Um hvað á að kjósa? Hvernig á að halda áfram? Hvernig á að blása lífi í "dauðar" aðlögunarviðræður?

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru tæki sem getur verið gott að grípa til, en til þess að þær virki sem skyldi þarf að vanda vel til alls undirbúnings, ekki síst til þess að ekki leiki vafi um niðurstöðurnar og hægt sé að túlka þær út og suður.

Þó að ekki hafi margar þjóðaratkvæðagreiðslur verið haldnar á Íslandi, hefur undirbúningur þeirra verið misjafn, og niðurstöður þeirra ekki endilega skýrar.

Gott dæmi um það er þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá þá sem stjórnlagaráð skipað af Alþingi samdi.

Þar voru aðeins örfáar greinar teknar til atkvæðagreiðslu, og síðan spurt hvort kjósendur vildu að sú stjórnarskrá (eða drög að stjórnarskrá) yrðu lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Verulega loðið orðalag, sem gefur stjórnvöldum tækifæri til að stefna hvert sem er með málið, því grundvöllur getur ekki talist skýrt orð.  Líklega er einhver þekktasta notkun þess í orðinu umræðugrundvöllur.

Því má ef til vill segja að kjósendur hafi samþykkt að áðurnefnd stjórnarskrá, hafi verið samþykkt sem umræðugrundvöllur, en hvað þýðir það?  Um það getur í raun enginn fullyrt, það gefur Alþingi í raun rétt til að breyta frá grundvellinum, eins og því best þykir henta.

En hið loðna orðalag hefur ekki hindrað hina ýmsu "spámenn" í að fullyrða að þjóðin hafi samþykkt nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er þó í raun fjarri sanni. Meirihluti þjóðarinnar greiddi ekki atkvæði, og af þeim sem það þó gerðu, og það er vert að halda því til haga að í hverri slíkri atkvæðagreiðslu eru það þeir sem skipta máli, þá greiddi meirihluti atkvæði með því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

Þegar þetta er haft í huga er líklega flestum ljóst að ef efna á til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort íslendingum hugnist að ganga í Evrópusambandið, eða að halda áfram aðlögunarviðræðum þar að lútandi, skiptir miklu máli að spurt sé með skýrum hætti og með eins litlum vafa eða "túlkunarmöguleikum" og hugsast getur.

Það er hafið yfir vafa að viðræður við "Sambandið" um aðild fela í sér aðlögun íslensks þjóðfélags að lögum og reglum "Sambandsins". Til þess m.a. voru IPA styrkir þeir sem "Sambandið" veitti íslendingum og þegar viðræður hættu, stóðu þeir ekki lengur til boða.

Það er því nauðsynlegt að þeir sem greiði atkvæði segi hug sinn til slíks, og til þess væri spurningin,  "Ert þú samþykk/ur því að Ísland verði aðildaríki Evrópusambandins og aðlagi lög sín og reglugerðir í þeim tilgangi", nokkuð vel fallin.

Það má auðvitað hugsa sér margar mismunandi útgáfur af spurningunni, og jafnvel að um fleiri en eina spurningu yrði að ræða, t.d. um afstöðu kjósenda til framsals á stjórn auðlinda s.s. fiskistofna o.s.frv.

Um það má lengi ræða, en er engu að síður mjög nauðsynlegt að vandað sé til verka, ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi.

En það sem er ef til vill merkilegast, er að flestir þeir sem tala um nauðsyn þjóðaratkvæðagreiðslu, tala um á þann veg að eingöngu yrði spurt um hvort að kjósendur vilji halda áfram viðræðum þeim sem hafnar voru 2010 (ef ég man rétt) og steyttu á skeri árið 2011 (ef ég man rétt) og voru endanlega lagðar í "saltpækil" af Samfylkingu og Vinstri grænum í janúar 2013 (ef ég man rétt).

Ég hef alla vegna skilið að slíkt sé vilji Samfylkingar, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Pírata.

En ég get ekki skilið hvernig þessir flokkar hafa hugsað sér að "lífga" við aðlögunarviðræður sem sigldu í strand fyrir u.þ.b. 5 árum. Og ég hef engan af þeim sem leggja til slíka þjóðaratkvæðagreiðslu segja neitt um slíkt, eða að nokkurn fjölmiðill hafi lagt þá grundvallarspurningu fyrir þá.

Það er meira en að segja það að taka upp þráðinn í samningaviðræðum sem þar sem ekkert hefur gerst í meira en 5 ár og ef að Alþingi tekur ekki frekari umræður um aðildarumsókn, þá gilda enn þau samningsmarkmið sem sett voru fram í skýrslu utanríkismálanefndar.

En ef þeim væri breytt, væri ekki rökrétt að segja kjósendum að um sömu viðræður væri að ræða.

En hvernig vilja Samfylking, Viðreisn, Björt framtíð og Píratar taka upp þráðinn?

Hyggjast þau senda Steingrím J. Sigfússon aftur til Brussl til þess að krefjast rýniskýrslu í sjávarútvegi? Eða telja þau að t.d. tvíeyki eins og Birgitta Jónsdóttir og Benedikt Jóhannesson næði betri árangri?

Enginn virðist vilja horfast í augu við þann veruleika að aðlögunarviðræðurnar sigldu í strand, og Evrópusambandið neitaði að opna á viðræður um mikilvægustu hagsmunamál Íslendinga.

En "Sambandssinnarnir" neita að láta slíkt stöðva sig í því að þeirri blekkingu að nauðsynlegt sé að greiða atkvæði um "viðræður".

Þeir reyna að telja kjósendum trú um að ekkert þurfi að gera nema að fljúga út til Brussel og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og það sé einmitt það sem þeir vilji þjóðaratkvæðagreiðslu um.

Enginn nefnir hvernig hann vilji blása lífi í "dauðar" aðlögunarviðræður.

Enginn fjölmiðill spyr þeirrar spurningar.

Kjósendur láta blekkjast því hver vill í raun vera á móti "viðræðum"? Er ekki gott að þjóðir, þjóðabandalög og raunar hver sem er ræði saman?  Er einhver ástæða til að vera á móti því?

Staðreyndin er sú að viðræðurnar sigldu í strand, líklega ekki hvað síst vegna afstöðu Íslendinga í sjávarútvegsmálum.

Og þær verða að öllum líkindum jafn strandaðar nema Íslendingar vilji gefa eftir í þeim málaflokki.

Ef til vill væri það rétta spurningin fyrir þjóðaratkvæði.

 


mbl.is Verður kosið um Evrópusambandið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband