Talað hátt um þögnina

Stundum er eins og ákveðin orð komist í tísku í umræðunni og stundum ákveðin mál, stundum ákveðinn talsmáti.  Eitt af þeim orðum sem hafa verið vinsæl undanfarin misseri er þöggun, að ásaka einhvern eða einhverja um að beita þöggun eða að þegja um ákveðin mál.

Stundum hljómar það svo að ekkert geti verið merkilegra en að hafa verið beittur þöggun, eða einhver hafi reynt að beita þöggnu, ja nema ef til vill að hafa verið hleraður.

Í fréttinni sem hér fylgir með er formaður Samfylkingarinnar hinnar síðari, að segja að hún muni ekki taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál.  Af því má draga þá ályktun að hún telji að einhverjir séu í slíku bandalagi, séu að reyna að beita þöggun á Evrópuumræðuna.

Ég held að ekkert geti verið fjær sannleikanum.  Evrópuumræðan er á fullu skriði á Íslandi. Skrifaðar eru greinar í dagblöð og tímarit, Evrópumálin eru rædd á sjónvarpsstöðvum og í útvarpi, líflegar umræður eru á bloggsíðum, í kaffistofum, kaffihúsum og einkaheimilum.  Evrópumálin eru rædd á Alþingi og fjölmiðlar birta skoðanakannanir á afstöðu almennings til ESB og evrunnar.

Hitt er svo annað mál að margir hafa látið í ljós þá skoðun að aðild að ESB sé ekki á dagskrá.  Það er auðvitað þeirra val, enda líklega öllum frjálst að hafa sínar skoðanir á aðild að ESB.  Það er auðvitað hluti af umræðunni.

Nýjasta skoðanakönnunin sýndi svo að stuðningur almennings við inngöngu í ESB fer minnkandi og langt frá því að meirihluti landsmanna sé því fylgjandi.  Sama gildir um upptöku evru. 

Það er líka hluti af umræðunni um Evrópumál.

Ef til vill telur Ingibjörg Sólrún að inntak "umræðustjórnmála" sé að málin séu rædd, þangað til allir séu sammála - henni.

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún segist ekki taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband