Hinir ríku Kanadabúar

Það er mikið fjallað um ríkidæmi Kanadabúa í fjölmiðlum um þessar mundir.  Mér sýnist að sú umræða hafi meira að segja náð til Íslands.

Ástæða þessa er sú að nú eiga Kanadabúar að meðaltali meiri hreina eign, en nágrannar þeirra í Bandaríkjunum.  Hingað til hefur þessu verið öfugt farið.

Margir hafa viljað eigna þessa þróun hinu sósíalíska hagkerfi Kanada, en þar eins og oft sýnist sitt hverjum og það eru býsna margar stærðir sem þarf að taka inn í jöfnuna.

Þau tvö atriði sem líklega ráða mestu um auðlegðaraukningu Kanadabúa, hafa ekkert að gera með sósíalisma, heldur eru þau stöðug hækkun húsnæðisverðs, aðalega í nágrenni Toronto og Vancouver (en veruleg hækkun hefur átt sér stað víða) og svo mikil styrking Kanadíska dollarans, sem er mest að þakka síhækkandi verði á olíu og öðrum hrávörum.

Hvað varðar hækkun húsnæðisverðs, þá hafa yfirvöld haft af því nokkrar áhyggjur um skeið og hert reglur hvað varðar ríkistryggingu á húsnæðislánum og reynt að grípa til ráðstafana til að draga úr verðhækkunum.  Þess er þegar farið að sjá merki í Vancouver og spáð er að fasteignamarkaðurinn í Toronto fari að kólna.

Kanadíski dollarinn hefur einnig styrkst verulega.  Árið 2006 fékkst fyrir hann að mig minnir u.þ.b. 88 Bandarísk cent, en árið 2011 (ég held að það sé sem miðað er við í samanburðinum) voru dollararnir nokkuð á pari.  Það munar um minna.

Þessa styrkingu má að miklu leyti þakka (eða kenna um) olíuvinnslunni í Alberta.  Margir af Kandadísku sósíalistunum hafa enda allt á hornum sér hvað varðar olíuvinnsluna, telja að þurfi að draga úr henni, setja henni alls kyns skorður og stórauka reglugerðir og afskipti hins opinbera af henni.

Því verður að ég tel ekki mótmælt, að styrking Kanadíska dollarans hefur haft veruleg áhrif að iðnarframleiðslu í Kanada, sem hefur átt í vök að verjast vegna hækkandi launakostnaðar (í alþjóðlegum samanburði) sem hækkun dollarans hefur eðlilega í för með sér.

Einnig ber að hafa í huga að "ríkidæmi" og kaupmáttur er ekki hið sama.  Þó að dollararnir tveir séu nokkuð á pari, er verðlag í mörgum tilfellum verulega hærra í Kanada.  Ekki er óalgengt að munurinn sé 20% eða meiri.

Þannig virkar "ríkidæmi" Kanadabúa best ef þeir fara yfir landamærin að versla, sem  þeir gera í sívaxandi mæli.

En þó að hér séu nefndar nokkrar ástæður fyrir "ríkidæmi" Kandabúa,er engin ástæða til að gera lítið úr velgengni Kanada á efnahagsviðinu, þó að vissulega séu blikur á lofti hér sem víða annarsstaðar.

En velgengni Kanada má ekki hvað síst þakka þeirri kreppu sem reið yfir Kanada fyrir ríflega 20 árum síðan.  Þá var talin raunveruleg hætta á því að Kanada yrði gjaldþrota, þvílíkar voru skuldir hins opinbera.  Þá var Kanadíski dollarinn kallaður "pesó norðursins", enda fengust ekki nema í kringum 65 Bandarísk cent fyrir hann þá.

En Kanadískir stjórnmálamenn lærðu sína lexíu (þó að margt bendi til þess að minningin um kreppuna sem farin að dofna víða, ekki hvað síst við stjórn Ontario) og tóku sér tak, skáru harkalega niður í rekstri hins opinbera, hækkuðu skatta á almenning (en lækkuðu marga skatta á fyrirtæki) og greiddu niður skuldir.

Bönkum var haldið nokkuð í skefjum, og stjórnvöld neituðu að samþykkja samrunaáætlanir þeirra.  Löggjöf í kringum þá er nokkuð ströng, en innlendir bankar að nokkru verndaðir gegn alþjóðlegri samkeppni.

Þessi blanda hefur virkað nokkuð vel og eins og áður sagði stendur Kanada nokkuð vel efnahagslega.

En "ríkidæmið" er að þó nokkru leyti aðeins "pappírnum", og því miður hafa margið notað þann "auð" til að skuldsetja sig meir en hollt getur talist.  Meðalskuldir Kanadabúa hafa sömuleiðis aukist verulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband