning.

Þetta er auðvitað ekki hinn "hin eina sanna útgáfa", en skratti góðar greinar.  FT verður seint sakað um að vera andsnúið hinu "Evrópska verkefni", og er talið því frekar hliðhollt.

En auðvitað vita leikmenn eins og ég aldrei til hlýtar hvernig hlutirnir gerðust.  Við verðum að týna saman búta héðan og þaðan og oftar en ekki hreinlega að ákveða hverjum við trúum, því frásagnir eru það mismunandi.

En að fara með "opinberu útgáfuna" eins og möntru, eins og mér finnst þú gera, hef ég löngu misst trú á.

En það lifir hver fyrir sig.

G. Tómas Gunnarsson, 19.9.2014 kl. 04:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband