Stærstu flokkarnir aldrei verið smærri

Á ýmsan máta er þetta athyglisverð könnun. Ég held að ég geti fullyrt (þó að ég hafi ekki tölulegar rannsóknir) að stærstu flokkarnir hafi aldrei verið smærri (alla vegna í langan tíma) en í þessari könnun.

Tveir flokkar rétt yfir 20% og svo nokkrir sitthvoru megin við 10% og svo annar hópur undir 5%.

Að ýmsu leiti má segja að þetta sé tilbrigði við stef sem er að spilast víðsvegar um heiminn, en þó sérstaklega í Evrópu.

"Hefðbundnir valdaflokkar" eiga undir högg að sækja og stjórnmálin eru að "sundrast" ef svo má að orði komast.

Þetta má sjá með tilbrigðum í löndum eins og Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Finnlandi, Spáni, Portúgal, Hollandi, Ítalíu, Grikklandi, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd.

Í Bretlandi hylur einmenningskjördæmafyrirkomulagið (frábært orð) þessi einkenni, sem þó komu einstaklega vel ljós í síðustu kosningum til Evrópusambandsþingsins, þar sem UKip vann eftirminnilegan sigur.

Í Bandaríkjunum má einnig sjá þess nokkur merki, enda líklega fá ef nokkur dæmi þess að frambjóðendur utan stóru flokkana njóti sambærilegs fylgis og nú (það eina sem mér dettur í hug sem væri sambærilegt er þegar Ross Perot í raun tryggði Bill Clinton sigur).

En aftur að könnuninni.

Engin flokkur virðist geta látið sig dreyma um að ná nálægt 30%, jafnvel 25% þætti gott við þessar kringumstæður.

Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja, undanfarnar vikur hafa verið honum erfiðar. Prófkjör flokksins gáfu fjölmiðlum (og óánægðum félagsmönnum) höggstað og því ekki með öllu óeðlilegt að hann láti undan síga.

Píratar láta einnig undan síga (þó að vissulega væri það meira en  frábær árangur fyrir þá að verða stærsti flokkurinn, ef þessi úrslit stæðu), og það hlýtur að vera flokknum nokkurt áhyggjuefni að hann sígur jafnt og þétt niður á við. Eftir því sem flokkurinn hefur fengið meiri athygli, hefur fylgið sigið niður á við. Það er erfitt að segja annað en að það hafi verið að nokkru verðskuldað, Píratar hafa ekki risið undir athyglinni. Prófkjörin hafa ekki skilað neinu jákvæðu til flokksins og persónulega verð ég að segja stefnumálin sem ég hef helst séð, gera Pírata ákaflega óaðlaðandi.

Viðreisn er í þessari könnun þriðji stærsti flokkurinn. Líklega má þakka það afar vel heppnaðri kynningarstarfsemi hjá flokknum sem hefur náð að kynna sig afar vel í kringum uppröðun á framboðslista. Slík velgengni á þessu stigi getur verið afar mikilvæg, dregur kjósendur og sjálfboðaliða að flokknum og ef vel tekst til getur lagt grunninn að góðum sigri.

Það má heldur ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að íslenskir kjósendur virðast um þessar mundir vera í sífelldri leit að einhverju nýju, næstum hverju sem er.

Mesta hættan sem blasir við er að kjósendur eru að mestu leiti andsnúnir aðild að Evrópusambandinu, þannig að ef andstæðingum tekst að tengja það við Viðreisn, sem og hlutdeild samtaka atvinnulífsins á framboðslistum, gæti Viðreisn fatast flugið.

Ég hygg að margir hafi orðið hissa á því að Framsóknarflokkurinn sé fjórði stærsti flokkurinn í þessari könnun.  Ef til vill er það enn ein sönnunin á því að allt umtal er betra en ekkert umtal.  Gott eða slæmt.

Það er þó alls endis óljóst hvernig spilast úr formannskosningu flokksins og "hnífsstungurnar" sem þar verða veittar gætu orðið alltof stórar til þess að náist að plástra þær fyrir kosningar.

En þessi könnun segir að frammarar eigi sjens. Barátta Sigmundar til að halda formannsembættinu hefur ekki dregið úr fylgi flokksins, þvert á móti.

Vinstri græn síga niður á við. Það kemur mér ekki á óvart, enda hafa framboðslistarnir verið að líta dagsins ljós og það er ekki beint hægt að segja að þeir séu til þess fallnir að draga fylgi að flokknum. Það verður þó að taka með í reikninginn að ég get varla talist óhlutdrægur aðili í þeim athugunum.

Samfylkingin er enn í tómu tjóni, 6. stærsti flokkurinn, enn minni en VG og svo langt síðan flokkurinn var yfir 10% að margir eru líklega búnir að gleyma því að flokkurinn hafi einus sinni þótt það dapur árangur að vera langt frá 30%.

Það er enda varla margt sem skilur orðið á milli Samfylkingar og Vinstri grænna og án þess að ég hafi framkvæmt vísindalega rannsókn hef ég það á tilfinningunni að flestir frambjóðendur beggja flokkanna reki upphaf stjórnmálaáhuga síns til Alþýðubandalagsins.

Klúður síðustu ríkisstjórnar hengur eins og mara yfir báðum flokkunum, og "Sambandsaðild" trekkir ekki að Samfylkingunni. Þar sameinast minnkandi áhugi á aðild og klúður flokksins við framkvæmd aðildarumsóknarinnar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með "litlu" flokkunum, Bjartri framtíð, Dögun, Íslensku þjóðfylkingunni, Flokki fólksins o.s.frv.

Bæði hvort að einhver þeirra nái að rjúfa múrinn, sem mér þykir frekar ólíklegt, en ekki ómögulegt, en einnig og ekki síður hvernig þeir hugsanlega geta haft áhrif á kosningarnar, því samanlagt gætu þeir gert nokkuð stóran hluta atkvæða áhrifalausan.

 

 

 


mbl.is Fylgi við Framsókn eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg staðreyndavakt

Það er mikið í tísku að standa svokallaða staðreyndavakt, enda gerir internetið það mun auðveldara en oftast áður.  Eins og stundum er sagt gleymir það engu og hægt er að finna "staðreyndir" á augabragði.

Reyndar finnst mér þær "staðreyndir" sem hér eru taldar upp flestar skipta ákaflega litlu máli og ég leyfi mér að draga í efa að nema hörðustu fylgismönnum finnist svo.

T & C stadreynd mblEn það verður ekki fram hjá því litið, að vissulega er æskilegt að stjórnmálamenn (sem og aðrir) umgangist sannleikann af virðingu.

En það er ein "staðreyndin" sem birtist þarna sem vefst mikið fyrir mér og ég get séð betur en að hún sé röng, þ.e.a.s. ef minni mitt svíkur mig ekki alfarið.

Það er fullyrðingin: "Hið rétta er að Ríki íslams á ræt­ur sín­ar að rekja til hryðju­verka­sam­tak­anna Al-Kaída í Írak, sem sunní-múslim­ar stofnuðu þar í landi árið 2004 eft­ir að Banda­rík­in réðust inn í Írak."

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að Al Qaeda samtökin hafi verið stofnuð ca. árið T & C stadreynd abc1988, af Osama Bin-Laden. Ég hef meira að segja staðið í þeirri meiningu að þau hafi skipulagt og borið (í það minnsta mesta) ábyrgðina á árásinni á World Trade Center, þann 11.september 2001.

Það er reyndar rétt að taka það fram að mbl.is gerir ekkert annað en að þýða frétt ABC sjónvarpsstöðvarinnar sem heldur því nákvæmlega sama fram.

En þetta breytir því ekki að Trump fer með rangt mál í þessu tilfelli, en það tel ég að skipti í raun ákaflega litlu máli.  Ég hef ekki trú á því að margir áhorfendur hafi litið svo á að Trump væri að halda því fram að Clinton hafi verið að berjast við ISIL frá 18 ára aldri.

En svo að búið sé til nýtt máltæki úr gömlu, hver á að staðreyndatékka staðreyndatékkarana.

Ef til vill er ekki vanþörf þar á.

 


mbl.is Staðhæfingar Trumps hraktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótt á litið virðist sem kappræðurnar hafi engu breytt

Ég horfði ekki á kappræðurnar á milli Donalds og Hillary og reikna ekki með á ég geri það, enda varla það spennandi sjónvarpsefni.

En á ferðalagi mínu um netmiðla þennan morgunin, virðist meginþemað vera að á þeim miðlum sem búast má við að fylgjendur Trump séu fjölmennari, þá vann hann og svo þar sem fylgjendur Clinton venja komur sínar í meira mæli, vann hún.

Fljótt á litið má því draga þá ályktun að kappræðurnar hafi ekki breytt neinu.

Það að Clinton hafi haft betur samkvæmt CNN kemur jafn mikið á óvart og að New York Times hafi lýst yfir stuðningi við Clinton (sem kom reyndar ekki í veg fyrir að mbl.is skrifaði að hefði vakið athygli), enda hefur NYT ávallt stutt frambjóðenda Demókrata, í að minnsta kosti u.þ.b. 60 ár, eða svo. Ég held að síðasti frambjóðandi Repúblikana sem NYT hafi stutt hafi verið Eisenhower.

Svo virðist, ef marka má skoðanakannanir, að baráttan sé nokkuð jöfn, og kosningarnar geti farið á hvorn veginn sem er.

Ég viðurkenni það fúslega að mér þykir það nokkuð merkilegt, ekki síst þegar ég tek tillit til þess að stundum hefur mér þótt hegðun Trump í þá veru að hann óski einskis heitara en að tapa kosningunum.

En ef til vill stendur upp úr í mínum huga hvað báðir kostirnir eru slakir.


mbl.is Clinton hafði betur samkvæmt CNN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband