Hvaðan koma "falskar fréttir"?

Það hefur mikið verið rætt um "falskar fréttir" undanfarnar vikur. Það má ef til vill segja að "falskar fréttir" séu af fleiri en einnar gerðar.

Ein tegund, og hún er vissulega verulega hvimleið, er hreinlega uppspuni frá rótum, oft um þekktar persónur, en einnig um "undarlega" atburði eða svokallaðar "samsæriskenningar".

Oft eru slíkar fréttir eingöngu settar fram til að afla "smella" og þannig höfundum þeirra tekna.  Slíkt var nokkuð algengt fyrir nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Mikið af "fréttunum" mátti rekja til ungs fólks í A-Evrópu og Balkanskaga sem aflaði sér umtalsverðra tekna með þeim.

Þó að fréttirnar séu misjafnar að gerð, eru margar þeirra þess eðlis að lesendum reynist ekki erfitt að gera sér grein fyrir því að trúverðugleikinn sé ekki mikill, þó að fyrirsögnin hafi verið þess eðlis að freistandi væri að skoða málið nánar.

Afbrigði af þessu má sjá víða, þar á meðal á íslenskum miðlum, en oftar er þó látið nægja að veiða með fyrirsögn, sem er tvíræð, eða leynir því hvort að um íslenska eða erlenda frétt er að ræða, en beinar "falsanir" eru lítt þekktar (nema ef til vill þegar þær eru teknar beint úr erlendum miðlum).  Músasmellir eru peningar.

En fréttir þar sem "sérfræðingar" láta gamminn geysa hafa líka aukist stórum undanfarin ár. Þar má oft lesa stórar fullyrðingar og vafasamar spár sem án efa eru mikið lesnar, en reynast oft hæpnar og beinlínis rangar.

Af þessum meiði eru t.d. þær spár frá Englandsbanka sem er fjallað um í viðhengri frétt. Þær spár fengu að sjálfsögðu mikið pláss í fjölmiðlum. Slíkt enda ekki óeðlilegt.

Spá breska fjármálaráðuneytisins af sama tilefni hefur einnig þótt langt frá lagi og verið harðlega gagnrýnd. Slíkar fréttir sem áttu margar uppruna sinn innan stjórnkerfisins voru sameiginlega kallaðar "project fear".  Þegar starfsmenn fjármálaráðuneytisins hafa reynt að klóra í bakkann eftir á, hefur komið fram að ein af forsendum útreikninganna hafi verið að Englandsbanki myndi ekki grípa til neinna ráðstafanna, yrði Brexit ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Geri nú hver upp við sig hversu líklegt væri að Englandsbanki brygðist á engan hátt við?

Það er rétt að það komi fram að þeir sem börðust fyrir jái, í Brexit atkvæðagreiðslunni gerðu sig einnig seka um að kasta fram ýmsum fullyrðingum, sem voru í besta falli misvísandi og reynast ekki réttar séu allar forsendur teknar með í reikninginn. Einhverra hluta vegna hafa þær þó fengið mun meiri athygli en fullyrðingar þeirra sem börðust fyrir nei-i.

Það má ef til vill að hluta til útskýra með því að það sé síður ástæða til að staðreyndareyna fullyrðingar þeirra sem bíða lægri hlut. En það er ekki eftir að úrslitin eru ljós sem slíkar fullyrðingar hafa áhrif, heldur í kosningabaráttunni.

Íslendingar þekkja ágætlega af eigin raun "fréttir" af slíkum toga. Hvað skýrast komu þær fram í Icesave deilunni, þar sem flestir fjölmiðlar voru fullir af "sérfræðingum" og öðrum álitsgjöfum sem kepptust um að lýsa þeim hörmungum sem myndu dynja á Íslendingum ef samningarnir yrðu ekki samþykktir.

Hvort við segjum að skoðanir "sérfræðinganna" hafi reynst rangar (falskar) eða að fréttirnar hafi verið það er líklega skilgreiningaratriði.

En það er ljóst að fjölmiðlarnir gerðu ekkert til þess að staðreynda kanna fullyrðingarnar, enda ef til vill erfitt um vik, því mér er ekki kunnugt að mikil rök hafi fylgt þeim.

Hvort skyldi svo vera hættulegra lýðræðinu, uppspuni unglinga í A-Evrópu og Balkanskaga eða "fimbulfamb" svo kallaðra "sérfræðinga"?

En eitt er víst að hvort tveggja framkallar músasmelli.

Þriðju uppspretta "falskra frétta" sem nefna má (þær eru vissulega fleiri) eru fréttastofur sem kostaðar eru af stjórnvöldum hér og þar í heiminum.

Ýmsar einræðisstjórnir (eða næstum því einræðisstjórnir) sjá sér vitanlega hag í því að fréttir séu sagðar út frá þeirra sjónarmiðum og hagsmunum.

Slíkt er orðið tiltölulega einfalt og hefur internetið gert alla dreifingu auðveldari og jafnframt ódýrari.

Á meðal slíkra stöðva má nefna sem dæmi RT og Sputnik sem eru kostaðar af Rússneskum stjórnvöldum og svo fréttastöðvar frá Kína, N-Kóreu og fleiri löndum.

Hér og þar á Vesturlöndum má verða vart við vaxandi áhyggjur af slíkum miðlum og æ ákafari áköll um að hið opinbera skerist í leikinn og reki "gagnmiðla" og skeri upp herör gegn ósannindum og "fölskum fréttum".

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að góðir og öflugir fjölmiðlar verði seint ofmetnir.

Það er því ótrúlegt ef þeirri skoðun vex stöðugt fylgi að að hinir öflugu fjölmiðlar á Vesturlöndum fari halloka gegn miðlum "einræðisríkjanna".

Ef svo er hljótum við að spyrja okkur að því hvernig stendur á því að þeir hafi tapað svo miklu af trúverðugleika sínum?

Ef það er raunin.

En ég hef líka miklar efasemdir um "sannleiksdómstól" hins opinbera, ég held að slíkt geti aldrei talist lausn. Þó er víða kallað eftir slíku og beita þurfi sektargreiðslum gegn miðlum sem slíkt birta.

Með slíkum rökum hefðu íslenskir miðlar líklega verið sektaðir fyrir að birta fleipur "sérfræðinga" sem fullyrtu að Ísland yrði eins og N-Kórea eða Kúba norðursins.

Það er engin ástæða til þess að feta þann veg.

Það er hins vegar næsta víst að fjölmiðlar muni um ókomna framtíð birta fréttir sem reynast rangar (sumir vilja meina að nokkuð hafi verið um það nú, af stjórnarmyndunarviðræðum) og alls kyns vitleysa líti dagsins ljós. Það er sömuleiðis næsta víst að einhverjir fjölmiðlar sleppa því að birta einhverjar fréttir þegar það hentar ekki einhverjum sem þeir styðja.  New York Times baðst nýverið afsökunar á slíku. CNN rak fjölmiðlamann sem lak spurningum til forsetaframbjóðenda.

Fjölmiðlar hafa aldrei, eru ekki og munu líklega aldrei verða fullkomnir.

Þess vegna eigum við öll að lesa eins marga af þeim og við komumst yfir og höfum tíma til. Það er líka æskilegt að við látum í okkur heyra ef okkur er misboðið.

En ég held að engin lausn felist í því að ríkisvæða "sannleikann", eða að koma á fót "fréttalögreglu".  Sektir fyrir rangar fréttir munu ekki heldur leysa vandann.

En við þurfum að gera okkur grein fyrir því að fréttir eru ekki alltaf réttar, þær eru líka sagðar frá mismunandi sjónarhornum.

Ef 20 manns horfa á sama atburðinn, er líklegt að lýsingar þeirra séu býsna mismunandi, jafnvel hvað snertir það sem talið væri grundvallaratriði.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að "sérfræðingar" hafa skoðanir.

 


mbl.is Hafði rangt fyrir sér um áhrif Brexit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband