Að gefa gjafir og að upplýsa en ekki sakfella

Þetta er að ýmsu leyti býsna merkileg frétt þó að hún sé ekki stór.

Trúarriti er haldið að börnum.  Er eitthvað rangt við það?  Ég sé að ýmsum þykir of langt gengið þegar skóli ákveður að láta foreldra vita af þessu.

Ég er ekki sammála því og mér þykja viðbrögð skólans að ýmsu leyti til fyrirmyndar.

Vissulega er ekkert saknæmt við það að bjóða börnum að þiggja trúarrit að gjöf. En í sjálfu sér er hægt að segja það sama um sælgæti, hasarblöð og flesta aðra hluti.

Skólinn hefur enga lögsögu utan skólalóðar og lögregla getur ekkert gert nema lögbrot sé framið, þó að hún geti kannað kringumstæður.

Enda get ég ekki skilið fréttina svo að skólinn sé að kalla eftir aðgerðum. Hann hefur einfaldlega látið foreldra vita. Þeir geta þá í framhaldinu rætt málið við börn sín og mælt með hvernig þau bregðast við.

Hreint til fyrirmyndar af hálfu skólans, að mínu mati. Hann veitir upplýsingar en sakfellir ekki eða kallar eftir aðgerðum lögreglu.

Staðreyndin er sú að það er engin ástæða fyrir kristið fólk að voma í kringum skólalóðir og bjóða upp á trúarrit, ekki frekar en nokkur önnur trúarbrögð.

Það vantar ekki aðstöðu til samkomuhalds, kirkjur eru í svo gott sem hverju hverfi og hægur vandi að auglýsa samkomu fyrir ungmenni og að boðið verði upp á ókeypis trúarrit.

Það væri enda í anda þess sem eignað er Jesú, leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki.  Aldrei man ég eftir því að talað hafi verið um að hann mælti með því að setið væri fyrir þeim.

P.S. Það er að mínu mati óttalega leiðinlegur blær yfir því að sitja fyrir krökkum á leið heim úr skóla. Engum til sóma.

Ég get sömuleiðis ímyndað mé að viðbrögð margra ef um önnur trúarbrögð væri að ræða.


mbl.is Býður börnum Nýja testamentið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin markaðslausn hjá Viðreisn - Sænska þingið setur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja til hliðar.

Það virðist nokkkuð ljóst að Viðreisn (og núverandi ríkisstjórn) treystir markaðnum ekki til þess að greiða starfsfólki laun eins og það á skilið - alla vegna ekki út frá kynlegu sjónarmiði.

Þar verður "mamma ríkið" að koma til sögunnar.  Þó er að þeirra mati ennþá í lagi að í fámennum fyrirtækjum sé einhver "markaðsmismunun".

Það verður fróðlegt að sjá hvað þessi íþyngjandi "tímabundna lagasetning" (hefur einhver heyrt slíkt áður frá ráðherra?) kemur til með að kosta fyrirtækin og hver muni sjá um vottunina.

Það getur vissulega orðið svo að einhver fyrirtæki fresti því að ráða 25. starfmanninn eins lengi og mögulegt er, vegna þess að þau telji að hann verði fyrirtækinu "dýr".

Það er sömuleiðis spurning hvort að fyrirtæki sem hafa aðeins annað kynið í vinnu séu undanþegin vottuninni?

Slíkt gæti verið hvati til "kynhreinna" vinnustaða.

En það er ekki ólíklegt að markaðurinn finni leið til að aðlaga sig að þessari íþyngingu eins og öðrum sem ríkið setur. Það gerist yfirleitt þó að það taki tíma.

Það er heldur ekki eins og búið sé að fullnýta hugmyndaflugið hvað varðar starfsheiti og titla.

Það má geta þess hér að lokum að samkvæmt frétt Reuters hefur sænska ríkistjórnin (sem er minnihlutastjórn) hætt við að leggja fram frumvarp um 60/40 kynjakvóta í stjórnum þarlendra fyrirtækja.

Ástæðan fyrir því er að ljóst var að þingið myndi ekki samþykkja frumvarpið.

En á Íslandi þurfa ráðherrar ekki að eiga von á neinum slíkum bakslögum.

Enda er á Íslandi, ef marka má orð stjórnarandstöðunnar, nýtekin við "harðsvíruð frjálshyggjustjórn".

 

 

 

 


mbl.is Vottað á þriggja ára fresti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband