Hin eilífa eurokrísa

Það voru ýmsir sem héldu að eurokrísan væri eitthvað sem tilheyrði sögunni. Það fór auðvitað fjarri, enda hefur ekkert verið gert til að ráðast að rótum vandans. Euroríkin keyptu hins vegar ákveðinn frest, með því að Seðlabanki þeirra framleiddi gríðarmagn peninga og lánaði á hagstæðum kjörum. En fresturinn hefur ekki verið notaður til þess að laga meinið, heldur til að reyna að fleyta þeirri blekkingu að allt væri i himnalagi.

En sú blekking dugði Sarkozy ekki til endurkjörs, hún dugði heldur ekki til að að "ásættanlegir flokkar" næðu að mynda ríkisstjórn í Grikklandi, né dugði hún til að fjarmálamarkaðir hefðu trú á því að Spánn væri ríki þar sem allt væri í sómanum.

Það er margt sem bendir til þess að kreppan verði viðvarandi nokkuð lengi, enda samkomulag um að taka á vandanum ekki í sjónmáli.  Æ fleiri virðast þó komast á þá skoðun að vandamálið sé euroið sjálft, eða öllu heldur uppbygging þess.  Engin leið sé að nota sameiginlega mynt, án fjárhagslegs og pólítísks samruna.

En þeir eru ekki margir Evrópsku stjórnmálamennirnir sem treysta sér til að bera það á borð fyrir kjósendur í löndum sínum og allra síst Angela Merkel, enda ekki svo langt í kosningar í Þýskalandi.

Þannig er staðan og enginn er ánægður.  "Suðurríkin" hafa glatað samkeppnishæfni sinni og ekki er útlit fyrir að þau endurheimti hana á næstu árum.  Grikkland sem er verst statt flytur aðeins út vörur sem duga fyrir u.þ.b. helmingi af innflutningi sínum.  Þó hefur útflutningur heldur farið vaxandi.

Flestir hafa líklega lesið um raunir Spænsku bankanna sem nú súpa seyðið af þeirri gríðarlegu húsnæðisbólu sem neikvæðir raunvextir eurosins sáu um að blása upp.

Atvinnuleysi er óhjákvæmilegur fylgifiskur horfinnar samkeppnishæfni og bitnar sérstaklega hart á ungu fólki, en atvinnuleysi þeirra á meðal er í kringum 50% bæði í Grikklandi og á Spáni.  Almennt atvinnuleysi vel yfir 20%.

Grikkland og Spánn eru líklega verst stöddu löndin á eurosvæðinu, en lönd eins og Portugal, Ítalia og Írland eru öll a hættusvæði.  Frakkland er sömuleiðis ekki of vel statt, atvinnuleysi þar fer vaxandi og fjárlög hafa ekki verið afgreidd með afgangi í u.þ.b. 40 ár. 

Það er engin leið að segja hvað gerist á næstu mánuðum, líklega en það er næsta víst að eurokrísan  er ekki á útleið.  Það er líklegra að hún dýpki frekar en hitt.

Það er með endæmum að Samfylkingin og Vinstri græn stefni Íslandi inn í "Sambandið" undir þessum kringumstæðum.

Það er enn óskiljanlegra að þeir þverneiti Íslensku þjóðinni um að segja álit sitt á feigðarflaninu.

En þó að Íslendingar fái ekki að greiða atkvæði um hvort eigi að hætta aðlögunarferlinu eða halda því áfram, þá styttist í kosningar.  Líklega verður ekkert eitt mál fyrirferðarmeira í þeim kosningum en "Sambandsaðildin".

Það er eitthvað sem segir mér að "Sambandsflokkarnir", Samfylking og Vinstri græn ríði ekki feitum hesti frá þeim kosningum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hversu augljóst þarf þetta að verða til að íslensk stjórnvöld velji hag þjóðar sinnar fram yfir sínar eigin langanir og dauma?  Hversu langt þarf þetta að ganga til að þau skilji að þetta er ekki það sem þjóðin vill. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.5.2012 kl. 11:49

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ef að aðlögunarviðræður við "Sambandið" verða settar á ís, eða þeim hætt er ríkisstjórnin fallin.  Það vita bæði Vinstri græn og Samfylkingin.  Það veit Hreyfingin sömuleiðis.  Þá verða kosningar og landslagið mun breytast, og býsna margir þurfa að leita sér að annarri vinnu.

En eina svar kjósenda við þessari vitleysu Samfylkingar og Vinstri grænna er að hegna þeim án miskunar í næstu kosningum.  Það er það eina sem stjórnmálamenn skilja, og þó ekki allir.

"Sambandsaðild" og aðlögunarviðræður verða án efa eitthvert fyrirferðarmesta málið í næstu kosningum.  Þar hafa Samfylkingin og þó sérstaklega Vinstri græn slæman málstað að verja.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2012 kl. 13:07

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er rétt hjá þér G.Tómas.  En nú hafa Hreyfingarmenn sagt í mín eyru að þeir vilji ekki inn í ESB.  Svo verður bara að koma í ljós hvernig þau greiða atkvæði ef tillaga Atla og Jóns kemst inn á Alþingi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.5.2012 kl. 13:30

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég hef reynt að leggja það í vana minn að dæma eftir því sem fólk gerir, ekki hvað það segir.  Bæði Hreyfingarfólk og Vinstri græn tala á móti "Sambandsaðild", en hafa svo gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja áframhaldandi aðlögunarviðræður og hindra að nokkur geti hindrað það ferli.

Það er eftir því sem ég fer.

G. Tómas Gunnarsson, 30.5.2012 kl. 13:37

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það er alveg rétt, það þarf að fara eftir því sem fólk gerir en ekki hvað það segir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.5.2012 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband