Vottar "Sambandsins"

Íslendingar mega án efa eiga von á því að þeim fjölgi sem verði sendir til Íslands, til að "vitna" fyrir "Sambandið".

Það vonast til að Íslendingar láti af villu síns vegar og sjái "ljósið".

En það má vera að "Sambandsaðild" henti Eistlendingum og hafi gert þeim gott.  En það þýðir auðvitað ekki að slík aðild sé Íslendingum að sama skapi góð.

"One size, fits all", er ekki fyrir alla, þó að það vissulega einfaldi "sölu og framleiðslu".

Eistlendingar hafa verið þiggjendur í Evrópusambandinu, þó að vissulega séu uppi vonir um að það breytist einhverntíma í framtíðinni.  Slíkt breyting verður þó líklega ekki í bráð.

Það þarf enda ekki að keyra lengi í Eistland, til að sjá að þær eru ekki margar opinberu framkvæmdirnar sem "Sambandið" hefur ekki lagt til hluta fjárins og það tilkynnt með stórum skiltum og fánum.  Það hefur gefist vel, og svipaðar fánaborgir vonast margir eftir að sjá á Íslandi.

Stóri munurinn er þó sá að nær allir eru sammála um að Íslendingar muni leggja meira til "Sambandsins", en koma muni frá því.

En það er ekki rökrétt að bera saman stöðu Íslendinga og Eistlendinga.  Eistlendingar sem endurheimtu sjálfstæði sitt fyrir rétt ríflega 20 árum, standa enn í skugga Sovétríkjanna/Rússlands.  Þeir voru tilbúnir til að færa miklar fórnir til að treysta og halda sjálfstæði sínu.  Jafnvel gefa eftir hluta af því.

En Rússarnir eru enn áhrifamiklir í Eistlandi og nota sumpart Evrópusambandið til að auka áhrif sín þar.  Það telst líklega ekki tilviljun að býsna stóran hluta af erlendri fjárfestingu í Eistlandi má rekja til Kýpur.

Það er því ef til vill ekki skrýtið að Eistlendingar leggji á það áherslu að tilheyra stærri heild.

En lífið í Eistlandinu er ekki eintóm sæla, þó að í Evrópusambandið sé komið.  Eistland var eins og mörg önnur lönd á miklu skriði á meðan lánsfjármagn var ríflega útilátið á síðasta áratug.  En fallið varð líka skarpt.

Atvinnuleysi hefur heldur sigið niður á við en er þó ennþá í kringum 10%.  Það er þó hátíð frá því 20% atvinnuleysi sem var árið 2010.

Margir Eistlendingar sem hita hús sín með rafmagni skjálfa nú á beinunum (sumir bókstaflega), því spáð er að rafmagn hækki um allt að 60% (vonandi verður hækkunin þó lægri) um áramótin þegar raforkutilskipun "Sambandsins" tekur að fullu gildi.  Hús sem kynnt eru með rafmagni eru nú boðin til sölu á niðursettu verði.

En stór hluti af Eistlendingum kyndir upp með viði.  Þeir hafa ekki efni á að kaupa gas eða rafmagn.

En það sem Eistlendingar eru líklega ánægðastir með hvað varðar "Sambandið" (ýmsar skoðanakannnair hafa sýnt slíka niðurstöðu) er atvinnufrelsið.  Það hefur skilað sér í þeirri staðreynd að hundruðir þúsunda Eistlendinga hafa yfirgefið landið síðan landið gekk í "Sambandið".  En það hjálpar vissulega til með atvinnuleysið, en á einnig sínar skuggahliðar.

Tollfríðindi innan "Sambandsins" reynast Eistlendingum einnig vel.  Það eru lífleg viðskipti með áfengi í Tallinn.  Þar eru enda áfengisverslanir á öðru hverju götuhorni.  Útlendingar, sérstaklega Finnar og í nokkrum mæli Svíar koma með ferjunum og kaupa ódýrt áfengi og njóta þess að skoða "Gamla bæinn" í Tallinn.  Það kemur sér vel fyrir Finnana og Svíana, sem búa við mikið hærra áfengisverð að geta tekið bílfarm af áfengi með sér heim.  Og gott fyrir Eistnesku verslunarmennina að geta selt þeim það.

En ég held að það sé engan vegin rökrétt að bera saman aðstæður Eistlendinga og Íslendinga.  Annars vegar littla þjóð sem hrammar Rússneska bjarnarins kasta löngum skugga yfir landið, og telja sér (eðlilega) hag í því að stilla strengi sína við sterku iðnríkin í mið Evrópu og Skandínavíu.  Skandínavískir bankar stýrar fjármálamarkaðnum og mörg fyrirtæki með bakvinnslu og einhverja framleiðslu.

Það sem dregur fyrirtækin fyrst og fremst að eru lág laun.

Eins og ég sagði í upphafi, reikna ég með að þeim fari fjölgandi sem koma til Íslands og "votta" hvað það er gott að vera í "Sambandinu".  "Fánaborgunum" fer sömuleiðis líklega að fjölga.

Með ósvífnum hætti mun "Sambandið" vinna með "sínum flokkum" í Alþingiskosningunum í vor.  Það er líklega einsdæmi að erlendir aðilar blandi sér í kosningar á Íslandi með slíkum hætti.  Það er sömuleiðis einsdæmi að erlent ríkjasamband starfræki áróðurskrifstofu á Íslandi, með það að leiðarljósi að hafa áhrif á kosningar.  Þar á ég fyrst og fremst við þær kosningar sem líklega verða haldnar um inngöngu/framhald aðildarviðræðna við "Sambandið", en einnig Alþingiskosningar.

Sem betur fer, virðist þó meirihluti Íslendinga eindregið hafna "Sambandinu" og framgöngu þess.


mbl.is Sáu kostina við aðildina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hef verið í Eistlandi, ekið gegnum Lettland og Litháen.  Hef séð rússablokkirnar sem rísa eins og draugaborgir, illa einangraðar hráar og gráar, við myndum ekki telja það mannabústaði.  Sá heyvagna dregna af einum eða tveimur hestum.  Eldgamlar dráttarvélar, þar sem þær var að sjá, við myndum telja þetta safnhaugamat.  Eistrasaltsríkinn eru áratug eða meira á eftir okkur í öllu svona.  Það er því ekki hægt að bera saman kjörin hér heima eða í eystrasaltsríkjunum, það er að bera saman epli og appelsínur. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.12.2012 kl. 20:50

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

jájá - auðvitað eru þetta bara óvinir - eins og allir sem eru ekki sammála ykkur nei sinnum

Rafn Guðmundsson, 20.12.2012 kl. 22:44

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Rafn.  Það fer auðvitað fjarri að Eistlendingar eða "Sambandið" séu óvinir Íslendinga.  Það þýðir þó ekki að hagsmunir þessara aðila fari endilega saman, eða réttast og best sé að ganga í eina sæng með þeim.

Stundum geta hagsmunirnir verið verulega andstæðir, rétt eins og sýnir sig í "Makríldeilunni".  

Eistlendingar hafa markvisst sótt fram síðustu 2. áratugina.  Það að þeir hafi valið aðrar leiðir til framsóknar en Íslendingar, er ekkert sem þarf að setja út á.  En það þýðir heldur ekki að Íslendingar eigi að velja sömu leið, eða að sú leið henti Íslendingum.

Paet fór enda sá leið, að hvetja Íslendinga til að hætta að hugsa eindregið út frá hagsmunum sínum, og hugsa frekar um hugsjónir.  Hvar þeir vildu "vera" og með hverjum starfa.

Sjálfsagt höfðar það til margra, enda sú hugsun ekki ný fyrir mörgum Íslendingum.  Það er ekkert nýtt að "roðinn í austri" heilli Íslendinga.

Sjálfur hef ég kosið að hugsa málið út frá hagsmunum Íslendinga og væntanlegra afkomenda þeirra.   Þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að best sé að standa utan við "Sambandið".

En auðvitað hugsa menn á mismunandi máta og mál vega misþungt í þankagangi einstaklinga.

Þess vegna deila menn og rökræða.  Það er gangur lífsins.

G. Tómas Gunnarsson, 21.12.2012 kl. 05:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband