"Sambandið" sjálft skiptir Íslendinga ákaflega litlu máli

Hvort að Evrópusambandinu gengur vel eða illa, skiptir Íslendinga í raun littlu máli. Það er enda langt í frá að "Sambandið" sé ein heild, enn að minnsta kosti.

Enda gengur sumum aðildarlöndum þess vel, en öðrum illa. Æ fleiri eru á þeirri skoðun að það sé ekki síst vegna sameiginlegrar myntar margra landa "Sambandsins" sem ýmsum þeirra vegnar svo miður.

En heilt yfir er það Íslendingum í hag að flestum þjóðum gangi vel.

Það væri gott fyrir Íslendinga að Portúgölum og Spánverjum vegnaði betur og keyptu meira af íslenskum vörum.

Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að Bretum gangi allt í haginn, enda fáar ef nokkur þjóð mikilvægari Íslendingum viðskiptalega séð. Þess vegna ættu allir Ísleningar að óska þess að útganga þeirra úr "Sambandinu" takist vel, og samningaviðræðurnar stjórnist af sanngirni og sameiginlegum hagsmunum en ekki hefnigirni.

Það væri óskandi fyrir Íslendinga að Nígería rétti úr kútnum, svo hægt sé að selja þangað meira af sjávarafurðum.

Þannig má lengi telja. Og ekki bara fyrir Íslendinga, heldur heimsbyggðina alla.

Velgengni annara smitar út frá sér og viðskipti almennt séð auka velmegun og velmegun eykur viðskipti.

Til lengri tíma litið er líklegt að "Sambandslöndin" verði æ minna mikilvæg fyrir Ísland og er það líklega vel. Ekki sísta eftir að Bretland mun segja skilið við "Sambandið".

Aðrir heimshlutar vaxa hraðar og hlutfall þeirra af heimsviðskiptum aukast.

En að sjálfsögðu viljum við að öllum gangi vel.

 

 


mbl.is Mikilvægt að ESB gangi vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í raun ótrúlegt að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til þess að leikstýra Skaupinu

Persónulega hef ég mikið álít á Jóni Gnarr, það er að segja sem grín og húmorista, en síður sem stjórnmálamanni. Ég hef skemmt mér vel yfir ótal mörgu sem hann hefur komið að á grínsviðinu, það að liggur nærri að ég horfi á Vaktaseríurnar einu sinni á ári (sérstaklega ef ég verð veikur og held til í rúminu einn dag eða fleiri).

Það verður þó ekki frá honum tekið að hann náði frábærum árangri í kosningabaráttu, þó eðli málsins samkvæmt séu líklega skiptar skoðanir um hve vel honum tókst upp sem stjórnmálamanni.

En ég get ekki að því gert að mér finnst það virka nokkuð tvímælis af ríkisstofnun sem lögum samkvæmt þarf að feta eftir bestu getu þröngan stíg "hlutleysisins" að ráða fyrrverandi stjórnmálamann til að leikstýra Áramótaskaupinu.

Það felur einhvern veginn ekki í sér hlutleysi að mínu mati.

En hver veit, ef til vill leitar RUV til Davíðs Oddssonar næst. Hann á einnig glæstan feril í gríninu að baki, þó að vissulega sé lengra síðana að Matthildar þættirnir þóttu hin mesta snilld.

Ekki er að efa að um slíka ráðningu myndi ríkja almenn sátt í þjóðfélaginu.

 


mbl.is Jón Gnarr leikstýrir Skaupinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband