Hver er lausnin fyrir Íslendinga í menntamálum?

Það má auðvitað ekki líta á PISA sem hinn endanlega stóra dóm yfir íslensku menntakerfi.

En það má heldur ekki líta fram hjá þeirri einkunn sem það fær. Það er varla til neinn betri samanburður á milli landa.

En burtséð frá því hvernig Ísland kemur út í samanburði við önnur lönd, er niðurstaðan ill ásættanleg og allra síst að þróunin liggur niður á við.

En hvað veldur?

Því er ábyggilega erfitt að svara, og á því sjálfsagt margar mismunandi skoðanir. En ég held að vandamálið verði ekki leyst með því einu að segja að það þurfi meiri fjárveitingar.

Niðurstaðan bendir til þess að eitthvað meira sé að en að lausnin geti verið fjármunir einir saman.

Ég held að Íslendingar hljóti að þurfa að huga að endurskipulagningu kerfisins í heild. Það er í raun undarlegt þegar litið er til þessarar niðurstöðu að gripið hafi verið til þess ráðs að stytta framhaldsskólann, eins og það væri líklegt til að skila betra menntakerfi í heild.

En eitt af því sem mér þykir eftirtektarvert við PISA niðurstöðuna er hvaða Evrópuland kemur í raun best út.  Það er ekki eitt af Norðurlöndunum, það er ekki eitt af "ríku" löndunum í N-Evrópu.

Það er Eistland sem kemur í raun best út þegar dæmið er skoðað í heildina, stærðfræði, náttúruvísindi og lesskilningur.

Til þess að gera fátækt land í A-Evrópu, þar sem þjóðartekjur eru verulega lægri en á Íslandi og landið eyðir líklega lægra hlufalli af þeim í menntun en Íslendingar.

Land sem neyddist til að skera heiftarlega niður í framlögum til menntunar vegna afleiðinga fjármálakreppunnar, vegna þess að Eistland safnar ekki skuldum.

Kennaranám er 5 ár, meðallaun þeirra um 1100 euro (sem er rétt yfir landsmeðaltali), byrjunarlaunin rúmlega 900 euro (sem er undir landsmeðaltali).

Landsmeðaltal fyrir bekkjarstærð er ekki ýkja há, en í borgunun (og sérstaklega í þeim skólum sem oft eru taldir "betri") er ekki óalgengt að yfir 30 nemendur séu í bekk.

Allir nemendur fá ókeypis hádegismat, yfirleitt einfalda rétti.

Einkarekstur þekkist á eistneskum skólum, en þó er líklega um 90% af grunnskólum reknir fyrir framlög hins opinbera.   En skólarnir eru sjálfstæðir, taka mikið af sínum ákvörðunum "innanhúss" og hafa mikið að segja um kennsluaðferðir.

Grunnskólar geta verið bæði "opnir" og "lokaðir", og vísar það til "umdæmis" og hvort þeir taka inn nemendur utan skólasvæðis.  Sumir skólar eru bæði, það er eru til dæmis með 2. "stofur" fyrir sitt umdæmi og svo eina eða tvær "stofur" fyrir nemendur "utan svæðis".  Í flestum tilfellum þurfa þeir nemendur að þreyta inntökupróf.

Þetta fyrirkomulag og sú samkeppni sem byggst hefur upp á milli skóla og á milli nemenda virðist henta Eistlendingum vel og hefur skilað þeim vel áfram í skólamálum.

Það er alls ekki þar með sagt að slíkt kerfi myndi henta á Íslandi.  En mér þykir þó það blasa við að Íslendingar þurfa að fara í uppskurð á sínu kerfi og leita fanga víða.

En skólakerfi er eitt af þeim kerfum sem alls ekki á að umbylta á stuttum tíma.

Það þaf að huga vel að málunum og vanda til verksins.

Til lengri tíma litið ætti það ekki að vefjast fyrir íslenskum nemendum að fara á sama hraða og nemendur annarr ríkja gera.  Útskrifast úr framhaldsskóla 18 ára.

En slíkar breytingar þarf að undirbúa vel.

Í Eistlandi má líklega skipta þeim ferli í þrennt (svo þeir séu einfaldaðir örlítið) 6. ár grunnskóli sem hefst við 7 ára aldur, 3ja ára miðskóli og svo 3ja ára framhaldsskóli.

Skólatími er ekki lengri en á Íslandi. Skóli hefst 1. september og lýkur í kringum 10. júni.

 

 


mbl.is Skuldum börnunum okkar að gera betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. desember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband