Ritskoðun nútímans?

Það er býsna mikið rætt um "ritskoðun" þessa dagana.  Þó held ég að það sé ekki alveg rétta orðið til að nota.

Ef til væri réttara að tala um "birtingarvald", nú eða eins og í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, "dreifingarvald".

Sé slíku valdi beitt, er það líklega í sumum tilfellum allt að ígildi "ritskoðunar", en ég myndi þó telja það annars eðlis.

En auðvitað er fjölmiðlum ritstýrt og margir hafa kvartað undan skorti á "ritstýringu" eða eftirliti á samfélagsmiðlum.

Það er vandratað á slíkum slóðum.

En eiga einhverjir kröfu á því að samfélagsmiðlar (svo ekki sé minnst á aðra miðla) skaffi þeim vettvang?

Er eitthvað óeðlilegt við að samfélagsmiðlarnir setji reglur sem allir þurfa að fara eftir?

En auðvitað vaknar spurningin um hverjir dæma þá "seku" og hvernig er að því staðið.

Hins vegar má að mörgu leyti halda því fram að vald "fjölmiðlarisa" dagsins í dag sé mun minna en var, þegar tími dagblaða og stórra sjónvarpsstöðva ríkti.

Það kostar mun minna að koma á fót samfélagsmiðli en sjónvarpsstöð (þó að sá kostnaður hafi einnig minnkað), það kostar minna að koma á fót vefmiðli en prentblaði og svo má áfram telja.

En auðvitað eru "stóru aðilarnir" ráðandi á markaðnum og ef til vill má kalla þá "hliðverði" samtímans.

Persónulega er ég þó þeirrar skoðunar að slíkar takmarkanir eða lokanir muni ekki hafa þau áhrif sem óskað er eftir, jafnvel þveröfug.

Umræðan, hvort sem við teljum hana til góðs eða ills, mun finna sér farveg og nýjir miðlar munu spretta upp.

Hins vegar getur "sómakært fólk" haldið sig á meginstraumsmiðlunum og verður enn minna vart við "vandræðagemsana" en áður.

"Pólaríseringin", verður þannig enn meiri en áður og undrunin verður enn meiri en áður þegar komist er að því að það eru ekki allir sömu skoðunar og "vinir þínir á netinu".

Sumir einstaklingar verða enn vissari um að "vinstri fasistarnir" séu að reyna að ritskoða þá, en aðrir verða þess fullvissir um að "aðgerðirnar" virki, því þessar "ógeðfelldu skoðanir sjást bara ekki lengur".

Rétt eins og "enginn drakk á bannárunum". Lausnin er að banna hlutina.

En það er hægt að velta þessum hlutum endalaust fyrir sér, og í raun er það öllum hollt.

Svo má velta því hvort að ennþá verði vilji til að brjóta samfélagsmiðla eins og t.d FaceBook upp?

Munu komandi valdhafar í Washington gera það?  Elisabeth Warren var áhugasöm um slíkt.

Eða hafa þeir komist hjá slíkum "uppbrotum" með því að taka "rétta" afstöðu?

 

 


mbl.is Google fjarlægir Parler
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband