Auðvitað geta Íslendingar lækkað matarverð með pólítískri ákvörðun

Það er staðreynd að tollar og vörugjöld eru gjarna há á Íslandi, ekki bara á matvælum heldur af fjölmörgum öðrum vöruflokkum.

Öllu þessu er auðvitað hægt að aflétta.  Hvenær sem er og með stuttum fyrirvara.  Ef til þess er pólítískur viljil.

Við getum líka lagt niður virðisaukaskatt.  Ekki bara á matvælum, heldur á öllum vörum.  Við getum lækkað tekjuskatta um helming, eða fellt þá niður.  Ef til þess er pólískur vilji.

Við getum líka skipað kaupmönnum að vera aðeins með 10% álagningu.  Ef til þess er pólítískur vilji. 

Eins og núverandi ríkisstjórn (og ýmsar á undan henni) hefur sýnt er ekkert mál að hækka skatta, og gefa undanþágur frá þeim.  Til þess þarf aðeins pólítískan vilja.

En auðvitað kemur að því að það þarf að horfast í augu við breytingarnar.  Stjórnmálamenn geta stundum sloppið við slíkt, en það er aldrei í boði fyrir almenning.

Þannig er ekkert mál að fella niður alla tölla, öll vörugjöld og virðisaukaskatt af matvælum.  Annað hvort allt, eða hluta af þessu. Til þess þarf ekkert nema pólítískan vilja.

Það þarf ekki að ganga í nein bandalög eða semja við einn né neinn.  Þetta er einfaldlega hægt að ákveða á Alþingi.

Til þess þarf pólítískan vilja.  Það þarf líka að horfast í augu við þær sem breytingar sem þetta getur og myndi valda.

Auðvitað myndi þetta þýða lægra matarverð.  Þetta myndi líka þýða að tekjutap ríkissjóðs.  Því þó að umsvif og velta myndu nokkuð örugglega aukast eitthvað, eru ákveðin takmörk fyrir því hvað Íslendingar geta borðað.

Hversu mikið tap ríkissjóðs yrði hinum megin í jöfnunni, það er að segja í minni atvinnu og skyldum og sköttum af því, færi auðvitað allt eftir hvernig atvinnuástand væri í landinu og hvernig slíkt horfði til frambúðar.  Slíkt færi svo líka eftir því hvort að hinn pólítíski vilji krefðist mótaðgerða, til handa þeim sem færu illa út úr breytingunni.

Þar sem niðurfelling tolla og vörugjalda hefði hins vegar án efa góð áhrif, væri á þeim sviðum þar sem bein samkeppni við innlendar vörur er ekki til staðar. Það myndi stórauka verslun innanlands og gæti vegið upp það þá tekjuminnkun sem hið opinbera yrði fyrir hvað varðar tolla og vörugjöld.  Jafnframt yrði hagur almennings betri.

Það er engin þörf á því að tengja þessa umræðu við Evrópusambandið.  Það er hægt að flytja inn matvörur frá fjöldanum öllum af öðrum löndum.  Íslendingar geta flutt inn lambakjöt frá Ástralíu og Nýja Sjálandi.  Íslendingar geta flutt inn nautakjöt frá löndum S-Ameríku, s.s. Paraguay og Brasilíu.  Íslendingar geta flutt inn lamakjöt frá Perú og kartöflur frá Kanada.  Svo er auðvitað framleitt mikið af fínum matvörum innan "Sambandsins".  Mér dettur einna fyrst í hug hinn stórkostlegi vínberjasafi sem Frakkar láta gerjast svo skemmtilega.

Íslendingar geta reynt með fríverslunarsamningum að opna markaði báðar leiðir við fjölmörg lönd.  Margt bendir til þess að blómaskeið fríverslunarsamninga sé að renna upp, eftir að "alheimslausnir" hafa endað í hálfgerðum öngstrætum.

Hitt er svo, að ég held að ekki verði horft framhjá þeirri staðreynd að full þörf er á þvi að leita leiða til að gera Íslenskan landbúnað samkeppnishæfari og sjálfbærari.

En auðvitað er best ef Íslendingar standa í því sjálfir og með þeim tímamörkum sem þeir setja sér sjálfir.  Til þess þarf auðvitað pólítískan vilja, en ekki síður pólítískan þrýsting frá kjósendum.

Það verður til dæmis ekki séð að núna sé neinn þrýstingur af hálfu kjósenda, um að stjórnmálamenn fari í róttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

En það sem Íslendingar þurfa eru stjórnmálamenn eru reiðubúnir til að boða breytingar, bera þær undir kjósendurm, framkvæma þær og horfast í augu við kjósendur á eftir.

Íslendingar þurfa ekki stjórnmálamenn sem hyggjast eða vilja fela sig á bakvið frasa á borð við:  En svona var þetta ákveðið í Brussel.

P.S.  Svo má velta fyrir sér þeim málflutningi "Sambandssinna" að ef Ísland gangi í "Sambandið", lækki matvælaverð á Íslandi, en hagur bænda verði jafngóður eða betri en áður vegna styrkja sem komi "frá Brussel".  Nú er það viðurkennd staðreynd, að Íslendingar myndu leggja til "Sambandsins" meira en þeir myndu fá. 

Hver er það þá sem borgar bættan hag bænda? Er það sami almenningur og nýtur lægra matvælaverðs?

Enn fremur er rétt að hafa það í huga, af því að margir vilja tengja þessa umræðu við "Sambandsaðild", að fyrir ekki löngu kom í ljós að "matarkarfan" var ódýrari á Íslandi, en í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, en nokkurn vegin jöfn í verði og í Finnlandi.

Nú eru Danmörk og Svíþjóð, "Sambandslönd".  Er þá hætta á því að "matarkarfan" myndi hækka á Íslandi, ef gengið yrði í "Sambandið"?


mbl.is „Það varð allt vitlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Borgþór Ragnarsson

Það er ekkert sem segir að allt þetta tap þurfi að bæta upp eingöngu með auknum matarinnkaupum. Aukapeningurinn getur allt eins farið í föt og annað og örvað því hagvöxt á fleiri stöðum. Þar að auki myndi fólk leyfa sér meira þegar það fer út í matvörubúðir ef verðið væri lægra.

Mbkv.

Ragnar Borgþór Ragnarsson, 31.3.2013 kl. 08:52

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Vissulega er það rétt.  Það má gera ráð fyrir því að hluta til að það er sterk tilhneyging til þess að eyða því sem er á milli handanna og jafnvel ríflega það.

Sem aftur leiðir til þess að innflutningur myndi líklega aukast verulega, nema að innlend framleiðsla myndi ná til sín stærstum hluta aukningarinnar.

Hvernig það myndi svo standa skila sér í vöruskiptajöfnuði Íslendinga er svo önnur saga.

Það eru býsna margar breytur í jöfnunni.

G. Tómas Gunnarsson, 31.3.2013 kl. 08:58

3 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Hér er fróðleg lesning ef menn hafa áhuga á að kynna sér málin.

http://bondi.is/pages/23/newsid/2138

http://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5912

Högni Elfar Gylfason, 31.3.2013 kl. 14:37

4 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Vörugjöld eru ekkert annað en aðferð til þess að vernda innlendan iðnað og þjónustu. Þeim er beitt þegar búið er að semja um tollafríðindi á milli landa, eins og t.d. í fríverslunarsamningum.

Burt séð frá tollum og vörugjöldum þá er það einfaldega staðreynd að íslenskir kaupmenn eru að verðleggja sig út af markaði. Það er ekki eðililegt að keyptir séu skór á netinu á 16 þúsund heim komnir með öllum gjöldum og jafnframt búið að greiða virðisaukaskatt í því landi sem verslað var við.

Kaupmenn þurfa aðeins að hugsa líka, ekki bara tuða yfir verslun landans erlendis.

Sindri Karl Sigurðsson, 31.3.2013 kl. 15:40

5 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Já gleymdi víst að minnast á verðið hér heima en það er aðeins um 40 þúsund úti í búð.

Sindri Karl Sigurðsson, 31.3.2013 kl. 15:43

6 identicon

Okurverð á Íslandi er ekki tollum að kenna, heldur ofurálagningu íslenskrar verslunar.

Fólk ætti að kynna sér sambærilegar vörur í Evrópu, sem bera samskonar tolla og á Íslandi, s.s. á fatnaði sem bera 15% tolla.

Verðið á Íslandi er nánast undantekningalaust meira en helmingi hærra, þrátt fyrir sömu tolla. Hefur nákvæmlega ekkert með tolla að gera, heldur eingöngu ofurálagningu verslunar.

Hilmar (IP-tala skráð) 31.3.2013 kl. 19:14

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er nú ekki sammála því að vörugjöld séu aðeins til þess að vernda innlendan iðnað og þjónustu.  Oft á tíðum eru þau innlendri þjónustu fjötur um fót.

Til dæmis eru oft há vörugjöld á alls kyns rafmagns og rafeindatæki.  Varla er það til verndar innlendum iðnaði.  Þvert á móti hefur það gert það að verkum að verslun innanlands dregst saman, vegna þess að mun hagstæðara er að kaupa "gadgetin" í utanlandsferðum.  Nokkur "gadget" geta skilað álíka sparnaði og utanlandsferðin kostaði.

Reyndar getur til dæmis 1l af vodka sparað þeim sem ferðast erlendis því sem næst 5.500 kr, miðað við það verð sem er í gildi á Íslandi.

Mörg lítil rafeindatæki geta fært sparnað upp á margfalda þá upphæð.

En það er engin ástæða heldur til þess að gera lítið úr þætti kaupmanna.  Þeir eru vissulega á litlum markaði, en það eru ýmsar vörur sem eru tollalausar, en þó gjarna dýrari á Íslandi en víða annars staðar.

G. Tómas Gunnarsson, 31.3.2013 kl. 19:22

8 Smámynd: Elle_

Ef maður kemur með eldgamlan og notaðan bandarískan bíl með í búslóðagámi, bíl sem fyrir löngu var búið að borga alla skatta og skyldur af erlendis, og er rukkaður um himinhátt vörugjald (gamall tollur kallaður vörugjald) fyrir að fá að keyra á honum á íslenskum götum og vegum, getur það ekki verið til að verja innlendan iðnað.  Það er enginn bílaiðnaður á Íslandi.

Elle_, 31.3.2013 kl. 23:28

9 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Nei auðvitað eru vörugjöldin ekki að vernda einn eða neinn, einungis til að passa upp á að ríkiskassinn fá ígildi tollsins samt sem áður.

Rafeindatæki, sérstaklega tölvuíhlutir, eru á samkeppnishæfu verði hér heima m.v. það sem gerist á netinu. En fatnaður, skór, skíði, varahlutir í bíla osfrv. eru án tengingar við raunveruleikann.

Tölvukubbur í gamla bíldruslu kostar á við verð bíldruslunnar hér heima en undir 10 þús. í Póllandi, svo eitthvað sé nefnt.

Sindri Karl Sigurðsson, 31.3.2013 kl. 23:33

10 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Hmm. þetta kemur allt eitthvað skakt á blað hjá mér, trúlega kominn með sólsting eftir alla útiveruna.

Vörugjöldum er beitt í stað innflutningstolla, oftast til að vernda innlenda framleiðslu. Það má ekki gleyma því að á Íslandi var ýmislegt framleitt í denn, t.d. teppi, raftæki osfrv. Löngu liðin tíð en vörugjöld eru eins og gott lím, losnar ekki svo glatt þrátt fyrir að iðnaðurinn, sem var verið að vernda, sé löngu liðinn undir lok.

Sindri Karl Sigurðsson, 31.3.2013 kl. 23:43

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka ykkur öllum fyrir innleggin.

Ég fylgist ekki svo náið með verðlagi á Íslandi lengur, en ég veit að Íslendingar versla gríðarlega erlendis, sérstaklega auðvitað smáa og dýra hluti.

En ég vil taka það fram, að ég er mikill fylgismaður þess að fella niður tolla og vörugjöld á Ísland (og sem víðast).

Það er því ástæða til þess að fagna umræðu um það.

En auðtvitað má deila um hvernig er best að standa að því.

Er best að höggva þetta af allt á einu bretti, eða afnema í áföngum o.s.frv.?

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki mest aðkallandi í matvælageiranum, en aðrir eru sjálfsagt annarar skoðunar.

G. Tómas Gunnarsson, 1.4.2013 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband