NATO heldur enn trúverðugleika sínum, en ...

NATO heldur enn trúverðugleika sínum og hefur líklega gert meira en nokkurt annað fyrirbrigði til þess að tryggja frið í Evrópu á undanförnum áratugum. 

Það sést enda hve miklar vonir (og einnig að hluta til kröfur) ríki bandalagsins í A-Evrópu hafa til þess.  Þau ríki bandalagsins sem eru einnig í Evrópusambandinu, treysta frekar á sáttmála NATO en styrkleika "Sambandsins".

En vissulega er trúverðugleikinn vandmeðfarinn og það má með rökum halda því fram að hann hafi beðið nokkurn skaða af "ævintýrum" bandalagsins í fjarlægum löndum.  Eftir á að hyggja hefði ef til vill verið betra að koma á fót öðrum stofnunum til að annast slíkt.

En eftir fall Sovétríkjanna og upplausn Varsjárbandalagsins, fannst mörgum að NATO væri komið í tilvistarkreppu og skjóta þyrfti frekari stoðum undir tilvist þess.

En varnir fara ekki úr tísku, eða verða óþarfar þó að fríðvænlegra kunni að horfa um stundarsakir.

Það hefur svo sannarlega komið í ljós undanfarna mánuði og má ef til vill segja að Putin og Rússland hafi minnt NATO á sinn upprunalega tilgang með eftirminnilegum hætti.

Sem sé að tryggja varnir og öryggi bandalagsríkjanna.

Þessi áminning frá Rússum hefur einnig orðið til þess að ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort að of rösklega hafa verið gengið í því að stækka bandalagið og hvort að grunnverkefni þess sé að verða því ofvaxið.

Það hefur sömuleiðis orðið till þess að ekki líst öllum of vel að Finnar og Svíar gangi í NATO, því þeir hafi takmarkað fram að færa en auki verulega á skyldur bandalagsins.

Sú tilhneyging Evrópuþjóða að draga sífellt úr úgjöldum til varnarmála, en kalla því sterkar eftir nærveru Bandaríks herliðs þegar eitthvað á bjátar, kann einnig að draga dilk á eftir sér til lengri tíma litið. 

Það hefur verið óopinbert viðmið innan NATO að aðildaríki verji ca. 2% af þjóðarframleiðslu til varnarmála. Í dag eru fjögur ríki innan bandalagsins sem ná því marki, Bandaríkin, Bretland, Grikkland og Eistland.

Það hlýtur að vekja upp spurninguna hvaða kröfur ríki geti gert til NATO, ef þau gera engar kröfur til sjálfs sín og vanrækja varnir sínar?

En kjarni NATO er sú grein sáttmála þess sem segir að öllum aðildarríkjum sé skylt að koma öðrum aðildarríkjum til hjálpar ef á það er ráðist.  Að árás á eitt ríki þess, jafngildi árás á þau öll.

Á meðan aðildarríkin standa að baki þeirri grein heldur NATO trúverðuleika sínum.  Um leið og hún væri brotin væri trúverðugleikinn fyrir bí og bandalagið ónýtt.

En samtíminn sýnir að tími NATO er ekki liðinn og mun aldrei líða undir lok. Þó friðvænlega kunni að horfa um stundarsakir.  Slíkt er engin trygging inn í framtíðina.

Það verður alltaf þörf fyrir traustar varnir, bandamenn og samstöðu.


mbl.is Skortir NATO trúverðugleikann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

" NATO heldur enn trúverðugleika sínum og hefur líklega gert meira en nokkurt annað fyrirbrigði til þess að tryggja frið í Evrópu á undanförnum áratugum. "

NATO var stofnað sem varnarbandalag.

" Það hefur svo sannarlega komið í ljós undanfarna mánuði og má ef til vill segja að Putin og Rússland hafi minnt NATO á sinn upprunalega tilgang með eftirminnilegum hætti."

Þarna ertu líklega að minnast á Úkraníu sem á ekki aðild að NATO.

Hvernig útskýrir þú ummæli Victoria Nuland " fuck EU " ?

L.T.D. (IP-tala skráð) 30.6.2014 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband