Vextir, vaxtavextir og vaxtaverkir

Það er oft athyglisvert að fylgjast með umræðunni um Íslenska banka, hagnað þeirra og vaxtastig. Jafnt upprennandi stjórnmálamenn þeir sem eru á niðurleið virðast vera þeirrar skoðunar að Íslendingar greiði alltof háa vexti, en fagna hins vegar velgengni bankanna og sérstaklega hagnaði þeirra á erlendri grundu.  En hagnaður þeirra á Íslenskri grund virðist ekki vekja neinn fögnuð.

En vissulega eru vextir á Íslandi háir, mun hærri t.d. en þeir vextir sem ég bý við hér í Kanada, en það gildir að sjálfsögðu bæði um innláns og útlánsvexti.  Algengustu vextir á húsnæðislánum hér eru breytilegir vextir, sem fara upp og niður.  Síðan er hægt að festa vextina til lengri tíma en það kostar álag á vaxta%. 

Enginn lánar fé með það að markmiði að tapa á því.

Ég bloggaði í vor um hvernig er að taka lán hér um slóðir, en það má lesa hér.  Nafnvextir bjóðast hér mun lægri en á Íslandi en raunvextir hvað varðar húsnæðislán eru á svipuðu róli. 

Yfirdráttarvexti á Íslandi má bera saman við vexti á kreditkortum, en þeir vextir eru hér í Kanada algengir frá 18 til 22%, en vissulega geta "góðir kúnnar" fengið betri tilboð, en þau eru yfirleitt tímabundin.  Þessi vaxta% er hér þó að verðbólga sé mun lægri en á Íslandi.  Merkilegt nokk er þessi vaxta% hér ekki sífellt áhyggjuefni stjórnmálamanna og þáttastjórnenda.

En vaxta% stjórnast ekki bara af ávöxtunarkröfu, heldur spilar eftirspurn og framboð þar líka inn í.  Ef marka má fréttir er framboð lánsfjár á Íslandi nokkuð mikið, en gerir þó varla meira en að halda í við eftirspurnina. 

Það er ef til vill spurningin sem þarf að spyrja, hvers vegna er lánsþörf einstaklinga á Íslandi eins gríðarleg og raun ber vitni?

Hvers vegna eru einstaklingar á Íslandi með himinháan yfirdrátt um leið og þeir blóta vöxtunum í sand og ösku?  Hvaða "nauðsynlegu fjárfestingar" búa að baki yfirdrættinum?

Það er ódýrt fyrir "populista" á meðal stjórnmálamanna að tala um að vextir séu alltof háir, það hljómar ekki illa í eyrum þeirra sem skulda. Þeir sem skulda eru stór "atkvæðahópur".  Það vantar hins vegar að þeir segi til um hvernig þeir ætli að standa að því að lækka vexti.

Allir eru sammála því að verðbólgan þurfi að nást niður, að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir á því hver sé aðal orsakavaldur hennar, en á meðan eftirspurn eftir lánsfé er jafnmikil eða meiri en framboðið verða raunvextir háir.

Það er sífellt hamrað á Kárahnjúkavirkjun og aukningu húsnæðislána, þegar talað er um orsakir verðbólgunnar.  Vissulega eru þetta stór atriði.  Reyndar má leiða rökum að því að framkvæmdir Reykjavíkurborgar í orkumálum á Hellisheiði undanfarin ár, hafi ekki verið síður þennsluhvetjandi sem og aðrar opinberar framkvæmdir.  Auðvitað þarf að draga úr opinberum umsvifum.

En það sem myndi fyrst og fremst virka hvetjandi til vaxtalækkunar væri aukinn sparnaður og minni lántökur. 

En slíkt er auðvitað bara óráðshjal, eða hvað?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Sæl aftur Kanadabúar

Ég held nú að það séu talsvert fleiri hausar á bakvið erlenda gróðann hjá bönkunum en þann innlenda.

Hvað lánamálin snertir miðum við okkur gjarnan við nágrannalönd eins og Danmörku t.d. en þar er alsiða að taka 100% lán vegna íbúðakaupa á óverðtryggðum lánum með 3-4% vöxtum. Við heimsækjum, horfum og dáumst að Dananum, viljum hafa það jafn gott og hann, og gerum. Eini munurinn er að hann leggur fyrir þær upphæðir sem við greiðum í verðbætur.

En góðar ábendingar og góð grein.      

Magnús Vignir Árnason, 31.1.2007 kl. 22:13

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég þekki ekki vel til uppgjöra bankanna, en mér skylst að hagnaðurinn erlendis frá haldist nokkuð í hendur við hvað stór hluti veltu þeirra kemur þaðan.

Hvað varðar húsnæðislán í Danmörku, þá get ég heldur ekki sagt að ég þekki vel til á þeim markaði, en fyrir stuttu bloggaði ég hér um vandfundna 3% Evrópuvexti, sem sumum stjórnmálamönnum virðist tamt að tala um, þá grein má sjá hér.

Ég hef ekki getað fundið neinn banka í Danmörku sem býður upp á 3% vexti til húsnæðiskaupa, en þygg með þökkum hlekk með upplýsingum um slíkt.

Hér má hins vegar finna kjör á lánum hjá Danske Bank, sem ég fann á netinu, en þar er ekki að finna nein 3% kjör.

Ég endurtek það að besta og virkasta leiðin til að lækka vexti, er án efa aukin sparnaður og minni lántökur.

G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2007 kl. 23:35

3 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Það er rétt, enginn leggur í rekstur með það að markmiði að tapa. En hagnaður er nokkuð sem sumir virðast eiga auðvelt með að fetta fingur út í.

Arnljótur Bjarki Bergsson, 1.2.2007 kl. 11:40

4 identicon

Æji ég var búinn að skrifa hér langt og útlistað svar en ég nenni bara ekki að eyða frekari skriftum í fólk sem að er haldið veruleikafyrringu á þetta háu stigi.

Guðmundur Góði (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 14:10

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ekki að efa að heimurinn er verri staður vegna þess hve "Guðmundur Góði" er latur við skriftirnar.

Leti hans bitnar að sjálfsögðu verst á veruleikafyrrtu  fólki, ja líklega rétt eins og mér, sem verður áfram að lifa í fyrringu sinni, án þess að njóta visku Guðmundar.  Það er erfitt hlutskipti.

G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2007 kl. 14:49

6 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Ha ha góður er Guðmundur og rökfastur. Erfiður að berjast við á ritvellinum. Einn af þessum góðu pennum.

Engan hlekk get ég vísað á en Guðmundur vinur minn í næsta húsi á bróðurson sem flutti búferlum til Danmerkur á síðasta ári. Þar var hann álitin fáráður að ætla að borga 20% út í húsinu sem hann keypti en hann fór sína leið og uppskar 3,4% vexti fyrir vikið, eftir að hafa leitað tilboða í nokkrum bönkum.   

Magnús Vignir Árnason, 1.2.2007 kl. 23:39

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég get engan veginn talist neinn sérfræðingur í vaxtamálum í Evrópu, en slíkar vaxtatölur eins og þú nefnir virðast hafa verið algengar fyrir nokkrum árum, ef því sem ég kemst næst.  Hins vegar hafa vextir á Evrusvæðinu (danska krónan er tengd evrunni) verið á uppleið rétt eins og efnahagslífið á svæðinu.

Stýrivextir hafa verið að hækka þar og um leið í það minnsta flestir aðrir vextir.  Svo er auðvitað spurning hvað vextirnir hafa verið bundnir til langs tíma, en það er alls ekki gefið (þó að það geti auðvitað verið) að þeir séu fastir allan lánstímann.  Ég er til dæmis með vextina á húsnæðisláninu mínu hér í Kanada aðeins bundna í 4 ár.

G. Tómas Gunnarsson, 2.2.2007 kl. 19:44

8 identicon

Algengir vextir hér í DK eru milli 3 og 4% en eru á uppleið!
Bestu gæðingar gátu snemma á síðasta ári fengið 3% vexti en þar er átt við stóreignarmann með öll viðskipti í bankanum! Annars var 3,25 - 3, 50 algengt hér um árið!
Hér í DK eru einnig engin færslugjöld af debetkortum!
Húsnæðislán í Dk eru 80% Svo koma að mig minni 15% aukalán og ef þú ert ílla staddur lánar bankinn þinn þér síðustu 5% á verri vöxtum!

Addi (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 20:51

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað gömul sannindi að þeir sem standa vel og eiga eignir geta oft fengið betri kjör. 

Það að vextir hafi verið um eða rétt yfir 3% á síðasta ári, stemmir nokkuð við það sem ég hef heyrt, en allt sem ég heyri núna eru mikið hærri vextir, yfirleitt vel yfir 4 eða jafnvel 4% núna, samanber hlekkinn sem ég setti inn hér frá Danske Bank.

Það er annars merkilegt með alla þessa Íslendinga sem hafa heyrt ótal dæmi um lága vexti hér og þar um Evrópu, að enginn þeirra getur sett inn hlekki máli sínu til stuðnings, án þess að ég vilji fullyrða að þeir hafi rangt fyrir sér.

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2007 kl. 04:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband