IceSave þjóðaratkvæðagreiðslurnar voru ekki til einskis

Nú er byrjaður spuni stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og þeirra sem hvað ákafast studdu IceSave samningana að allt "rifrildið" og allar rökræðurnar og þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær hafi ekki haft neinn tilgang.

Það er fjarri sanni.

Í fyrsta lagi er það auðvitað grundvallaratriði hvort að um er að ræða ríkisábyrgð eður ei (í sjálfu sér má segja að slík hætta sé enn fyrir hendi, ef til þess kæmi að málið færi fyrir dómstóla).

Í öðru lagi þá hefur Íslenska ríkið ekki innt af hendi vaxtagreiðslur sem nú þegar hefðu numið tugum milljarða. Það er heldur ekki útséð um hvort að þær greiðslur gætu fallið á ríkið, ef til dómsmáls kæmi.  Það má þó líklega segja að það gæti verið Íslenska ríkinu auðveldara að greiða slíkar greiðslur í framtíðinni, ef Íslenskt efnahagslíf nær sér á strik, heldur en á liðnum árum þegar efnahagurinn var hvað erfiðastur.

Ennfremur má segja að stærsti ávinningurinn af þjóðaratkvæðgreiðslunum sé sá að með þeim var það þjóðin sjálf sem ákvað í hvaða farveg málið fór, en laut ekki ákvörðun stjórnmálastéttarinnar sem augljóslega gekk ekki í takt við þjóðina.  Þannig náðist að skapa mun breiðari sátt um málið en ella hefði orðið.  Þjóðin verður svo að sjálfsögðu að lifa með ákvörðun sinni hvernig sem endirinn verður.

En málinu er langt í frá lokið.  Ennþá er nokkuð langt í land að niðurstaða fáist hvað varðar þrotabúið.  Iceland verslundarkeðan er ekki seld og ekki ljóst hvaða verð fæst fyrir hana svo stærsta dæmið sé nefnt.  Íslendingar vona það besta, en niðurstaðan á eftir að koma í ljós.  Kreppan sem nú ríður húsum í Evrópu getur haft áhrif, bæði á verð og ekki síður hve fljótt verður af sölunni.

Enn er ekki útséð með lagahlið málsins.  Það má þó leyfa sér að vona að sú staðreynd að byrjað er að borga út úr þrotabúinu dragi úr líkum á málssókn.  Ástandið í Evrópu eykur líklega heldur ekki líkurnar á því að Bretland, Holland eða Evrópusambandið vilji mikla umfjöllun um innistæðurtryggingakerfið og hugsanlega dómsniðurstöðu í fjölmiðlum.

Ég held því að það megi fullyrða að þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær um IceSave hafi verið afar mikilvægar.  Þjóðin lærði af þeim mikilvæga lexíu og ef til vill stjórnmálastéttin ekki síður.

En þeir voru líka margir sem urðu sér til skammar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslanna.  Margir fræðimenn og álitsgjafar gengisfelldu sjálfa sig með stórkarlalegum en innihaldslitlum fullyrðingum um afleiðingar þær sem yrðu ef þjóðin neitaði samningunum.

En skammarlegast af öllum gengu líklega fram Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og ýmsir aðrir stjórnarliðar, þegar þau sniðgengu þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Það er einsdæmi að forystumenn ríkisstjórnar sniðgangi þjóðaratkvæðagreiðslu með þessum hætti.  Skömmin verður ennþá meiri þegar litið er til þess hve oft þau höfðu á árum áður talað fjálglega um nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslna.    Ég hygg að sú skömm muni fylgja þeim að svo lengi sem land byggist svo notað sé hátíðlegt orðalag.


mbl.is Greiddu 432 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fjögur prinsipp voru undirstrikuð og varin að mínu mati:

1. Að ríkið / þjóðin taki hvorki á sig áhættu einkaframtaksins né fjárhagslega áhættu einstaklinga.(þ.e. sem ávaxta fé sitt á háum vöxtum án þess að kynna sér öryggið)

2. Að hinn lagalegi réttur sé virtur og að dómstólar skeri úr um álitamál. Ef hann er ekki virtur er réttarkerfið einskis virði down the line.

3. Að milliríkjasamskipti byggist ekki á styrk þjóða og hótunarvaldi án tillits til alþjóðlegra laga og samþykkta.

4. Að lögmál lýðræðisins séu virt og réttur fólksins til að ráða örlögum sínum og framtíð sé framar öllu. We the people for the peoplle.

Ef við hefðum ekki staðið í lappirnar þá hefðum við haft þá ábyrgð að hafa viðrkennt frumskógarlögmálið sem norm í samskiptum þjoða og ekki bara gert það fyrir okkar hönd heldur fyrir hönd borgara annarra þjóða. Svo mikilvægt var að verjast þessu fordæmi.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.12.2011 kl. 03:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband