Afgerandi meirihluti hafnar "Sambandsaðild". Meirihluti vill slíta viðræðum

Enn og afturer könnun sem sýnir að yfirgnæfandi meirihluti Íslenskra kjósenda hafnar aðild Íslands að "Sambandinu".
 
Sama könnun sýnir að meirihluti (þó naumur sé) þeirra sem taka afstöðu vill að aðildarviðræðum við "Sambandið" verði slitið.
 
Þetta skýrir ef til vill, í það minnsta að hluta til, hvað "Sambandssinnar" hafa verið taugatrekktir og illa fyrir kallaðir undanfarna daga.
 
Það gengur ekkert að vinna "Sambandinu" fylgi á meðal Íslendinga.  Lýðræðisleg ákvörðun afgerandi meirihluta landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að hafna alfarið aðild að "Sambandinu" fer óstjórnlega í taugarnar á þeim.
 
Þeim er það ljóst að sterk staða Sjálfstæðisflokks sem þjóðmálaafls, gerir aðild að Evrópusambandinu afar ólíklega, á meðan flokkurinn stendur eindregið á móti henni.
 
Ekki stekkur þeim heldur bros á vör þegar þeir horfa til Framsóknarflokksins.  Hann sækir í sig veðrið sem aldrei fyrr.  Nú þegar flestir "Sambandssinnarnir" hafa yfirgefið flokkinn, vegna þess að þeir gátu ekki ráðið stefnunni, hefur Framsóknarflokkurinn betri byr en um áratugaskeið og allt stefnir í stóran kosningasigur.
 
Það segir ef til vill meira um ástandið í herbúðum "Sambandssinna" en margt annað, að "bjartasta vonin" þetta árið eru Vinstri græn.
 
Þó enn sé all nokkuð í kosningar benda flestar kannanir til þess að meirihluti þingmanna á komandi kjörtímabili verði andsnúinn aðild Íslands að "Sambandinu".
 
Auðvitað snúast þingkosningarnar ekki um aðild eða ekki aðild, það eru svo mörg önnur mál sem móta skoðanir kjósenda og hafa áhrif á hvernig þeir verja atkvæði sínu.
 
En afstaðan til Evrópusambandsins er vissulega eitt af stórum málunum, eins og það á og þarf að vera.  Það er því áríðandi fyrir bæði frambjóðendur og kjósendur að afstaða frambjóðenda til þessa stóra máls sé skýr.
 
Ég hvet sömuleiðis kjósendur til að hafa afstöðu flokka og frambjóðenda ofarlega í huga þegar þeir kjósa í vor.
 
 

mbl.is Meirihluti áfram andsnúinn aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég skil ekki alveg þessa stæku ofstopaandstöðu gegn ESB hjá þér? Þetta minnir dálítið á kaldastríðsárin þegar sumir misstu sig alveg í hatri á kommagrýlunni.

Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2013 kl. 08:13

2 identicon

Esb dindlar kalla aðra ofstopaandstöðumenn. Háværi minnihlutinn mun tapa þessu máli eins og öðrum undanfarið.

GB (IP-tala skráð) 11.3.2013 kl. 08:21

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sko, þrasið komið í uppnefnagírinn - "ESB-dindlar" segir í nafnlausu kommenti hér fyrir ofan. Eins og ég segi, nákvæmlega einsog á kaldastríðsárunum. Fyndið.

Annars bara eins og þeir segja í útlöndum: I rest my case.

Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2013 kl. 08:32

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Persónulega tel ég mig ekki vera með "stæka ofstopaandstöðu" gegn "Sambandinu".

En auðvitað er ég ef til vill síst fallinn til þess að dæma í eigin sök.

En í hverju er hinn stæki ofstopi falinn?

Auðvitað er þetta eitt allra stærsta pólítíska mál samtímans á Íslandi.  Það er mjög eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir.

Það má reyndar benda á að að andstaða gegn "Sambandinu" eykst hröðum skrefum í mörgum aðildarlöndum þess.

Ef til vill finnst sumum hún "stæk og ofstopafull", en svo finnst mér ekki.  Hún brýst ekki hvað síst fram í lýðræðislegum kosningum eins og á Ítalíu, og stofnun nýs stjórnmálaflokks í Þýskalandi.

En það er hins vegar að verða æ algengara á Íslandi að fram stígi menn sem ásaka alla þá sem eru ekki sammála þeim um að vera "öfgamenn", "harðlínumenn", "stæka" eða "ofstopafulla", "valdaræningja" og þar fram eftir götunum.

Sjálfum þykir mér það vera vott um mikinn ofstopa að halda slíku fram.  En það sýnir ef til vill best hvað útsýnið er mismunandi, eftir því á hvaða sjónarhólum menn standa.

G. Tómas Gunnarsson, 11.3.2013 kl. 08:44

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að ofstopinn eigi helst heima hjá ESB sinnum. Oftast eru hnýtingar þeirra á þennan veg en sjaldnast ef nokkurntíman er málefnið rætt eða greinum svarað með rökum. Enda vaxa þau víst ekki á trjánum þessa dagana.

Skoðum nú t.d. Ofstæki prestanna tveggja sem yfirgáfu sjálfstæðisflokkinn af því að meirihluti flokksins vildi ekki beygja sig undir vilja þeirra. Þar voru Hitler og Stalín dregnir fram, hinar myrku miðaldir og bókabrennur. Allt vegna þess að menn vildu vera dyggir lýðræðinu og virða þann meirihluta sem nefndur er í þessari grein.

Sömu stóryrði hafa einnig fallið af trúboðum stjórnlagaráðsins umboðslausa og agenta þeirra á þingi af því að menn vilja ekki flanað að þessari ESB aðlögun sem stjórnarskrárfrumvarpið er.

Frekja og ofstæki, stóryrði, gremja og dónaskapur er aðalsmerki þess sem tapar og rennur á flótta. Fólks sem þolir ekki að hafa rangt fyrir sér í öllu sem það setur fram.

Það er nú samt bara raunin.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2013 kl. 09:11

6 Smámynd: Elle_

Enginn 'stækur ofstopi' var sjáanlegur í pistlinum.  G. Tómas Gunnarsson hefur einmitt verið vægur í lýsingum sínum á þessu yfirstjórnarsambandi og ofstopanum  að koma okkur þangað inn, óviljugum. 

Ekkert er hinsvegar ofstopalegt við að lýsa ofstopa og öfgum þeirra sem valta yfir okkur hin á skítugum skóm og haga sér eins og öfgamenn.  Ef þeir haga sér eins og öfgamenn, eru þeir væntanlega öfgamenn.  Það má segja það. 

Elle_, 11.3.2013 kl. 09:27

7 Smámynd: Rafn Guðmundsson

sennilega kann ég ekki nóg á þessar skoðanakannanir en mér sýnist á þessari (pdf skjalið) að flestir svarand séu frá landsbyggðinni

Höfuðborgarsvæðið 35,8%

Landsbyggðin 64,2%

og þá er kannski rétt - er eitthvað að marka þessa

Rafn Guðmundsson, 11.3.2013 kl. 11:30

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er nú ekki neinn sérstakur sérfræðingur í skoðanakönnunum. 

En það þarf ekki nema að lesa fjjöldann við hverja spurningu eftir búsetu, eins og t.d. þetta sem ég kópíeraði frá spurningu tvö, en það er svipað við allar spurningarnar.

Búseta *
Reykjavík
314
Nágrannasv.félög R.víkur
197
Önnur sveitarfélög
292
 
Enda er það svo að þótt að sjálfsagt megi deila á Gallup fyrir ýmislegt, myndu þeir varla vera sekir um slík byrjendamistök

G. Tómas Gunnarsson, 11.3.2013 kl. 11:51

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er enginn ofstopi fólginn í því að vera andvígur aðild að ESB. Það er ýmislegt miður gott við slíka aðild, en líklega er þó meira sem er jákvætt við hana.

Það sem ég átti við með "ofstopa" var sífelld og algjörlega einhliða breiðsíða gegn Evrópusambandinu og að því er virðist eindreginn vilji til að sjá allt slæmt við það og vera alls ekki opinn fyrir því að andstæðingar sínir (þ.e. þeir sem eru hlynntir ESB) kunni að hafa eitthvað til síns máls.

Ég var semsagt ekki að tala um inntak afstöðunnar heldur framsetningu og form. Það er það sem einkennist af ofstopa, finnst mér. En kannski finnst mér bara alltaf pólitík vera ofstopafull. Þess vegna hef ég aldrei getað fundið mér stað í henni og aldrei getað fests í flokki.

En ég fór að hugsa um það um daginn þegar ég las viðtal við Matthías Jóhannessen, minn fyrrverandi ritstjóra, þar sem hann talaði um kaldastríðsárin og hörkuna í umræðunum þá gagnvart Sovétinu, að umræðan núna gagnvart ESB væri að falla í sama farið. Mér finnst sumt af því sem fram hefur komið í þessum þræði hérna styðja þessa skoðun mína, sbr. upphrópanir um ESB-dindla og það sem Jón Steinar segir hér að ofan. 

Jæja, ég ætla ekki að ræða þetta frekar.

Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2013 kl. 22:10

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki eðlilegt að menn leggi áherslur á það sem er þeim skeinuhætt við inngöngu í sambandið? Það sem er jákvætt er eðli málsins samkvæmt ekki áhyggjuefni. Er þ breiðsa gegn sambandinu? Áttu ekki vara við,aðþér finnist óæskilegt að hið neikvæða sé dregið fram Kristján? Er ekki nog að sambandið sjái sjálft um fagurgalann. Evrópustofa hefur séð ágætlega um það auk óþreytandi trúboða úr stétt embættismanna sem virðast fá ómælt spaltapláss í blöðum og jafnvel heila fasta útvarpsþætti á kostnað hins opinbera.

Er ekki slagsan einmitt i hina áttina?

Jón Steinar Ragnarsson, 11.3.2013 kl. 22:25

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er engum alls varnað segir máltækið og á það vissulega við um Evrópusambandið eins og alla og allt annað.

Margt gott hefur Evrópusambandið gert, en vissulega eru "pyttirnir" þar stórir.  Ég lít svo á að gallarnir við inngöngu Íslands í "Sambandið" séu miklu stærri en kostirnir.  En það er misjafnt hvernig einstaklingar meta hlutina.

Ég held að þú miskiljir ekki hvað síst þann vettvang sem blog og aðrir keimlíkir hlutir eru.

Ég geri enga tilraun til þess að greina hlutina á akademískan hátt, setja fram kosti og galla aðildar og vega þau og meta og komast að fræðilegri niðurstöðu.  Kysi ég slíkt yrði það á öðrum vettvangi en bloggi.

Þér færi svo betur að reyna ekki að fela afstöðu þína með því að tala um hvað aðrir hafa sagt hér.

Ásakanir þínar beindust gegn mér, þeim sem skrifaði færsluna hér að ofan og færi best að þú reyndir því að útskýra í hverju hinn "stæki ofstopi" minn er falinn.

Hvernig lítið blogg einstaklings eins og mín getur svo talist "sífelld og algerlega einhliða breiðsíða", er svo eitthvað sem ég á erfitt með að skilja, en það styður ef til vill tilgátu mína um hvað "Sambandssinnar" eru orðnir taugatrekktir.

G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 04:01

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég byrjaði á því að segjast ekki alveg skilja ofstopann í ESB-andstöðu þinni, Tommi. Nú skil ég hann kannski betur, það er rétt að taka ber tillit til þess hver vettvangurinn og formið er, þ.e. blogg.

Um þinn meinta ofstopa sagði ég hér að ofan:

"Það sem ég átti við með "ofstopa" var sífelld og algjörlega einhliða breiðsíða gegn Evrópusambandinu og að því er virðist eindreginn vilji til að sjá allt slæmt við það og vera alls ekki opinn fyrir því að andstæðingar sínir (þ.e. þeir sem eru hlynntir ESB) kunni að hafa eitthvað til síns máls.

Ég var semsagt ekki að tala um inntak afstöðunnar heldur framsetningu og form. Það er það sem einkennist af ofstopa, finnst mér."

Um það sem aðrir hafa sagt hérna í kommentunum ætla ég ekki að tjá mig.

Afstaða min til aðildar byggist fyrst og fremst á því, að ég held að með því að Ísland gangi í sambandi dragi úr ofurvaldi útgerðarmanna og samtaka þeirra, sem vilja endilega halda í krónuna til að geta fellt hana eftir því sem þeim hentar, og þeir vilja hafa Sjálfstæðisflokkinn í stjórn til að geta pantað gengisfellingu þegar þeim hentar.

Og svo blasir auðvitað við að stjórnarskrármálið snýst líka um hagsmuni kvótaeigendanna (þessara sömu útgerðarmanna). Um þetta verður ekki deilt.

Með aðild að ESB gætu forsendur samfélagsins á Íslandi breyst til hins betra. Án aðildar verða þessar forsendur áfram þær sömu og þær hafa verið. Þær eru svosem alls ekkert slæmar og mér dettur ekki í hug að lífskjör mín muni rýrna mikið þótt engin verði aðildin, þannig að ég er alls ekki taugatrekktur yfir þessu. Og svo lít ég ekki á þetta sem keppni þannig að mér finnst ekki að ég sé að tapa og er ekki taugatrekktur heldur á þeim forsendum.

Kristján G. Arngrímsson, 12.3.2013 kl. 12:00

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég get ekki séð að þú hafir nefnt eitt né neitt í mínum skrifum sem dæmi um "stækan ofstopa". 

Andstaðan við "Sambandsaðild" er hins vegar staðföst og hefur ekki breyst.  Er það ofstopi?

Hinsv vegar er það alls ekki rétt að ég hafi aldrei vikið að "Sambandinu" á jákvæðum nótum.  Það þarf t.d. ekki að fara langt aftur í þessu bloggi til að finna eftirfarandi texta:

Evrópski seðlabankinn stóð sig nokkuð vel á síðastlíðnu ári.  Með réttum aðgerðum (s.s. að yfirlýsingu um að euroið yrði varið til síðasta blóðdropa (síðasta skattgreiðenda)), og mikilli innspýtingu fés, tókst að losa um snöruna sem herptist að Eurosvæðinu.

En það er heldur ekki eins og "Sambandið" hafi verið að sýna mikið af jákvæðum hliðum á undanförnum misserum.

Hvað finnst þér nú það helsta af því jákvæða sem hefur gerst í "Sambandinu" á undanförnum vikum?

Að má líklega eins segja að stjórnarskrármálið snúist um hagsmuni þeirra sem vilja ganga í "Sambandið", sbr. þessa frétt af Vísi.   Svo ég noti þin orð, þá verður um þetta ekki deilt.

Því er að mínu mati tálsýn að "Sambandið" bjóði Íslendingum betra hutskipti en þeir geta búið sér sjálfir.

Euroið hefur ekki fært nema örfáum ríkjum innan svæðisins velsæld.  Atvinnuleysi í hæstu hæðum, ný met slegin mánaðarlega.  Húsnæðiverð hrunið eftir húsnæðisbóluna sem euroið bjó til.  Laun lækkuð um tugi prósenta og landflótti stöðugur.

Það er rétt að hafa það í huga að Íslendingar geta rifist um fiskveiðiauðlinda af því að þeir ráða henni sjálfir.  Þeir geta breytt því sem þeir vilja.

Það sama gildir um flest ef ekki allt sem myndi breytast við "Sambandsaðild".

Evrópusambandið er ekki vinur "litla mannsins".  Það þarf varla annað en að skoða þær aðgerðir sem það hefur staðið fyrir á undanförnum misserum til að komast að þeirri niðurstöðu.  Enn ætla ég að grípa til þinna orða (aðallega til að stríða þér) og segja:  Um það verður ekki deilt.

En auðvitað er það umdeilanlegt.  Um það snúast mismunandi skoðanir.  Það er enginn "stóri sannleikur" í málinu, eins og þú virðist þó telja þig hafa höndlað.

Persónulega finnst mér drög að nýrri stjórnarskrá svo hræðileg að ég myndi aldrei vilja að þau yrðu samþykkt, og það hefur ekkert með auðlindaákvæði að ræða, en það er annað mál.

Hvorki ég eða mín fjölskylda á nokkuð undir því hvort að Ísland gengur í Evrópusambandið eður ei.  Það breytir engu um það að ég hef á því ákveðnar skoðanir.

Mér sýnast þínar skoðanir aðallega byggjast á uppgjöf.  Uppgjöf og þeirri skoðun að "betri og fínni" menn finnist í útlöndum.

Ég vona svo sannarlega að slík skoðun sé ekki um of útbreidd á Íslandi.  Þá fyrst er illa komið fyrir landinu.

G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 12:37

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta snýst ekki um fína menn í útlöndum. En ef útí það er farið má segja að það sem illa er komið fyrir Íslandi megi rekja til þess að gráðugir Íslendingar vildu verða fínir menn í útlöndum.

Og það er engin uppgjöf í mér, þeir sem hafa gefist upp hér á landi eru þeir sem ætla að láta sig hafa óbreytt þjóðfélag um ókomna tíð, þeir sem hafa ákveðið að best sé að útgerðaraðallinn fái að stýra landinu í raun áfram.

Af hverju heldurðu að útgerðarmenn haldi Mogganum úti þótt stanslaust tap sé á honum? Er það eðlilegur bisniss? 

Ég held að þú sért einn af mörgum sem áttar þig ekki á því hvernig málum er í raun háttað hér á Íslandi. Hverjir það eru sem hafa tögl og hagldir. Nú eða þá að þið eruð bara elskusáttir við stöðu mála. Það má auðvitað alveg.

ESB er ekki það sem ég helst óska mér. Ég vildi að Íslandi væri enn undir Noregskonungi eða Danmörku. En það er óraunhæf ósk.

Ég geri mér líka alveg fullkomlega grein fyrir að Ísland er ekki á leið inní ESB á næstunni. Það gerist ekki nema á lýðræðislegan hátt og núna er ekki lýðræðislegur vilji (ef svo má að orði komast) fyrir inngöngu í ESB á Íslandi. Þannig að þessi deila er sosum bara akademísk, eins og sagt er.

Af hverju held ég að "lýðræðið Ísland" sé tilraun sem hefur mistekist? Til að svara því þyrfti meira en pláss er fyrir hér. Ræðum það kannski ef ég kem og heimsæki þig, eða ef þú skyldir berast hingað.

Kristján G. Arngrímsson, 12.3.2013 kl. 15:37

15 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

"Lýðveldið Ísland" átti þetta að vera - afsakið.

Kristján G. Arngrímsson, 12.3.2013 kl. 15:41

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Að sumu leyti er það rétt hjá þér að hluti vandans sé sá að gráðugir Íslendingar vildu verða fínir menn í útlöndum.  Enn stærri hluti vandans er að all víða voru þeir taldir það.  Enn einn hluti vandans er sá að þeir eru enn til Íslendingarnir sem vilja vera miklir menn í útlöndum, bara á annan hátt.

En það sem ég meinti þegar ég talaði um uppgjöf þína (eða mína tilfinningu fyrir henni), var að mér finnst eins og þú hafir gefið sjálfum þér að þú og/eða þín skoðansystkyni (taktu eftir því hvað ég tala með virðingu fyrir kynjunum) nái ekki fram þeim breytingum á Íslensku samfélagi sem þú vilt sjá.

Því sé nauðvynlegt að hverfa undir erlent vald og treysta á að það komi breytingunum til framkvæmda.  Það sem þú segir hér um Danska og Norska konunga styður að mörgu leyti þá skoðun mína.

Sjálfur er ég alfarið á móti konungum og drottningum.  Mér þykir það alger tímaskekkja að þjóðir hagi sínum málum á þann hátt að þjóðhöfðingi geti aðeins komið úr einni fjölskyldu.  Þá frekar peppa ég upp Ólaf Ragnar (sem ég reyndar kaus síðast, í fyrsta og vonandi eina skiptið).

Auðvitað er rekstur fjölmiðla að stórum hluta til til að hafa áhrif.  Mogginn er auðvitað að hluta til dæmi um það.  365 miðlar reka svo aftur áróður fyrir "Sambandsaðild", ég leyfi mér að efast um að hagnaðurinn sé mikill af þeim rekstri, en "afþreyingarhlutinn" skilar líklega inn drjúgum krónum.

En samt eru allir Íslensku sósíalistarnir (ég hreinlega verð að koma þessu orði aftur að) mótfallnir því að setja nokkur takmörk á eignarhald á fjölmiðlum.  Þeir telja það þakkarvert að einhverjir skuli vilja reka þessi taphlutafélög.

Það er ólíklegt að Ísland sé á leið í "Sambandið" á næstunni.  "Sambandið" er einfaldlega ekki að sýna það aðlaðandi "andlit" þessi misserin.  Spurning hvort að það nái nokkkurn tíma aftur að setja upp "happy face".

Þú talar eins og lýðveldið Ísland hafi brugðist.  Líklega þá að hluta til, í það að minnsta kosti, vegna þess að lýðræðið hafi ekki skilað þeim árangri sem þú hefðrir viljað sjá.

Hvernig finnst þér lýðræðið standa innan ESB?  Hverju hefur það skilað hinum almenna þegn þar?  Vissulega er það misjafnt eftir löndum þar, en staðan í heild er ekki glæsieg.

Ég vísa m.a. til nýjustu færslu minnar hér á blogginu.  Sjálfsagt finnst þér hún, enn ein stæk ofstopafærslan, og einhliða breiðsíða gegn "Sambandinu".

En er eitthvað rangt í henni?  Hundsa ég sannleikann?  

Það gefst oft best að koma með efnislega gagnrýni.  Ég spurði þig hér að ofan um hvað þér fynndist það jákvæðasta sem hefði gerst í "Sambandinu"upp á síðkastið.

Enn sem komið er hefur þú ekki gefið neitt svar.

G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 18:16

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hvort ég er seldur undir vald erlendra bjúrókrata eða innlendra auðmanna skiptir mig engu máli. Hvort það er Íslendingur eða útlendingur sem hefur mig í vasanum kemur útá eitt.

Og þó, ég held jafnvel að bjúrókratíið í Brussel sé illskárra en ofríki manna á borð við Jón Ásgeir og Þorstein í Samherja. Sjáðu til, íslenskum auðmönnum er skítsama um venjulega Íslendinga og hika ekki við að nota þá. Ég held að Brusselbjúrókratarnir fari þó eftir reglum og hugsi um prinsipp, en það gera íslenskir auðmenn svo sannarlega ekki. Hjá þeim gildir "prinsippið" Ég á þetta ég má þetta. Og það gildir um fólk líka.

Annars þetta með erlent vald. Kannski er það mikilvægur punktur. Lítur maður á ESB sem erlent vald ef Ísland er aðili að því? Er þessi spurning kannski kjarni málsins? Eða öllu heldur það hvernig maður svarar henni.

Lítur maður svo á, að Ísland geti verið ríki með ríkjum í ESB og haft þar áhrif, eða trúir maður ekki á að við hefðum getu til að gera okkur gildandi í Brussel heldur yrði bara vaðið yfir okkur?

Varðandi Norge eða Danmörku þá lít ég nú ekki svo á að þetta séu "erlend" ríki m.t.t. Íslands.

Kristján G. Arngrímsson, 12.3.2013 kl. 19:11

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það að vera seldur undir innlent eða erlent vald getur að mínu mati skipt verulegu máli.  Það kann þó að vera umdeilanlegt eins og flest annað.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að mun auðveldara sé að knýja á um breytingar í smærri einingum.  Því tel ég að mun auðveldara sé fyrir Íslenskan almenning að knýja á og í gegn breytingar á Íslandi heldur en í "Sambandinu".

Skoðaðu nú hvað er að gerast í Grikklandi, Portúgal, Ítalíu og á Spáni.  Finnst þeir ástandið þar bera vott um að "bjúrókratarnir" í Brussel  fari eftir einhverjumm lógískum reglum og prinsippum, þar sem hagsmunir "litla mannsins" eru í hávegum hafðir?

Ef Ísland yrði aðili að "Sambandinu", yrði það svo að erlent vald réði mestu um það sem skeði á Íslandi.  Alveg þangað til að samruninn yrði þannig að litið yrði á all þegna "Sambandsins" sem eina þjóð.  Ég leyfi mér þó að efast um að það yrði nokkurn tíma.

Þú lítur þá svo á, að það hafi verið regin mistök að berjast fyrir sjálfstæði frá Dönum, og með því hafi Íslendingar klofið "þjóðina".   Það er auðvitað fullgilt sjónarmið, en ég get ekki lýst mig því sammála.

Ég hlýt eiginlega að ítreka þá skoðun mína að þú hafir gefist upp og lýsir því yfir að Íslendingar séu ófærir um að höndla með eigin málefni og sé best komnir undir erlendum yfiráðum.

Þú hefur vissulega rétt fyrir þér að ég hef ekki búið á Íslandi um all nokkurt skeið og þekki því ekki hvernig andrúmsloftið er þar akkúrat nú, en ég vona þó að þitt viðhorf teljist ekki dæmigert.  Reyndar er það á skjön við það sem ég skynja frá öllum öðrum sem ég þekki á Íslandi.

G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 19:36

19 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hah! Já það væri víst ekkert nýtt að ég sé á skjön við samfélagið.

Kristján G. Arngrímsson, 12.3.2013 kl. 22:39

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má hugsa sér mun verra hlutskipti en að vera dulítið á skjön við samfélagið, svona ef það er ekki um of.

Hitt er svo að það er líka gott að velta því fyrir sér hvers vegna það er.

Ég er heldur ekki að halda því fram að þeir sem ég þekki á Íslandi séu endilega þversnið af Íslendingum, eða standi fyrir það sem rétt er.

En skoðanakannanir (þó að rétt sé að taka þær með hæfilegum fyrirvara) hafa þó bent til að á milli 60 og 70% Íslenskra kjósenda vilji ekki ganga í "Sambandið".

Það væri örugglega einhverjum ástæða til þess að fara að tala um þjóðarvilja og að aðildarumsóknin hefði verið valdarán, en ég er þó ekki þeirrar skoðunar.

Ég er þó þeirrar skoðunar að það hafi verið gríðarleg pólítísk mistök að bera aðildarumsóknina ekki undir þjóðaratkvæði, en það er önnur saga.

P.S. Þú gleymdir alveg að segja mér frá því sem þér þykir hafa gerst jákvæðast í "Sambandinu" undanfarið.

G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband