Hefur þú efni á því að vera atvinnulaus?

Krónan hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni á Íslandi undanfarin misseri.  Mörgum hefur hefur tíðrætt um þann kostnað sem almenningur ber af misviturri efnahagsstjórn á Íslandi og því gengissigi sem hefur fylgt.  Þennan kostnað vilja margir kenna krónunni um.  Sumir spyrja þeirra spurningar hvort að hinn almenni Íslendingur hafi efni á krónunni.

Það er vissulega  hvimleitt þegar efnahagsstjórnunin er ekki betri en svo að gengissig verður með tilheyrandi hækkunum verðlags og vísitalna.

En það er óhjákvæmilegt að eitthvað verði undan að láta þegar mistök eða áföll eiga sér stað í efnahagslífinu.

Þær þjóðir sem haf fest gjaldmiðil sinn hafa kynnst því.  Þá verður kaupgjald að lækka og/eða atvinnuleysi eykst.   Því fylgir gjarna mikið verðfall fasteigna.

Nýlega birtust fréttir um að meðallaun í Grikklandi hefðu lækkað um 23%.  Sumir hafa þurft að þola lækkun allt að 40%, en aðrir næstum enga.  Atvinnuleysi hefur sömuleiðis rokið upp og er vel yfir 20%.  En gjaldmiðill Grikkja, euroið hefur aðeins sigið lítillega.

Á Spáni er atvinnuleysið í kringum 25%, húsnæðismarkaðurinn er í rúst og margir geta ekki selt húseignir sínar, hvað þá fengið skaplegt verð.  En gjaldmiðill sá er Spánverjar hafa kosið að nota, euroið hefur ekki sigið verulega.

Á Írlandi er atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, meðallaun hafa lækkað verulega og húsnæðisverð fallið um 50 til 60%. 

Og þannig er ástandið víðar um Evrópu, húsnæðisverð hefur fallið laun hafa lækkað og atvinnuleysi hefur aukist.  Atvinnuleysi á eurosvæðinu hefur nú náð 11%.

Það verður sömuleiðis algengara að eignarhlutir í húsnæði séu neikvæðir og afborganir, þó að þær standi í stað, verði æ hærra hlutfall af tekjum vegna launalækkana.  Gjaldmiðill tryggir ekki kaupmátt eða velmegun.

Verst eru þeir þó oft staddir sem hafa misst atvinnuna, enda hefur landflótti aukist hröðum skrefum, sérstaklega á meðal ungs fólks, sem gjarna verður verst úti hvað varðar atvinnuleysi.

Þegar spurt er:  Hefur þú efni á krónunni, væri því ekki úr vegi að þeir sem það gera legðu fram aðra spurningu einnig. 

Hefur þú efni á því að vera atvinnulaus?

P.S.  Ef til vill er það ekki tilviljun að mér sýnist að "Sambandsaðild" og euroupptaka njóti hvað mest fylgis á meðal þeirra sem gegna opinberum og hálfopinberum stöðum.  Þar eru líkur á launalækkunum og atvinnuleysi hvað minnstar.   Það er rétt að taka fram að þetta byggir eingöngu á minni tilfinningu, en ekki vísindalegum rannsóknum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband