Annað "bílslys" í uppsiglingu? Varúð til vinstri

 "Hreina tæra" vinstristjórn Samfylkingar og Vinsri grænna vildi ekkert frekar en að umbylta umhverfi sjávarútvegsins og lagði fram frumvarp þess efnis.

Sem betur fer tókst að stöðva það.

Það frumvarp var svo illa úr garði gert að jafnvel einn af ráðherrum vinstri stjórnarinnar líkti því við "bílslys".  Og þar var engin trygging sem hefði bætt þjóðinni skaðann.

Og enn eru uppi áform um að gjörbylta umhverfi sjávarútvegs á Íslandi. Nú heitir það "Uppboðsleiðin" eða "Færeyska leiðin".

En eins og kemur fram í fréttinni hefur sú leið aðeins verið reynd á örfáum stöðum með frekar slæmum langtímaáhrifum (sem á þó ekki við um Færeyjar þar sem engin reynsla er komin þar).  Það er í raun gríðarleg rangfærsla að tala um "Færeyska leið" því þar hefur aðeins mjög takmörkuð tilraun átt sér stað, engin reynsla komin, og mjög skiptar skoðanir um hve vel uppboðin hafi gefist.

En það stoppar ekki hina ýmsu íslensku stjórnmálaflokka í því að fullvissa kjósendur um ágæti "Uppboðsleiðarinnar" og nefna jafnframt fjálglega allt það sem þeir vilja "kaupa" handa kjósendum fyrir "allan peninginn".

Enn eru þessir flokkar reiðubúnir til að stefna grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar út í algera óvissu og sjá svo til.

Það er ekki óeðlilegt að misjafnar skoðanir séu uppi um sjávarútveg. Afkoma greinarinnar hefur verið góð undanfarin ár, það má segja að svo hafi verið næsta samfleytt frá bankahruninu.

En árin þar á undan voru misjöfn, og aftur fara tekjur útgerðarfyrirtækja (og jafnframt sjómanna) minnkandi eftir því sem krónan styrkist.

Það er því eins víst að styrkur (og hagnaður) sjávarútvegsfyrirtækja fari minnkandi á komandi árum.

Það þarf dálítið af sjálfseyðandi hvöt til að vilja stefna undirstöðuatvinnuvegi þjóðar í hættu. En það var einmitt vænn skammtur ef þeirri sömu sjálfseyðingarhvöt sem sjá mátti hjá stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili.

Það var einmitt þess vegna sem fall þeirra var svo stórt í síðustu kosningum.

Það er óskandi að Íslendingar leiði ekki sjálfseyðingu að stjórnvellinum á ný.

Það er eðlilegt að rætt sé um hvernig best sé að ráða málum hvað varðar auðlindir Íslands, ekki síst hina gjöfulu sjávarauðlind.

En þar er síst þörf á byltingu, þar er ekki rétti staðurinn til að umturna.  Þar er staðurinn til þess að fara sér hægt, ræða málið til hlýtar, hafa breytingar hægar, "þreifa" fyrir sér og halda í það sem vel hefur gefist.

Íslendingar hafa ekki efni á "bílslysum" í sjávarútvegsmálum.

 

 

 

 


mbl.is „Verðum að líta til reynslu annarra þjóða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búrkur eða ekki búrkur?

Enn og aftur eru búrkur í umræðunni, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu og sitt sýnist hverjum.

Ég bloggaði um búrkur, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu var að fjalla um lögmæti búrkubanns í Frakklandi.

Ákvað að endurbirta það blogg hér og nú:

Víða um heim hafa komið upp áleitnar spurningar og hart verið deilt um hvort banna eigi að einstaklingum að klæðast búrkum eður ei.

Það er skoðun margra og ég get tekið undir hana að flestu leyti, að það sé út í hött að banna einstaklingum að klæða sig á ákveðin máta.  Hvort sem það er að trúarlegum ástæðum, eða einhverjum öðrum, hljóti það að vera ákvörðun hvers og eins.

Má þá ekki alveg eins banna of stutt pils, of lítil bikini, eða of aðskornar og þröngar sundskýlur?

En búrkan er þó örlítið annars eðlis.  Þó að hún eins og bikini og sundskýlur, þyki oft ögra ríkjandi viðurhorfum, gerir hún það á annan hátt.

Hún hylur viðkomandi einstakling og gerir í raun ókleyft að bera kennsl á hann.  En það er einmitt einn af hornsteinum nútíma vestræns samfélags.

Ef okkur þykir sjálfsagt að samþykkja búrkur, verðum við líka að velta fyrir okkur hvað okkur þykir eðlilegt að neita þeim um,  sem klæðist henni. 

Hvaða réttindum afsalar sá er klæðist búrku sér?

Er ekki eðlilegt að neita einstaklingi í búrku um að kjósa?  Væri eðlilegt að neita einstaklingi í búrku að keyra bil?  Þætti ekki flestum sjálfsagt að neita einstaklingi í í búrku um að greiða með debet eða kreditkorti?

Varla gæti nokkur vafi leikið á því að einstaklingi í búrku yrði neitað um að opna bankareikning.  

Gæti einstaklingur í búrku sótt sér aðstoð hjá Tryggingastofnun, eða félagsaðstoð sveitarfélaga?

Þætti ekki sjálfsagt að neita einstaklingi i búrku um afgreiðslu í ÁTVR? (Nú veit ég að að múslimar neyta öllu jöfnu ekki mikils áfengis, en þetta á auðvitað fyrst og fremst við þegar þessi létti og þekkilegi klæðnaður yrði að almennri fatatísku).

Getur einstaklingur í búrku fengið vegabréf eða ferðast á milli landa?

Getur einstaklingur í búrku fengið að taka próf í framhaldsskólum eða háskólum?  Eða yfirleitt fengið inngöngu í slíka skóla?

Væri það samþykkt að einstaklingi sem klæddist búrku yrði sagt upp atvinnu sinni, vegna gruns um að það væri ekki sami einstaklingur og hefði komið í atvinnuviðtal? Eða sá sem hefði verið í vinnunni í síðustu viku?

Eflaust velta fyrir sér fleiri álitamálum, en ég læt hér staðar numið.

Finnst okkur eðlilegt og sjálfsagt að einstaklingur afsali sér þessum réttindum, eða gerum við ráð fyrir að búrkan sé eingöngu notuð við einstök tækifæri?

Er sjálfsagt að einstaklingurinn afsali sér slíkum réttindum, ef að hann gerir það sjálfviljugur?

Hvernig getum við verið viss um um um sjálfstæðan vilja sé að ræða?

Eða eins og einn kunningi minn sagði þegar svipað var rætt:  "Samþykkjum við þá þrælahald, ef einstaklingur segist vera í því af fúsum og frjálsum vilja?"

Engin þjóð sem ég man eftir hefur gengið jafn langt í að reyna að aðskilja trúarbrögð frá hinu opinbera lífi og Frakkar.  Og þeim hefur gengið það býsna vel.  Trúartákn og annað slíkt lúta ströngum reglum.  Engin giftir nema hið opinbera. Síðan getur hver sem er "blessað" sambandið.

En það verður fróðlegt að heyra af því hvernig niðurstaðan í þessu máli verður.  Hún getur haft mikil áhrif í Frakklandi og víðar.

Persónulega spái ég því að bannið verði dæmt lögmætt.  En það eru vissulega sterk rök, bæði með og á móti.

 


Oft eru átök orsök framfara og þess virði að í þeim sé staðið

Það er að mínu mati ekki fyllilega rökrétt að bera saman embætti forseta Íslands og foringja stjórnmálaflokks.

En líklega er Róbert Marshall ekki einn um að vilja sjá með þeim líkindi.

Það verður æ alengara í stjórnmálum (og ekki bara íslenskum) að stjórnmálaforingjar sjái sinn helsta tilgang í "borðaklippingum", "tækifærisræðum" og "pólítískum sjálfum" (sjálfsmyndum). 

Líklega hefur sú stjórnmálamenning óvíða risið hærra en í Reykjavíkurborg undanfarin kjörtímabil.

Slík "stjórnmál" geta hins vegar virkað vel hjá næsta valdalitlum forseta, en síður hjá "hefðbundnum pólítíkusum". Þó getur forseti þurft að "efna til átaka", þó að hann standi svo ekki í þeim miðjum.

Forseti Íslands hefur þrívegis (sumir myndu ef til vill segja oftar) efnt til mikilla innanlands átaka, tvívegis um IceSave og einu sinni um "Fjölmiðlafrumvarpið" svokallaða. Ef ég man rétt voru síðast nefndu átökin Róberti Marshall mjög að skapi og hafnaði hann öllum "sáttum" sem þar voru boðnar.

En hin átökin, um IceSave, voru vel þess virði að taka. Þar voru þingmenn Samfylkingar og stór hlut þingmanna Vinstri grænna reiðubúnir til að skrifa undir IceSave I án þess að þingmenn fengju að lesa samninginn (ef ég man rétt var Róbert Marshall einn af þeim).

Sem betur fer voru aðrir tilbúnir í átök.

Og það hafa verið átök um mörg mál undanfarin ár.  Eitthvert stærsta mál undanfarinna ára, umsókn Íslands að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi með naumum meirihluta, ekki án átaka og ekki án þess að þingmenn s.s. Róbert Marshall höfnuðu því að reyna að byggja meiri sátt um málið og að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

En þannig er það, stjórnmál eru barátta hugmyndanna, það er ekki alltaf sem þær betri verða ofan á, en matið á slíku byggist ekki síst á sjónarhorninu.

Síðan er það sagan sem dæmir, en meira að segja hún er ekki óskeikul og dómur hennar er breytilegur, bæði eftir höfundum hennar og þeim tíma og stað sem hún er skrifuð.

En ég vona að átök séu ekki liðin tíð í íslenskum stjórnmálum.

Oft er þeirra þörf og þau undanfari framfara og umbóta, þó svo sé vissulega ekki í öllum tilfellum.

Eða eins og einhver sagði einhvern tíma, sá stjórnmálamaður sem öllum líkar við er stjórnmálamaður sem ekkert hefur gert.

 

 

 


mbl.is Átök meginstef ferils Sigmundar Davíðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband